Færsluflokkur: Dægurmál

Á sandölum og ermalausum bol

Skólaslit hjá stóru strákunum mínum í dag.  Ég fór fyrst með þeim yngri í Seljakirkju í morgun og það örlaði fyrir auka hjartsláttum hjá mér, þegar hann fékk einkunnirnar sínar.  Sjálf er ég með mikinn metnað fyrir námi og gekk vel í skóla.  Ég lærði þangað til ég var viss um að ég kynni efnið mjög vel og það skilaði mér slatta af verðlaunum við stúdentsprófið:)  Mér hefur fundist vanta smá metnað í mína stráka og því var ég með smá kvíðahnút í maganum yfir dómi dagsins.  En ég hefði ekki þurft að hafa miklar áhyggjur, báðir strákarnir mínir stóðu sig vel á prófunum og luku sínu skólaári með um 8 í meðaleinkunn. 

Það var því tilefni til að gera dagamun í dag.  Við byrjuðum á því að fara í skóbúð og keyptum sandala á mannskapinn, við verðum jú mikið í sól og hita í sumar og því verða þeir að eiga góða opna skó.  Síðan fórum við og fengum okkur að borða á American Style.  Sá yngsti vildi auðvitað setjast að á veitingastaðnum.  Bæði fannst honum fría áfyllingin á gosinu afskaplega freistandi og svo var það barnaherbergið sem honum fannst enn meira spennandi.  Í kvöld ætlum við að hafa það kósý yfir vídeó og poppi...

Góða helgi

Kolbrún


Skólastarf í grunnskólunum

Nú fer blessaður grunnskólinn að fara í sumarfrí hjá strákunum mínum og ég segi nú bara, þó fyrr hefði verið.  Ég er eiginlega hund pirruð yfir skólastarfi strákanna minna síðustu daga.  Annar á að mæta kl 10 einn daginn, hinn kl 9.  Annar er að fara í húsdýragarðinn, hinn er að fara í Elliðadalinn.  Annar má hafa með sér bakkelsi úr bakaríinu, hinn ekki.  Annar er búin kl 11 í dag, hinn kl 12.  Annar á að koma með 700 kall í skólann í dag, hinn á að koma með 500 kall í skólann á morgun.  Öll kennsla er löngu búin í skólanum og skólinn virðist bara vera að drepa tímann út vikuna, börnin mæta stutt í skólann alla daga og þegar ég spyr hvað þeir hafi verið að gera, þá bara...úti að leika og að horfa á vídeó.

Ég held að börnunum þætti bara betra að skólanum lyki fyrr að sumrinu og það væri hefðbundin skólin þá þangað til.  Þetta er bara rugl eins og þetta er núna, allavega finnst mér það sem foreldri.

Þegar strákarnir mínir komu heim í dag fór ég með þeim í Perluna og við fengum okkur ís.  Frábær dagur hjá okkur.  Ég hef ekki oft komið í Perluna í þessum tilgangi og mér fannst sérstaklega gaman að fylgjast með mannflórunni á fjórðu hæðinni í Perlunni.  Þarna voru að mér sýndist saumaklúbbar, fólk með námsbækur, fólk í viðtölum fyrir einhver tímarit, ljósmyndarar að taka myndir af tímaritafólkinu, fólk að lesa blöðin og auðvitað fullt af útlendingum.  Sérstök stemming, við hliðina á ísbúðinni er svo jólabúð og minjagripabúð.  Minnsta syni fannst gosbrunnurinn mjög spennandi í Perlunni í dag og hann hafði svo hátt þegar hann gaus að það glumdi í allri Perlunni, hann raskaði ró þeirra sem höfðu sest í rólegheitum með kaffibollann sinn:)  En það eina sem hann sagði (bara soldið mikið hátt) var VÁ VÁ VÁ  Mamma sjáðu vatnið fara upp.

Out

Kolbrún


Hangikjöt, hákarl, flatkökur og íslenskt brennivín

Hljómar kannski eins og matur á þorrablóti en við fjölskyldan vorum í matarboði hjá tengdó í kvöld þar sem var boðið upp á þetta allt saman og meira til.  Ástæðan.... Kanadískur vinur bróður mannsins míns (langsótt ég veit) er í heimsókn á Íslandi og því var boðið til þessarar góðu veislu.  Emil hreinlega fór á kostum í kvöld, þvílíkt sem hann var hrifinn af Kanadamanninum, honum Dave.  Ég stóðst ekki mátið og tók slatta af myndum í kvöld.  Þær eru í nýjasta albúminu:)

Set samt eina flotta hér á forsíðuna af Emil og Dave.  Dave var að róa Emil litla aðeins niður, það var þokkalegur galsi í honum.

mér finnst þessi mynd alveg frábær af Dave og Emil

Out

Kolbrún


Leikið með umsjónafélagi einhverfra

Frábær dagur að baki.  Við fjölskyldan fórum í dag á hátíð hjá umsjónarfélagi einhverfra.  Umsjónarfélag einhverfra hélt upp á 30 ára afmælið sitt í dag í fjölskyldu og húsdýragarðinum.  Þetta var alveg frábær skemmtun, boðið var upp á grillaðar pylsur og góðgæti á eftir, leikfélag kom og sýndi atriði úr dýrunum í Hálsaskógi og svo kom Magni Rockstar og tók nokkur lög. 

 

 

Strákarnir skemmtu sér alveg rosalega vel í dag.  Eftir skemmtiatriðin var farið í leiktækin, stóru strákarnir fóru í ógnvekjandi tækin á meðan litli ungin á heimilinu fór í hringekju og lestina. 

Þegar við vorum búin að vera í húsdýragarðinum í dag var ferðinni heitið í afmæli til pabba.  Pabbi minn er 57 ára í dag og bauð til veislu.  Til hamingju með afmælið elsku pabbiWizard

 Og gleðin hélt áfram.  Emil var svo heppinn að hann fékk Hermann vin sinn til að sofa hjá honum í nótt.  Núna eru þeir félagarnir með pabba niðri að lesa og að búa sig í háttinn.

Það eru fleiri myndir eftir daginn í albúmi.

Kolbrún out (safnar kröftum fyrir morgundaginn, það er víst eitthvað spennandi planað þá líka:)


Lífið mitt er einn stór rússíbani

russibani

 

Hef ekki einbeitingu til að skrifa neitt inn á bloggið mitt.

Lífið mitt er rússíbani í dag.

Ástæðan:  Skrifa hana þegar ég sjálf er tilbúin til þess.

Kolbrún out


Ásta Lovísa

Ég hef fylgst með baráttu þessarar ungu konu í langan tíma.  Mikið finn ég til með börnunum hennar og unnusta og fjölskyldunni allri núna.  Megi hún hvíla í friði.  Hún var baráttukona sem maður getur lært mikið af.

Kolbrún


mbl.is Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Söfnunaráráttan

Jæja þá er hvítasunnuhelgin að baki.  Ég held að allir fjölskyldumeðlimir séu sáttir við helgina enda höfum við fjölskyldan verið á flakki alla helgina.  Við höfum farið í grillveislu til afa og ömmu í breiðholtinu, kaffi til langömmu og langafa í kvíslunum, göngutúr, róló, bíltúr og margt fleira... á milli þess sem húsmóðirinn þurfti að sinna vaktaskyldu sinni í vinnunni. 

Ég er búin að setja inn fullt af nýjum myndum í albúmið frá helginni, gjössogvel:) 

Ég fór að hugsa í dag, þegar við vorum í heimsókn hjá langömmu og langafa strákanna hvað við fjölskyldan erum ótrúlega dugleg að safna hlutum.  Amma og afi gáfu Jóni Inga lyklakippur sem þau höfðu keypt handa honum á Spáni en Jón hefur safnað lyklakippum frá því hann var lítill.  Hann á ótrúlegt safn af lyklakippum, örugglega eitthvað á annað þúsundið.  Hann hefur komið fram í sjónvarpinu með lyklakippusafnið sitt og í tímaritinu Séð og heyrt auk þess sem hann hefur haldið eina sýningu á safninu.  

 jon_ingi_sedogheyrt

Hafsteinn fékk spilastokk frá Spáni frá ömmu og afa en hann hefur safnað spilastokkum í þónokkurn tíma.  Stokkarnir hans skipta tugum og erum eins mismunandi og þeir eru margir.  Helst vill hann fá stokka sem ekki hafa verið opnaðir og eru enn með plastinu á.  Stokkana geymir hann svo vandlega í pappakassa í herberginu sínu. 

Húsmóðirinn á heimilinu á þó sjálfsagt metið í því að safna einhverju.  Ég byrjaði á því sem barn að safna servéttum og þó að ég sé löngu hætt að safna þeim, þá á ég mörg hundruð servéttur í geymslunni minni, allskonar servéttur, mikið af seríum, fermingarservéttum frá ættingjum, jafnvel brúðkaupsservéttu frá því að foreldrar mínir giftu sig.  Í dag safna ég Georg jensen jólaórum og á eina 14 þannig, ég safna líka Georg Jensen hnífapörum, bjórglösum frá Casa (þessum sem eru engin eins), 3329_im_Bierglas_BIERENBROOD_FFMsnafsaglösum frá Royal Copenhagen og svo auðvitað svínunum mínum:)  Yngsti sonur safnar svo sem ekki neinu enn sem komið er, húsbóndinn safnar helst dvd myndum og á myndarlegt safn af þeim.

Þá vitið þið allt um söfnunaráráttu fjölskyldunnar:)

 

Out

Kolbrún


Ég fékk mér sílíkon í dag!!!!!

Já, ég fór í verslun hér í borginni og keypti mér tvö stykki sílíkon JÓLAKÖKUFORM.  Strákarnir mínir hreinlega elska bananabrauð og kryddbrauð og mér finnst svo leiðinlegt að ná þessum brauðum úr forminu að ég ákvað að prófa sílikon.  Og þvílík snilld.  Núna eru tvö fullkomin bananabrauð á borðinu hjá mér, ekkert smjörlíki í forminu, og ekkert brotið af brauðinu.  Ég bara flétti sílikoninu og OLA fullkomin brauð. 

Væri heimurinn ekki leiðinlegri ef ég væri ekki að segja ykkur þessa snilldarpunkta, hehehehehe

Mæli með því að fólk fjárfesti í svona formum...

Bloggstíflan hefur greinilega fjarað út:)

Kolbrún out


Marimekko

Ég hef sérstakt dálæti á vörumerkinu Marimekko.  Ég á nokkra hluti á mínu heimili í þessu vörumerki og langar í svo miklu miklu fleiri.  Sá hlutur sem ég nota mest frá þessu frábæra vörumerki er taskan mín, ég fer ekki út úr húsi án hennar.  Ég var svo heppinn að fá að gjöf tösku í nýjustu línu Marimekko og er hún hreinlega æðisleg. 

Í dag var ég að keyra elsta son á íþróttaæfingu.  Við vorum að ræða um daginn og veginn í bílnum á leiðinni og allt í einu sagði hann mér frá því að nú væru stelpurnar í bekknum hans farnar að vera með "svona tösku eins og þú átt" í skólanum.   Ég náttúrulega var bara upp með mér og spurði hann hvort að mamma hans væri þá í tískunni.  Hann vildi nú ekki viðurkenna að honum finndist flott að mamma sín væri með tösku eins og 12 ára bekkjarsystur sínar.... og ég hló og ég hló og ég hló.

Marimekko4-14Logo

 

over and out

Kolbrún í unglingatískunni.


Stubbalubbar

Hárgreiðslustofan Stubbalubbar græddu á mér í dag.  Ég hafði pantað tíma fyrir yngsta son þar í klippingu fyrir heilli viku síðan (já það er vikubið eftir klippingu fyrir börn) og hann átti tíma seinnipartinn í dag.  Það er skemmst frá því að segja að drengurinn sat í bílahárgreiðslustólnum í 30 mínútur og sprautaði vatni út vatnsbrúsa stofunnar á gesti og gangandi og kom nánast óklipptur út.  Drengurinn hlýtur að vera með hálsríg, þvílíkt viðbragð í aðra átt hjá honum þegar skærin komust nálægt honum.  Fyrir þetta borgaði ég næstum 3000 kr.

Ég veit ekki til hvaða hárgreiðslustofu ég á næst að styrkja, það er allavega alveg ljóst að drengurinn þarf á klippingu að halda.

Kolbrún out


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Kolbrún bloggar

Höfundur

Kolbrún Jónsdóttir
Kolbrún Jónsdóttir

Smellið á myndina og þá fáið þið allar upplýsingar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband