Ég fékk kvörtun

Já, ég fékk kvörtun um að ég stæði mig ekki nógu vel í blogginu... hvorki kæmi blogg nema uppskriftir og brandarar og engar myndir.  Ég skal bæta úr því núna mamma mín Wink

Svona kom Emil heim úr leikskólanum í vikunni Það er svo sem ekki mikið að frétta hjá okkur hérna í Horsens.  Það er heitt... hrikalega heitt.  Mér finnst ég hreinlega vera að kafna hérna alla daga og ekki sé ég enn fram á rigningardag til að ná að kæla mig niður.  Ég er svosem eins og flestir sem mig þekkja engin sérstakur sóldýrkandi og líður miklu betur í aðeins kaldara lofti... ég reyni að spá sem minnst í það hvernig hitinn verði í sumar, fyrst ástandið sé svona núna, úff.

Við fórum í Ikea í dag og keyptum okkur loksins flugnanet - allavega ætlum við að búa til flugnanet úr þessu efni sem við keyptum okkur.  Hitinn vonandi minnkar þá aðeins inn í húsinu ef gluggarnir fá að vera meira opnir.  Ég hef ekki mikið opnað glugga hér í vor vegna þess að ég kæri mig ekki um að bjóða geitungum og öðrum skordýrum velkomna í heimsókn, mega bara vera úti.  Við höfum svo frétt af því að það er spáð moskító flugu faraldri hér í sumar, OMG.

 

En ég skal hætta að vera neikvæð í bili.... áttum hrikalega skemmtilegan dag í dag.  Í dag voru sérstakir bíladagar í City Horsens og fórum við með tvo yngri strákanna í bæinn í dag.  Þvílíkt mannlíf í bænum í dag, sannkölluð karnival stemmning.  Strákarnir skemmtu sér líka alveg rosalega vel, enda miklir áhugamenn um bíla báðir tveir.

Emil með Spar Nord bangsanum sem gaf börnunum smá nammiAuk þess sem fullt af bílum voru til sýnis var ýmislegt annað í boði fyrir börnin í dag, s.s barnalest, hoppukastali og fleira.  

Í gærkvöldi hittum við svo Rakel og Svavar og Bertu og Ragga og fylgisveina þeirra (fengum meira að segja einn auka fylgisvein þar sem mamma hennar Bertu er í Horsens  núna) og borðuðum saman mexikóska súpu að hætti hússins.  Klikkar sjaldan:)

En ég var að setja inn fullt af nýjum myndum í albúm merkt byrjun maí... Enjoy

 

 

Með kveðju úr sólinni í Horsens

Kolbrún 

 

 


Þvílík snilld - tæknin er orðin hreint ótrúlega flott

Mér var bent á þessa vefsíðu en með henni er hægt að sjá hvar
fólk
 er statt hverju sinni með því að slá inn farsímanúmer.  Prófið að slá 
inn
 farsímanúmer einhvers sem þið þekkið (t.d. maka eða
samstarfsfélaga)
og sjáið hvað tæknin býður orðið upp á.  Landsnúmerið fer í fyrri 
reitinn og
 símanúmerið í þann seinni.  Maður kemst ekki hjá því að velta því 
fyrir
 sér hvort að þetta sé löglegt?   http://www.trackapartner.com/

Kolbrún out


Viljið þið uppskrift??

Maður á alltaf að deila með sér, því sem er að virka.  Tengdaforeldrar mínir hafa gefið mér flestar af okkar bestu uppskriftum.  Þau gáfu mér uppskrift af franskri súkkulaðiköku með fílakaramellukremi um daginn og hún er bara góð:)

Frönsk súkkulaðikaka með fílakaramellukremi

4 egg
2 dl sykur
Þeyta vel saman
200 gr suðusúkkulaði
200 gr smjör
1 dl hveiti, hræra varlega saman við
Setja í 26 cm lausbotna form, bakist við 180° C hita í 30 mínútur
Krem
20 fílakaramellur
1 dl rjómi
Brætt í potti, ekki sjóða, hellt yfir kökuna
Borið fram með jarðarberjum rjómaís eða léttþeyttum rjóma
Ég setti kökuna sjálf í hringlaga rifflað eldfast form og þá þurfti ég ekki að taka hana úr forminu áður en ég bar hana fram, heldur bar hana fram í mótinu sjálfu... bara snilld.
Verði ykkur að góðu.
happybaking

HÆÐIN

haedin_logo_200Ég er svo lucky að ég hef fengið senda þættina um Hæðina hingað út til Danmerkur og hef horft á þá í tölvunni...Í gærkvöldi horfði ég á fjórða þáttinn og á nú einn eftir til góða þar til í kvöld eða annaðkvöld og veit að ég á svo von á nýrri sendingu frá Íslandi í næstu viku með nýjustu þáttunum.  Mér finnst þetta alveg bráðskemmtilegir þættir.... en ef ég spái í það, þá er ekki víst að mér myndi þykja þeir eins skemmtilegir ef hommarnir væru ekki með, það eru þeir sem gera þættina skemmtilega að mínu áliti... tel meira að segja að það sé engin tilviljun að þeir voru valdir í þættina, þetta eru markaðsmenn miklir sem stjórna svona þáttum og þeir vita hvað selst.  Parið sem ég kann minnst við eru Hreiðar og Elísabet, sérstaklega Hreiðar... finnst hann bara vera pínu montinn með sig og ekki alveg að gera sig í þessum þáttum.  En Steinunn og Brynjar gefa þessu bara líf, þau eru svo hæfilega kærulaus.

Ég held nú samt að ég myndi aldrei geta hugsað mér að kaupa svona hús, sem að innrétta alveg fyrir mig og velja öll húsgögn inn fyrir mig.... hvar væri þá minn persónulegi stíll???  Kannski er ég ekki nægilega mikið inn í þessu og kannski á bara ekkert að selja húsin fullbúin með innbúi... kemst að því síðar sjálfsagt.   Engu að síður finnst mér þættirnir skemmtilegt sjónvarpsefni og sanna ég þar með að ég elska enn raunveruleikaþætti.... þótt mörgum finnist þetta vera orðið þreytt sjónvarpsefni.    Ég held með Steinunni og Brynjari:)

 

Það hefur verið alveg dejlig veður hér í Horsens í dag... sól og steikjandi hiti.  Við eyddum reyndar deginum í nágrannabæ okkar Fredericia en þar fórum við í Madsby legeparken.  Guðný og Bjarki fóru með okkur með sína stráka og áttum við æðislegan dag þar.  

Flottur í björgunarvestinuNýjar myndir í nýju albúmi tala sínu máli um hvernig leikgarðurinn var en ég held að það sé óhætt að segja að strákarnir hafi skemmt sér mjög vel.

En nú eru fjögurra daga helgarfríið búið... og rútínan hefst aftur í fyrramálið.  Emil má fara í leikskólann í næstu viku, jafnvel þótt að verkfallið sé ekki leyst ennþá.  Sjálfri finnst mér starfssemin á leikskólanum eitthvað skrýtin vegna verkfallsins en ætli ég sendi hann samt ekki á leikskólann einhvern part af deginum... hann er jú búin að vera heima núna í 9 daga og það er bara orðið ágætt í bili.

 

En þar til næst

Hafið það gott

Kolbrún 


Skatebording dagur

Björn og Jón Ingi - vinirnir Þvílíkir taktar hjá Birni

Og stökkva svoJón og vélinn... bestu vinir þessa dagana

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Svona var dagurinn okkar í dag....

Framleiðsla á dvd mynd um skateboarding er hafinn í herbergi unglingsins - hann hefur jú síðan hann var lítill strákur ætlað sér að verða kvikmyndagerðarmaður.   

Fleiri myndir í albúmi. 

Njótið laugardagskvöldsins

Kolbrún 


Fjölskylda í túristaleik

Emil og Hafsteinn við síkið í ÁrósumHeil og sæl

Afar lítið fréttnæmt frá Danaveldi.  Hér hefur gengið á með ýmist skini eða skúrum síðustu daga en mér skilst að það eigi að létta til um helgina og þá á að koma aftur sól og blíða.  Eins gott maður, áður en maður verður snjóhvítur aftur Wink

Við eigum von á mörgum gestum í sumar og auðvitað hlakkar okkur voðalega mikið til að hitta okkar fólk.  Við höfum eiginlega verið í smá æfingarkennslu í túristaleik síðustu daga, haha eins gott að vera með allt á hreinu þegar gestirnir hrynja hér inn hver af öðrum.  Elsti sonur hefur reyndað ekki viljað vera með í leiknum, en hann ætti að geta kennt gestum og gangandi undirstöðuatriði í SKATEi og jafnvel kennt framhaldsnámskeið ef áhugi er fyrir hendi.

Í gær fórum við til Árósa og skoðuðum borgina bara nokkuð vel akandi.  Lögðum svo bílnum og skoðuðum borgina gangandi.... góður göngutúr sem endaði að sjálfsögðu í ísbúðinni í göngugötunni þar.  Árósar eru voðalega sjarmerandi borg og minnir um margt á Reykjavík.... en jafnvel þótt það sé gaman að koma þangað reglulega, þá myndi ég ekki vilja búa þar með strákana, líður betur með þá hér í Horsens og rólegheitunum sem fylgir svona sveitalífi.

Í dag var svo ferðinni heitið til Vejle þar sem við fórum í bambagarð (dádýragarð).  Við höfum áður heimsótt bambagarðinn í Árósum en þetta var í fyrsta sinn sem við fórum í garðinn í Vejle.  Svo sem ekkert ólíkir garðar þannig lagað, nema að garðurinn í Vejle er örugglega ekki eins vel kynntur því það var ekki mikið af fólki þar, eiginlega bara mjög fáir.  Enda voru aumingjans bambarnir glor hungraðir og slóust um eplin sem við vorum með í tveim pokum.  Svo ég tali nú ekki um hráa spagettíið sem við græddum á öðrum túristum í garðinum.

Setti túristamyndir i nýtt albúm merkt 1. maí

Segi þetta gott í kvöld, ætla að hella mér í lestur tímaritanna Séð og Heyrt og Vikuna sem komu hér inn um lúguna í dag....  

Kolbrún 


"Fíllinn var veikur"

IMG_4327Mikið svakalega eru strákarnir mínir búnir að hlakka til dagsins í dag, allir þrír.  Hér í Horsens er staddur sirkus Arena sem er mjög stór og víst flottur sirkus (munið þið ekki eftir honum í sjónvarpinu á gamlársdag í denn) og við vorum búin að ákveða að fara að sjá þennan sirkus í dag. 

Við fórum í morgun til að tryggja okkur miða á sirkusinn í kvöld.... og hvað haldið þið, það var uppselt.  Voru nú góð ráð dýr og við tókum okkur smá tíma í að upphugsa hvað við gætum sagt við Emil litla sem var spenntastur allra fyrir sirkusferðinni.  Lendingin varð sú að fíllinn veiktist skyndilega og keypti hann sem betur fer þá skýringu.  Hann hefði aldrei skilið það að það væri uppselt.  Við fórum samt og skoðuðum fílana sem eru í girðingum við svæðið sem sirkusinn er og fannst Emil litla það alveg rosalega skemmtilegt, enda aldrei áður séð fíl á sinni stuttu ævi.  

Við vitum að það kemur annar sirkus til Horsens í maí og þá er víst betra að tryggja sér miða í tíma til að svona endurtaki sig ekki.  

Emil fékk svo boð um að fá að fara í bíó í staðinn í dag og varð hann mjög ánægður með þær málalyktir, enda finnst honum svo gaman að fara í bíó, sérstaklega að fá að fara einn með pabba sínum.

Framundan er fjögurra daga helgarfrí hjá okkur öllum, þar sem uppstigningardagur lendir á fimmtudegi eins og alltaf, þá hafa Danir þann háttinn á að ef frídagur lendir á fimmtudegi, þá er alltaf líka frídagur á föstudegi.  Ekki slæmir samningar það.  Ekkert sérstakt planað hjá okkur um helgina en ég er ekki í vafa um að við finnum okkur eitthvað skemmtilegt til að gera.

IMG_4326IMG_4328

 

 

 

 

 

 

 

 

Nótt Nótt

Kolbrún 


45 gráður á celsíus

Hot cartoonEins og ég hef áður talað um hér á blogginu, þá slökktum við fjölskyldan á hitakerfinu í húsinu fyrir nokkrum dögum, enda getur sólin og hitinn hér sko alveg hitað það upp.   Engu að síður hefur verið alveg óbærilega heitt hérna í húsinu, svitinn lekur af heimilisfólki og í gærkvöldi var unglingurinn á heimilinu ber að ofan, spásserandi um húsið.  Margar viftur hafa verið kallaðar til vinnu en það var alveg sama hvað við gerðum, allir að kafna úr hita.  Það var svo ekki fyrr en seint í gærkvöldi að húsbóndinn ákvað að kíkja í hitaskápinn okkar og sá að litlir puttar hafa náð að kveikja aftur á hitakerfi hússins og stillt hitann á 45 gráður.  Það er svo miklu miklu hærri hiti en við höfum stillt á í mestu kuldunum hérna í Danmörku.  Það er ekki skrýtið að okkur hafi verið heitt.  

Eigið góðan dag

Kolbrún 


Er ekki kominn tími á eina uppskrift?

Það er svo voðalega lítið að frétta héðan frá Horsens... sól og 22 stiga hiti í dag, en því miður spáir svo rigningu næstu daga.

En ég ætla að deila með ykkur uppskrift sem tengdamamma mín gaf okkur fyrir nokkrum árum og ég hef oft borið á borð fyrir fjölskylduna og alltaf allir mjög sáttir.

Kjúklingur í tómatsósu

 

 

 

1 kjúklingur eða kjúklingabringur

3 tsk karrý

3 tsk paprikuduft

Smá kjúklingakrydd

1 kaffirjómi/má nota mjólk

3 dl tómatsósa

Rifinn ostur 

Kjúklingurinn grillaður og hreinsaður af beinunum.  Hrærið saman rjóma, tómatsósu og kryddunum og bætið svo kjúklingnum út í.  Sett í eldfast mót og rifinn ostur settur ofan á. 

Best að hafa hrísgrjón, gular baunir, salat og brauð með þessu.

 

 

 

tómatsósa

 

 


MAURAÞÚFA

 

 

 

antdiagram

Við eigum þessa dagana í hatrammri baráttu við maura.... já það eru sko maurar í Danmörku og nóg af þeim.  Ég hef á ferðalögum mínum í gegnum árin oft staðnæmst og verið að dáðst af þessum litlu svörtu sætu maurum sem virðast vera svo miklir vinnumenn... EN ÞEIR ERU BARA EKKERT SÆTIR LENGUR, ekki þegar maður þarf að slást við þá um sinn eigin mat í eldhúsinu eða plássið í sófanum.  Þessir litlu svörtu djöflar hafa greinilega reist sér bú á pallinum okkar... og það er alveg sama hvernig ég skúra og skrúbba, þeir hreinlega elska heimilið mitt.  Í morgun skúraði ég allt hátt og lágt, enda búin að lenda í útistöðum við þá nokkra hér í stofunni... en NEI, þeir létu sér ekki segjast... ég var rétt sest niður í sófann þegar einn kom brosandi og sigri hrósandi á móti mér.  Hjómar vel!!!!!!!

Það verður farið í fyrramálið og fjárfest í maulafælu... ég vil hafa mitt heimili í friði fyrir þessu.  Það er nóg að þurfa að þola silfurskotturnar og kóngulærnar sem eru hér um allt hús.  Svo ég tali nú ekki um geitungana sem eru farnir að láta finna fyrir sér hérna.

Out

Kolbrún

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Kolbrún bloggar

Höfundur

Kolbrún Jónsdóttir
Kolbrún Jónsdóttir

Smellið á myndina og þá fáið þið allar upplýsingar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband