Frumburðurinn komin með bóluna

Já, frumburðurinn okkar sem er á fjórtánda ári er komin með unglinga graftabólu og er ekki par hrifinn af því.  Hann hefur undanfarna mánuði verið að taka út hellings unglingsþroska með tilheyrandi breytingum á líkama og rödd.  Röddin er farin að bresta.  Hann er að breytast í fullorðinn mann og mér finnst það svoooo skrýtið.  Ég man eins og gerst hefði í gær þegar við stoppuðum í Ártúnsbrekkunni þegar við vorum á leið með hann heim af fæðingardeildinni, til að athuga hvort hann andaði.  Þvílíkt miklir nýgræðingar í barnastússi.  Og þrátt fyrir að enn geti ég kennt frumburðinum mínum margt, þá getur hann líka kennt mér heilan helling um hugarheim unglingsins í dag.  Stundum hefur hann ekki alveg þolinmæði fyrir skilningsleysi mömmu sinnar, ég held að hann haldi stundum að ég hafi aldrei verið unglingur, bara mamma heh.  En hann er yndislegur eins og hann er  og það er svo gaman að fá að sjá hann breytast úr barni í fullvaxta mann sem er farin að gera sín eigin plön fyrir framtíðina.

En að öðru... rignigin kom loksins í gær til Horsens og var hún mjög kærkomin og boðin velkomin.  En hún stóð ekki lengi og nú er sólin farin að skína aftur sem aldrei fyrr og spáin góð fyrir næstu daga.  

Vindmyllan í Vejle Gummi er farin frá okkur en hann flýgur heim til Íslands í kvöld.  Síðasta deginum hans hér eyddum við með honum ásamt Bertu og Hermanni í Vejle.  Við fórum og sýndum honum vindmylluna í Vejle og svo beint í hans uppáhald shopping shopping shopping.  Nýlega var opnuð verslunar kringla í Vejle og lá leið okkar þangað í dag ásamt því sem við fórum á göngugötuna í Vejle.  Gumminn er því flogin heim í kuldann með fullar töskur og þökkum við honum kærlega fyrir samveruna síðustu viku. 

Það er ekki langt að bíða næstu gesta en í næstu viku er von á mömmu og pabba, Guðborgu og fjölskyldu, Gunnu, Óskari og Erlu Björg og svo er planið að reyna að hitta líka Bjargey sem er að koma í stutta ferð til Danmerkur.  Það verður því engin lognmolla í kringum okkur næstu daga.  Svo er ég auðvitað að fara í þrítugs afmælispartý á föstudaginn til Kiddu og það verður örugglega gaman.  

En ég bíð góða nótt í kvöld og ætla að leggjast á koddann með nýjustu bókina sem er á náttborðinu mínu.  Það er bókin Einhverfa, spurt og svarað sem Gunna var svo elskuleg að senda mér.  Frábær bók sem allir ættu að láta sig varða og lesa.

Nýjar myndir í nýju albúmi

Nótt Nótt

Kolbrún 


Mikið um að vera þessa helgina

Við Berta með GummaJæja þá, þessi helgi hefur runnið sitt skeið á enda og eftir stendur þreytt fjölskylda eftir atburði helgarinnar. 

Berta bauð í þrítugsafmæli sitt í gærkvöldi.  Bauð hún upp á góðan kvöldverð og góðan félagsskap og auðvitað endaði kvöldið með því að horfa á úrslitakeppnina í Eurovision.  Það var ekki laust við að það gætti svolítilla vonbrigðra þegar ljóst var að Ísland myndi ekki standa uppi með sigurinn í Eurovision 2008 en margir höfðu kannski fullmiklar væntingar.  Ég spáði Íslandi 14 sætinu í afmælispartýinu í gærkvöldi og sumum fannst ég svartsýn... ég sagðist ekki svartsýn bara raunsæ og viti menn, ég hafði rétt fyrir mér.  Ísland hreinlega getur ekki unnið þessar þjóðir sem gefa hvort öðru stig út í eitt... ekki að Norðurlandaþjóðirnar séu eitthvað betri.  En Norðurlandaþjóðirnar eru bara of fáar til að eiga roð í allar hinar.  Þetta hefur alltaf verið frænd keppni með pólitísku ívafi og það á örugglega aldrei eftir að breytast.  En engu að síður góð skemmtun að horfa á keppnina og var ég mikið stolt af framlagi Íslendinga í ár.  Að sjálfsögðu fékk Ísland öll atkvæði afmælisgestanna í gærkvöldi og það er sko pottþétt okkur að þakka að Danir gáfu okkur 12 stig.

Dagurinn í dag var svo tekinn snemma og farið var í Friheden sem er tívolí í Árósum.  Gumma langaði svo í tívolí og fékk þá ósk uppfyllta.  Við tókum tívolíið í nefið í dag og voru allflest tæki sem garðurinn býður upp á prófuð og eru þau sko ekki ófá.  Við vorum langt frameftir degi og fóru allir þreyttir heim aftur eftir sérstaklega skemmtilegan dag.  Meira að segja Gummi fór í rússíbanann, Hlynur fór óteljandi ferðir í tækin enda fór hann sem fylgdarmaður allra heh og meira að segja Emil litli fékk að fara í barnarússíbana sem hann skemmti sér konunglega í.  

Steini og Emil með þessum kynjaverum Við keyptum okkur season passa í tívolíið og verður hana vafalaust mikið notaður í sumar, enda býður tívolí Friheden hreinlega upp á allt sem hugurinn girnist og miklu meira til.

Kærar þakkir fyrir daginn Gummi minn og Berta, kærar þakkir fyrir afar glæsilegt afmælisboð í gærkvöld.

 

Þar sem þið fáið ekki lengra blogg í kvöld, getið þið huggað ykkur við þær rúmu 100 myndir sem ég setti inn í nýtt albúm í kvöld frá skemmtilegu helginni okkar.

 

Har det bra

Kolbrún 


Júróvison hátíð

Hvað er betra en að eyða júróvison kvöldi með samkynhneigðum manni?  Allavega eiga flestir þeir sem ég þekki sem eru samkynhneigðir það sameiginlegt að elska júróvison og gummi er sko engin undantekning þar.  Hann var eins og lítill skólastrákur þegar hann var að bíða eftir að keppnin byrjaði og á meðan á keppni stóð fengu viðstaddir mikinn fróðleik um keppnina en gummi er hreinlega alfræðiorðabók um júróvison.  Fögnuðurinn á okkar heimili var mikill þegar ljóst var að Ísland hefði komist áfram í úrslitakeppnina sem fer fram á morgun.  Við rákum upp hátt fagnaðaröskur þannig að glumdi um allt hverfið heh... enda höfðum við öll tekið upp gemsana okkar og kosið okkar fólk frá Íslandi... enn ekki hvað!!! 

Já, Gummi er semsagt kominn aftur til Horsens og höfum við undanfarna daga verið í góðu yfirlæti með honum.  Við höfum farið með honum í búðir á daginn og á kvöldin höfum við eldað góðan mat og gætt okkur á góðum fljótandi veigum.  Veðrið hefur leikið við okkur og ég hef reynt að gera tilraun til að fá Gumma út á pall í von um að hann fái smá brúnan húðlit...  ég get svo sem ekki sagt að hann sé mikill sóldýrkandi frekar en ég... en við sjáum til Cool

Nýrakaður og mest sætur Ánægjulegustu tíðindi dagsins í dag eru án nokkurs vafa að maðurinn minn tók rakvélina og NOTAÐI HANA.  Hann rakaði af sér allt skeggið sem hann hefur verið að safna í langan tíma og ég varð svo glöð með breytinguna að það komu næstum því tár.  Ég hef suðað út í eitt og beðið hann um að raka sig án árangurs og svo kemur hann mér allt í einu svona skemmtilega á óvart.  Hann er bara sætastur!!!!!!

 

En ég ætlaði nú bara aðeins að láta vita af okkur hér í Danmark... það er nefnilega svoleiðis að ef ég blogga ekki í nokkra daga, þá fer símtölum til okkar fjölgandi og ættingjar og vinir hringja til að fá fréttir.  Ég ætti kannski að hætta bara að blogga, þá myndu kannski bara allir allt í einu fara að hringja heh.

Ég setti inn nokkrar nýjar myndir í nýtt albúm frá síðustu dögum með Gumma.  Gummi er að gera mikla lukku hér á heimilinu og Emil er búin að eignast nýjan besta vin.  Gummi má reima skóna hans, Gummi má leiða hann... Gummi má margt sem ég ekki má .

 

Læt þetta duga í kvöld

Kolbrún 

 


Fyrsti gestur sumarsins á leiðinni

Þá er fyrsti gestur sumarsins, hann Gummi í flugi á leiðinni til Billund.  Ég og Berta ætlum að fara á eftir og sækja hann á flugvöllinn.  Hann ætlar að stoppa hjá okkur í eina viku.  Það verður sjálfsagt mikið brallað á þessari viku þótt það sé svosem ekki búið að gera mörg plön... aðalplanið er að slappa af, njóta þess að horfa á eurovision og fara svo í þrítugsafmælið hennar Bertu.  Það er nú ekki slæm byrjun á plani:) 

En fyrst ætla ég að fara yfir til Bertu og hjálpa henni með undirbúning fyrir morgundaginn, en frúin á semsagt 30 ára afmæli á morgun og á von á fullt af óléttum og nýbúnar að vera óléttum kellum í brunch.

Hann var svo glaður hann EMil minn Setti inn fullt af nýjum myndum frá síðustu dögum.

Enjoy

Kolbrún 


Endurnýjun hjúskaparheita

Fyrir fjórum árum síðan komum við Hlynur fjölskyldu okkar og vinum hressilega á óvart.  Þar sem 18. maí hefur verið mikill fjölskyldudagur völdum við þann dag.  18 maí er brúðkaupsafmælisdagur tengdaforeldra minna auk þess sem tengdamamma var skírð á þessum degi.  Allir okkar strákar voru einnig skírðir þann 18. maí auk þess sem Hlynur var líka skírður á þessum degi.

Þegar Emil var skírður fyrir semsagt fjórum árum síðan buðum við fjölskyldu og vinum til skírnar athafnar í Lágafellskirkju og svo í veislu á eftir.  Við buðum í raun mun fleiri vinum okkar en við höfðum boðið í skírnarveislur stóru strákanna minna, þar sem við höfðum ákveðið að endurnýja hjúskaparheitin þennan dag.  Engin vissi af því nema við og presturinn auk Margrétar Eirar sem söng svo fallega við athöfnina.

Emil var skírður og afhöfnin fór því hefðbundið af stað.   Þegar Emil hafði fengið nafnið sitt fór Hlynur með hann í fang mömmu sinnar og úr orgeli kirkjunnar hljómaði brúðarvalsinn... here comes the bride... og fórum við Hlynur hönd í hönd upp að altari og endurnýjuðum hjúskaparheit okkar.  Yndislegur dagur, yndisleg stund og komum við ættingjum okkar og vinum mikið á óvart.  (Reyndar er litlu hægt að leyna fyrir pabba mínum þar sem hann hafði lesið yfir öxlina á organistanum að á eftir skírn ætti að spila brúðarvalsinn).

Við höfum alltaf minnst þessa dags 18. maí sem hátíðisdags í okkar fjölskyldu.  Á meðan við bjuggum á Íslandi borðuðum við alltaf með tengdafjölskyldu minni þennan dag, annaðhvort í heimahúsi eða fórum saman út að borða.  Eftirminnilegt er þegar við fögnuðum þessum degi á Lækjarbrekku, æði pæði.    Í ár fögnuðum við þessum degi með góðum mat sem allir voru sáttir með, jafnvel þótt hann hafi verið eldaður á Ranukelvej en ekki á veitingastað.

bride

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

-------------------------------------------

Annars er bara allt fínt að frétta af okkur.... Stóru strákarnir í skólanum sínum og Hlynur í skóla og vinnu.  Emil er heima hjá mér vegna verkfallsins og get ég ekki sagt að það fari vel í hann.  Hann er ekki alveg að nenna að vera heima og missa rútínuna sína og bitnar það hressilega á skapinu hans.  En det er det.... Gummi kemur í heimsókn frá Íslandi á morgun og höfum við Emil þá bara nógan tíma og orku til að vera með honum á daginn:)

Out

Kolbrún 


Þreyttur laugardagur

Rakel, ég og BertaÞað er þreyttur laugardagur hjá frúnni í dag og ekkert bloggstuð...

Eyddum deginum á hátíð á vegum íslendingafélagsins í Horsens og þrátt fyrir óbloggstuðið á minni, þá setti ég inn fullt af myndum frá deginum í dag.  Það bara verður að duga.

Ætla að henda mér í góða sturtu og fara í bleiku Joe Boxer náttbuxurnar mínar sem manninum mínum finnst svo ljótar heh..... og kíkja kannski á dirty dancing sem er að byrja í sjónvarpinu.  Vá hvað hún var mikið æði...

See you soon

Kolbrún 


Og hvað er svo að frétta !!!

Fullt af frétta frá okkur hérna í Horsens. 

Það er liggur okkur helst á hjarta þessa dagana er fyrirhugað verkfall pædagoganna hér í Danmörku en þeir hafa boðað verkfall frá og með næsta mánudegi.  Það þýðir að leikskólinn hans Emils lokar og kvöddu fóstrurnar hann í dag með þeim orðum að þau myndu sjást eftir tvær til þrjár vikur.  Það er greinilega hugur í pædagogum hér, sem er svo sem bara hið besta mál, en ég veit að þetta bitnar mikið á okkur þar sem Emil mínum líður best í sinni rútínu og nú verður hún brotinn aftur:(  En ég verð bara að vera dugleg að finna honum eitthvað til dundurs þessa daga. 

Svo er það allra besta fréttin.... mamma hringdi í gærkvöldi og sagði að þau pabbi væru búin að panta sér far til okkar og þau koma 2. júní.  Ég get ekki neitað því að það er mikill spenningur í mannskapnum að fá ömmu og afa og strákarnir strax farnir að spá í hvort þeir fái eitthvað frí í skólanum þessa daga sem þau verða með okkur... það á sko þokkalega að nýta tímann með ömmu og afa. 

Af mér sjálfri... ég skellti mér í gærkvöldi í klippingu og strípur og þvílíkt sem það er gott fyrir mann að láta aðeins dekra við sig... ég er bara voða ánægð blondína í dag, jafnvel þótt ég eigi aðeins eftir að venjast þessari miklu breytingu.  Danir eru ekkert miklir strípumenn, þannig að þetta er í fyrsta sinn sem ég fæ almennilegt dekur í hárið á mér síðan ég flutti hingað út.  

________________________________________________________

 

Emil og mammaBræðurnir saman hjá stóru skónum hans RonaldsÍ dag ætluðum við fjöskyldan að fara loksins í tívolíið í Árósum og vorum löngu búin að ákveða að fara í dag.  Það var mikil spenna hjá strákunum enda búnir að suða um tívolíferð síðan tívolíið opnaði fyrir mánuði síðan.  En það voru bara vonbrigði þegar við komum til Árósa, haldið þið að tívolíið hafi ekki verið lokað í dag vegna þess að ungmenna/íþróttafélögin í Árósum voru búin að leigja staðinn allan daginn.  Það var því ekkert hægt að gera annað en frá að hverfa.  

Sem sárabót ætluðum við að koma við á MacDonalds stað á leiðinni aftur til Horsens og kaupa handa strákunum ís.  Og þar duttu þeir aldeilis í lukkupottinn því að þessi MacDonalds staður sem er á milli Árósa og Horsens er sá allra flottasti sem við höfum heimsótt í Danmörku.  Emil fékk að sitja í kóngastól og svo var stórt leikland í sérherbergi sem þeir bræður dunduðu lengi í við mikla kátínu.  Ég reikna ekki með því að það verði aftur í boði að bjóða þeim bræðrum á MacDonalds í Horsens... þeir voru strax í bílnum farnir að plana næstu ferð á flotta staðinn sinn.

Annað er það svo sem ekki í bili.... mikið plan og skemmtilegt á morgun og í kvöld reiknum við með að fá Beach Boys tónleika alveg í æð en hljómsveitin Beach Boys eru með tónleika upp í fangelsi í kvöld... allavega heyrðum við þokkalega mikið í hljómsveitinni í gærkvöldi þegar verið var að prófa kerfið...

Nýjar myndir í nýju albúmi að venju

Beach Boys kveðjur úr Horsens

Kolbrún 


Nágrannar

Ég fylgdist nú stundum með nágrönnum í sjónvarpinu í "gamla daga", en það voru nú yfirleitt góðir grannar.  Við aftur á móti höfum verið að elda grátt silfur með okkar nágrönnum.  Nágrannar okkar eru þrír strákar frá Eistlandi sem eru nemendur við VIA skólann hér í Horsens.  Þeir eru svokallaðir skiptistúdentar sem búa í húsinu við hliðina á okkur en það hús er í eigu skólans sjálfs.  Ekki veit ég hvort að þessir aumingjans strákar læri mikið í skólanum sínum, því að djammlífið virðist heilla þá öllu meira en skólabækurnar.  Þeir eru þeir allra mestu partýdýr sem ég hef kynnst og kalla ég nú ekki allt ömmu mína.  Við kvörtuðum yfir þeim rétt fyrir páska en þá varð mælirinn fullur hjá okkur, stanslaus partý auk þess sem þeir reyndu tvisvar sinnum að brjótast inn hjá okkur þannig að það sér á okkar útidyrahurð (sá sem reyndi að komast inn í seinna skiptið var semsagt vopnaður lampa sem hann lamdi í hurðina okkar).  Ekki virðist sem sú kvörtun okkar hafi skilað miklu, jafnvel þótt að við hefðum þá fengið formlega heimsókn frá einum af yfirmönnum skólans og fengið jafnvel formlega afsökunarbeiðni af hendi skólans.  Skólinn meira að segja sagðist núna ætla að henda einum af strákunum út úr leigunni.  En það gerðist auðvitað ekki og þeir hafa bara haldið sínu striki og partýast allar helgar og marga virka daga.  Til að mynda í morgun kl hálf sex vaknaði ég við þvílíkan hávaða hérna úti að mér eiginlega stóð bara ekki á sama.  Hlynur hefur vakað margar næturnar hérna á meðan á mestu látunum stendur, bara til að tryggja að hann hafi kontrol á þessu ef þeir reyna að brjótast inn aftur...

Við kvörtuðum aftur í dag um leið og við sögðum upp húsaleigunni okkar hér í Mosanum.  Bjarne sem er umsjónarmaðurinn yfir litla hverfinu sem við búum í varð bara foxillur svo það er spurning hvað gerist núna í framhaldinu.  Konan sem býr við hliðina á þeim hinum megin er víst líka búin að kvarta undan þeim.  

Ég verð nú samt að játa að mér finnst ekki notalegt að verða valdur af því að senda einhverja litla skólastráka úr landi vegna ósæmilegrar hegðunar.... en hugga mig við að ég get ekki boðið okkar fjölskyldu upp á að búa við þetta ástand.  Ég ætla bara að forðast að mæta þeim hérna úti þegar þeir pakka niður dótinu sínu múahhahahah.

Já, talandi um húsaleiguna... við erum semsagt búin að segja upp húsnæðinu okkar hérna í Mosanum og áætlaður heimferðardagur til Íslands er dadaradada   2. ágúst.  Þannig að það styttist í okkur heim á klakann.

Emil með dómararflautuna og gula og rauða spjaldið, tilbúin að fara út í fótbolta Við áttum erindi í dótabúðina Toys r us í dag og tókum litla Emil með okkur.  Þvílíkur fögnuður hjá litlum manni þegar hann sá skiltið fyrir utan búðina en hann þekkir það eins og fingurnar á sér.  Skemmtilegast í heimi að komast þar inn og fá aðeins að gramsa og koma við í þessu ævintýralandi.  Við vorum búin að segja honum að hann mætti velja eitt lítið dót í búiðinni (samningur sem var gerður áður en við fórum) og tók hann sér góðan tíma í það.  Þegar hann svo sá að hægt var að fá dómaraflautu og gul og rauð spjöld fyrir fótboltaleikinn var leit hans í ævintýralandinu lokið og fór hann rosalega glaður með okkur í frekari útréttingar vopnaður flautu og spjöldum.  Auðvitað fór hann svo niður á fótboltavöll og prófaði græjurnar þegar hann kom heim.

Nú... við kynntumst líka góðum manni í dag heh.  Emil minn getur alveg verið kostulegur og getur tekið upp á ýmsu eins og fólk þekkir.  Hann tók upp á því um daginn að setja rúsínu í sígarettukveikjarann í bílnum og við tókum ekki eftir því.  Svo var hleðslutækinu í gsp tækið skellt í samband einhverju síðar og við það þrýstist rúsínan langt niður og pang... ekkert virkaði lengur.  En þá kynntumst við bjargvætti okkar... það er nefnilega fluttur bifvélavirki hingað í Mosann, Íslendingur og kom hann hlaupandi og reddaði málunum á no time... það hafði semsagt farið öryggi.  Og fyrir þetta borguðum við heilar 40 kr sem er náttúrulega bara brandari.... við eigum eflaust eftir að nýta okkur svona góða þjónustu aftur og aftur...

En þið eruð örugglega löngu hætt að lesa og lesið bara endaorðin hehe.... setti inn nokkrar nýjar myndir í nýtt albúm fyrir þá sem þyrstir í myndir af okkur og rukka okkur stanslaust...

Out

Kolbrún 


Ég er með heim ÞRÁ

Ég er með heim ÞRÁ, ekki samt svona alvöru heimþrá heldur er ég með heimþrá í kuldann á Íslandi.  Hitinn hér í Horsens síðustu vikurnar er gjörsamlega að gera mig vitlausa... það er ekki fyrir neinn mann að vera sveittur og þvalur allan daginn, alla daga.  Þurfa að sofa bara með lak, ef eitthvað og fara í sturtu minnst tvisvar á dag.  Ég held að ég sé bara Íslendingur í húð og hár InLove

Til að svala aðeins Íslandsþránni höfum við Hlynur verið að horfa á Íslenskt sjónvarpefni hér á kvöldin og það er bara gaman.  Við horfðum á myndina Astropia og gerðum heiðarlega tilraun að horfa á Mýrina.  Nú svo bíð ég spennt eftir næstu þáttum um Hæðina, en mér var tjáð að þeir hefðu farið í póst í dag.

Annars er tíðindalítið héðan.  En skemmtilegir tímar framundan:)  Hlynur á frí á morgun sem er bara æðislegt, við erum að plana tívolíferð á föstudaginn og svo er hátíð hjá Íslendingafélaginu á laugardaginn, grill og leikir.  Svo fer að styttast í gestina okkar... ég var að reyna að reikna saman hversu margir eru búnir að melda sig og það er sko slatti... Gummi byrjar, hann kemur í næstu viku... svo koma Guðborg og Gummi og stelpurnar þeirra, svo koma Gunna, Óskar og Erla Björg, svo koma mamma og pabbi vonandi, svo koma Helga, Þorgeir og krakkarnir þeirra og svo kemur Halldór vinur Jóns Inga.  Okkur ætti ekki að leiðast í sumar og spurning um að fara að tryggja sér season passa í Legoland og Tívolí.. heh

Out

Kolbrún 

 


Mæðradagurinn

Fórum til Silkiborgar í dag, hér eru gosbrunnarnir frægu sem eru þarElsku mamma og tengdamamma og allar aðrar mæður sem lesa bloggið mitt... til hamingju með daginn.  Vona innilega að mæður hafi notið dagsins í dag, allavega gerði ég það Heart

Við byrjuðum daginn á því að fara til Silkiborgar.  Þar fórum við á alvöru útimarkað (sem var verri en Kolaportið heh) en þar voru bílfarmar af gamalli búslóð sem landinn var að reyna að fá einhverjar 5 kr danskar fyrir, sumir verðlögðu hátt og vildu fá 10 kr danskar fyrir gamalt dót.  Við röltum síðan um Silkiborg, skoðuðum gosbrunnana og fengum okkur ís.  Bara notalegt og Silkiborg iðandi af mannlífi í góða veðrinu.

 

Þegar við komum heim fóru feðgarnir að baka mæðradagsköku og fékk frúin algert frí frá eldhúsinu.  Þeir bökuðu Brownies köku í tilefni dagsins og sannaðist í dag að það er ekki alltaf útlitið sem skiptir öllu máli.  Strákarnir höfðu svo gaman af því að fá að vasast einir í eldhúsinu þótt það væri með eftirliti pabba síns og tóku hlutverkið sitt mjög alvarlega.  Það var meira að segja vaskað upp og sópað eftir baksturinn.  

Sætir bræðurBrownie á mæðradegi

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég hef fengið fyrirspurnir um uppskriftina af mexíkósku súpunni minni sem er nú samt ekki mín.  Uppskriftina fékk ég frá Dóru Heiðu vinkonu minni sem fékk uppskriftina upphaflega þegar hún bjó í Noregi.  Uppskriftin hefur verið mikið notuð á okkar heimili síðan okkur barst hún í hendur.  Ég hef held ég einhverntímann áður sett þessa uppskrift inn á bloggið en þar sem það er svo langt síðan geri ég það bara aftur til að þeir sem vilja prófa fái hana glóðvolga.

Mexikósk kjúklingasúpa

2 laukar

4 hvítlauksbátar (pressaðir)

2 msk olía

2 dósir niðursoðnir tómatar

1 teningur kjúklingakraftur + 1/2 líter vatn

1 teningur nautakraftur + 1/2 líter vatn

1 líter tómatdjús

1 msk kóriander krydd

1 1/2 tsk chili krydd

1 1/2 tsk cayenne pipar krydd

1 kjúklingur, grillaður 

 

Kjúklingurinn steikur og kjötið tekið af beinunum.

Laukur skorinn niður og steiktur í olíunni í stórum potti.  Öllu hinu blandað saman við.

Látið malla í 2-3 klst.  Kjúklingnum bætt í súpunna hálftíma fyrir framleiðslu.  

Auðvitað má smakka súpuna til, setja meira af kryddi eða meiri hvítlauk, fer bara eftir smekk hvers og eins hversu sterk súpann á að vera.

Sýrður rjómi, rifinn ostur og Doritos bláar flögur bornar fram með súpunni.

Hver og einn setur það samt ofan í súpuna á sínum diski.

Verði ykkur að góðu.

 

Að lokum langar mig að óska Agnesi frænku minni sem var að fermast í dag innilega til hamingju með daginn.  Við hér í Danmörku höfum hugsað heim í dag og hefðum svo gjarnan vilja fá tækifæri til að eyða þessum degi í faðmi fjölskyldunnar.  En det er det.

Það eru nokkrar nýjar myndir í albúmi merkt mæðradagur 2008

Enjoy

Kolbrún og family 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Kolbrún bloggar

Höfundur

Kolbrún Jónsdóttir
Kolbrún Jónsdóttir

Smellið á myndina og þá fáið þið allar upplýsingar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband