Sextugs afmæli í Horsens

Flotta afmæliskakan sem Berta keypti fyrir mömmu sínaÞað hefur verið tilstand á Ranunkelvej í dag.  Sigga, mamma hennar Bertu á sextugsafmæli í dag og héldum við upp á það með henni í kvöld.  Okkur til mikillar ánægju kom Kidda frá Árósum til að taka þátt í þessu með okkur og áttum við skemmtilegt kvöld saman.  Berta kemur svo vonandi heim á morgun með litla prinsinn sinn:)

Annars hefur dagurinn verið mjög ljúfur.  Við Sigga fórum í bæinn í morgun og tókum unglingana með okkur.  Unglingarnir eru aðeins að laumupúkast í búðunum hérna og er það leyndarmál sem ekki verður gefið upp fyrr en Halldór fer aftur heim til Íslands Wink  En stóru strákarnir fengu reyndar fljótt leið á búðarrápi og ákváðu eftir hádegi að eyða deginum á hjólabrettunum sínum sem þeir gerðu og voru mjög ánægðir þegar þeir komu aftur heim í kvöldmat...  Á morgun ætla aftur á móti allir stóru strákarnir að fara í tívolí og er mikil tilhlökkun hjá þeim.. sérstaklega þegar þeim var sagt að Emil yrði eftir heima... en þá geta þeir notið sín betur með húsbóndanum í rússíbönum, draugahúsum og so videre.

 

Ég ætla að setja inn uppskrift af kjúklingarétti sem ég var með hér í kvöld að beiðni Kiddu... Kidda mín þú getur ekki klúðrað neinu ef þú býður upp á þennan:)

Kjúklingaréttur

Kjúklingabringur steiktar á pönnu - magn eftir fjölda gesta

Svo er sett saman í pott:

1 dl barbique sósa

1 dl apríkósumarmelaði

50 gr púðursykur

1/2 dl sojasósa

25 gr brætt smjör

1/2 dl rjómi

Hitað saman og þykkt aðeins með sósujafnara.  Ef steiktar eru margar bringur þá þarf að sjálfsögðu að tvöfalda sósumagnið.

Þessu er svo hellt yfir steiktu kjúklingabringurnar sem eru í eldföstu móti og rifinn ostur settur yfir.  Sett inn í ofn þar til osturinn er orðinn gylltur.

Borið fram með hrísgrjónum, eplasalati og brauði.

Enjoy:)

 

Það eru nokkrar nýjar myndir í nýju albúmi

Out

Kolbrún 


Dagsferð í Lególand

Jón Ingi og Halldór fyrir utan Legoland í dagslokDeginum í dag eyddum við í Lególandi, ásamt mörg þúsund öðrum gestum og geitungum.  Hitinn í dag fór í 30 gráður og glaðasól og þrátt fyrir að hafa notað sólarvörnina náði ég að brenna hressiega, aðrir sluppu við bruna...

Við eyddum ríflega sex klukkustundum í Lególandi í dag og má eiginlega segja að strákarnir hafi fengið að prófa allt sem hægt var að prófa þar... tveir vatnsrússíbanar og einn hefðbundinn rússíbani, fjórvíddarbíó og legóturninn stóðu samt sennilega upp úr, enda mikið ævintýri.  

Ég held hreinlega að mér finnist Lególand flottasti skemmtigarðurinn á Jótlandi og hef nú prófað þá nokkra... þvílík listaverk og þvílíkt hugmyndaflug í listaverkasmíð.  Af öllum þeim aragrúa af listaverkum gerðum úr legókubbum finnst mér þó frelsisstyttan vera flottust... svo tignarleg.

Annars er stærsta frétt dagsins að Berta og Raggi eignuðust stórann strák í morgun og óska ég þeim innilega til hamingju með hann og hlakka mikið til að fá að knúsa þau öll.  

Lególandsmyndirnar eru í nýju albúmi

Kolbrún 


Hafsteinn á kokkanámskeið

Horsens kommúnan býður upp á öfugt sumarstarf fyrir grunnskólabörnin sín.  Hingað kom stútfullur bæklingur inn á heimilið fyrir nokkrum vikum með tilboðum sumarsins.  Hafsteinn hefur sagt það lengi að þegar hann verður fullorðin ætlar hann að verða kokkur.  Hann er nú þegar orðin nokkuð atkvæðamikill í eldhúsinu hérna heima en í dag fór hann á sitt fyrsta alvöru kokkanámskeið.  Ég var svo stolt af honum að hafa þetta frumkvæði að fara á sumarnámskeið í Danmörku þar sem hann þekkti ekki neinn.  En honum var alveg sama... á kokkanámskeiðið ætlað hann og skemmti sér líka mjög vel í dag.  Lærði að baka pizzu frá grunni sagði hann mér og kynntist "gaurunum" sem voru með honum á kokkanámskeiðinu.  Það er bara vonandi að hann láti drauminn sinn rætast og að þetta námskeið sé bara það fyrsta af mörgum í áttina að markmiðinu  HAFSTEINS BUFFHÚS.

Flottir vinirnir saman í Axelborg Við höfum haft það afskaplega gott í dag, bara rólegheitadagur.  Helga og Þorgeir og börnin fóru í dag til Árósa en þar fengu þau íbúð í dag og verður það þeirra næturstaður næstu vikurnar.  Án efa munum við nú hitta þau samt helling:)

Við Hlynur fórum í dag með Jón Inga og Halldór í hjólabrettatúr... Jón Ingi sýndi Halldóri tvær bestu hjólabrettaaðstæðurnar hér í Horsens auk þess sem þeir kíktu í hjóabrettabúðina hérna í bænum.  

Seinnipartinn fóru þeir svo allir saman með Hlyni í bíó og sáu myndina HULK incredible og skemmtu sér mjög vel.

 

Það er ósk húsmóðurinnar að allir farið snemma að sofa í kvöld til að vera vel upplagðir fyrir morgundaginn en við erum með skemmtileg plön í gangi fyrir daginn.  Svo á Berta að eiga barnið sitt í fyrramálið og er mikil spenna hér að fá sms frá Ragga - við viljum vita allt sko Raggi... kyn, þyngd, hæð, klukkan, líðan o.s.frv heh...

Setti inn nokkrar myndir i kvöld í nýtt albúm

Kolbrún 

 


Daður á "Skadestuen"

Jæja, það fór þannig í gærkvöldi að ég ákvað að fara með Halldór á Skadestuen til að láta kíkja á hann eftir höfuðhöggið sem hann fékk á hjólabrettinu rétt fyrir kvöldmatinn í gær.  Það er bara þannig að þegar maður fær "lánsbarn" frá Íslandi, þá vill maður hafa allt á hreinu og ég gat ekki farið að sofa í gærkvöldi án þess fá læknaálit á stráknum:)  Við þurftum að bíða í 2 klukkustundir á biðstofunni á Skadestuen og skemmti ég mér konunglega við að fylgjast með hinum sjúklingunum.  Þarna var ung kona sem var með skógarlús á puttanum, þarna var líka annar maður með skógarlús fasta á sér... ég veit ekki hvað amaði af hinum.  En allavega varð þessi bið þannig að allir Danirnir töluðu saman eins og um hitting í saumklúbb væri að ræða og eftir því sem leið á kvöldið færðu unga konan með skógarlúsina og ungi maðurinn sem var með pabba sínum á Skadestuen nær hvort öðru og flissuðu og flissuðu og flissuðu.... gott að hafa eitthvað að gera í langri bið á kaldri biðstofu:)  Halldór fékk góða skoðun á Skadestuen og fórum við aftur heim með upplýsingabækling um heilahristing og boð frá lækninum að við skyldum vekja hann á tveggja tíma fresti í nótt...fylgjast með honum í 24 klst eftir höfuðhöggið og boð um að hann skyldi taka það rólega í dag.   Til að gera langa sögu stutta, þá er Halldór orðin sprækur og nú er bara að njóta dagana hér í Danmörku.

Flottur að gefa bamba spagettí Við eyddum deginum í dag í Vejle.  Við byrjuðum á því að fara á safn, einskonar náttúru og umhverfissafn.  Skemmtu strákarnir sér mjög vel á safninu og reyndar við fullorðna fólkið líka heh... sérstaklega fannst þeim Klóak rotturnar spennandi.  Við gáfum svo strákunum sérstök pöddubox sem hægt var að kaupa á safninu, glærar dósir sem stækkunargleri, svona ekta pöddubox... 

Við borðuðum svo nesti við mylluna í Vejle eins og sannir Danir.... áður en við fórum í Bambagarðinn.  Að fá að fara í Bambagarðinn held ég að standi upp úr eftir daginn fyrir Halldór og fóru allir sáttir heim eftir skemmtilegan dag.

 

Stóru strákarnir hafa svo eytt kvöldinu á pödduveiðum.  Fóru út og fundu maurabú og söfnuðu maurum í nýju pödduboxin sín.  Sömdu svo við húsbóndann um súkkulaði til að fóðra maurana (og kóngulærnar sem rötuðu líka í dósirnar) og eru að vonast til að maurarnir verði búnir með súkkulaðið þegar þeir vakna á morgun... haha.   Dósin fékk samt ekki að vera í herberginu með þeim, heldur er hún geymd í eldhúsinu til morguns.

Það eru fullt af nýjum myndum í nýju albúmi en það má búast við myndum á hverju kvöldi núna á meðan Halldór er hjá okkur, þannig að foreldrar hans geti fengið að fylgjast með.

Kveð í kvöld

Kolbrún 


Fall er fararheill.........

Jæja... fullt að frétta hjá okkur að venju.

Kidda að blása á afmæliskertin sín Nú styttist í flutning okkar heim til Íslands og erum við farin að kveðja fólkið okkar hér smátt og smátt.  Í gærkvöldi hittumst við Berta og Raggi og Kidda og borðuðum saman í síðasta sinn í langan tíma.  Við gúffuðum í okkur BBQ svínarifjum með tilbehör meðlæti, kaniltertu, afmælistertu í boði Kiddu, rósavíni og Grand Marnier.  Þvílíkt dekur Wink  Kvöldið var frábært og gott að kveðja með góðar minningar að baki.

Seint í gærkvöldi komu svo Helga systir og fjölskylda og líka Halldór Ingi vinur Jóns Inga.  Þeirra hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu og mikil hamingja þegar þau loksins komu í hús.  

Við tókum daginn snemma í dag og fórum öll saman til Flensburgar í Þýskalandi.  Þar var labbað um miðborgina, farið á McDonalds og auðvitað var svo komið við í grensubúðinni og keyptar fljótandi veigar.   

Halldór með þýska fánannÞað má með sanni segja að Þýskaland í dag hafi verið litað af úrslitakeppninni á EM í fótbolta.  Þýski fáninn var vel sýnilegur, bæði á akandi bílum sem og annarsstaðar.  Ef ég skil þennan fótbolta rétt, þá er úrslitaleikurinn akkúrat í þessum töluðum orðum, Þýskaland-Spánn.   Ég held ekki með neinum heh.

Smá slys kom fyrir í dag í leik þeirra Halldórs og Jóns Inga.  Þeir fóru út á brettin sín rétt fyrir kvöldmatinn og vildi ekki betur til en að Halldór datt á brettinu sínu og fékk stórt glóðarauga....og smá mar á síðuna í kaupbæti.  En hann er harður strákurinn:) 

 

 

 

 

 

Setti inn nýjar myndir í nýtt albúm.

Out

Kolbrún 


Ég vaknaði upp við vondan draum sem var svo ekki draumur !!!

konguloSvefnpurkan ég, fer yfirleitt alltaf á undan manninum mínum að sofa og er jafnvel búin að sofa í marga klukkutíma áður en hann kemur uppí.  Eina nóttina í síðustu viku vaknaði ég upp með andfælum og hélt að mig væri að dreyma.  Ég nefnilega vaknaði við það að það var lamið á rúmið mitt af öllum lífs og sálarkröftum.  Og þegar ég opnaði augun, sá ég manninn minn halda áfram að lemja rúmið með stóra bók að vopni.  Hólí mólí hvað mér brá og hálf hvæsti á hann hvað hann í óskupunum væri að gera.  Jú... hann ætlaði að fara að sofa og tók sængina af lakinu og þá mætti honum stærðar kónguló á lakinu sem hafði hreiðrað um sig undir sænginni hans.  Og mátti hann hafa sig allan við að ná að drepa hana áður en hún fór yfir til mín, þar sem ég var steinsofandi.  Þvílíkt ógeð að fá svona kvikindi upp í rúm... ég kæri mig ekki um að deila rúmi með neinum nema manninum mínum og stundum litla Emil.  Síðan þetta var get ég ekki farið að sofa á kvöldin án þess að kveikja ljósið og marghrista sængina mína áður en ég get farið uppí.  En kónuglærnar hafa trúlega orðið hræddar við húsbóndann og hafa því haft sig hægar heh.

Annars er bara allt fínt að frétta af okkur.  Hér heldur pökkunin áfram að fullum krafti og svo hlökkum við til helgarinnar, mikið plan í gangi fyrir hana.

En ég býð góða nótt

Kolbrún 


Kaka með íslenska fánanum

Mig langar að þakka fyrir allar kveðjurnar frá ykkur í síðustu færslu.  Já og símtölin:)  Við erum að komast niður á jörðina aftur eftir gleði gærdagsins og í dag var byrjað að pakka að fullum krafti.  Berta var með okkur í allan dag að hjálpa okkur, krafturinn í konunni er ótrúlegur og skipulagshæfileikarnir - mig skortir orð.  Kærar þakkir fyrir alla hjálpina í dag Berta mín.

IMG_5731 Á morgun er síðasti formlegi kennsludagurinn hjá stóru strákunum mínum í Egebjergeskólanum.  Á föstudaginn eru bara skólaslit.  Þeir ætla að kveðja vini sína á morgun.  Ég bakaði í dag köku sem þeir ætla að taka með sér í móttökubekkinn, köku með íslenska fánanum.  Ég er nú bara nokkuð ánægð með mig og strákarnir voða spenntir að fara með kökuna í skólann á morgun.  Þeir ætla svo að bjóða krökkunum í bekkjunum sínum að smakka smá íslenskt nammi. 

Við erum því öll að komast í sumarfrí, Emil reyndar getur verið í leikskólanum til 14. júlí en þá lokar hann vegna sumarleyfa.  Ég er nú ekki viss um að hann nýti alla þessa daga því að nú erum við að fá gesti um helgina, systur mína og fjölskyldu auk Halldórs vinar Jóns Inga og það verður örugglega gert eitthvað skemmtilegt á daginn með þeim.

Ég ætla að halda aðeins áfram að pakka svo að Berta sjái nú kannski einhvern mun síðan hún kvaddi okkur í dag.

Out

Kolbrún 


Við erum að tala um hæstu einkunn !!!!!!!

Man-StudyingÍ dag er dagurinn  sem maður sér raunverulega tilganginn með því að hafa búið í Danmörku í eitt ár.  Upphaflega ákváðum við að flytja til Danmerkur vegna þess að maðurinn minn fékk ekki inngöngu í KHÍ vegna vöntunar á stúdentsprófi en hann hefur lengi lengi langað að nema Þroskaþjálfafræði.  En Danirnir buðu hann velkominn í námið og hóf hann nám í pædagog (þroskaþjálfa) síðastliðið haust.

Við fluttum hingað út síðasta sumar og vorum við þá öll alveg mállaus á dönsku.  Nú tala allir dönsku nema húsfrúin, því maður lærir víst ekki nýtt tungumál með því að vera taxidriver og skúringarkona.

Í dag tók svo húsbóndinn á heimilinu lokaprófið sitt á fyrsta árinu.  Um var að ræða fyrst fremmleggelse og svo einstaklings munnlegt próf í 20 mínútur.  Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað hann er búin að leggja mikið á sig í vetur og í dag uppskar hann ríkulega.  Hann fer út úr skólanum með hæstu einkunn eftir fyrsta árið... 12 í einkunn en ekki er hægt að fá hærri einkunn við skólann hans.  Þvílík hamingja á heimilinu... enn sem komið er er engin bekkjasystkina hans búin að fá hæstu einkunn eftir skólaárið. 

Það hefur því verið tilefni til að fagna í dag og það höfum við svo sannarlega gert.  Lestur undanfarinna vikna hefur að sjálfsögðu bitnar mest á fjölskyldunni og því er það bara eðlilegt að fagna árangrinum með henni.  Við fórum því í dag með alla strákana okkar á Pizza Hut, hlóum og höfðum gaman.  Komum svo við í vínkjallaranum hér í Horsens þar sem fjárfest var í góðu viskí og kúbuvindli.  Huggulegt?

Mátti til með að deila þessu með ykkur... ég er örugglega stoltasta eiginkona í heimi í dag heh.  Nú er bara að halda áfram en það ætlar eiginmaðurinn að gera í fjarnámi við háskóla í Kaupmannahöfn.  

Framundan er svo að pakka niður og græja húsið... og svo þarf dúx dagsins að finna sér vinnu á Íslandi... 

Over og out

Kolbrún og family 


Jónsmessa í Danmörku

Her er norninn sem kveikt var í á brennunniVið Íslendingar höldum Jónsmessuna ekki hátíðlega svona almennt.  En það er alveg öfugt hjá Dönunum.  Og þeir eru líka með hefðir sem við ekki þekkjum þannig að maður er alltaf að læra eitthvað nýtt. 

Í kvöld var boðað til Jónsmessu hátíðar hér í Mosanum (Midsummer kalla þeir þetta).  Hátíðin byrjaði á því að boðið var upp á pylsur, gos og appelsínur og var útilegustemmningin bara tekin á þetta, og maturinn borðaður úti í guðsgrænni náttúrunni.  Að sjálfsögðu var bara boðið upp á rauðar pyslur og brauðið var að sjálfsögðu borið fram við hlið pylsunnar, ekta danskt.  Við ættum að kynna Danina fyrir Bæjarins Bestu... þá fyrst myndu þeir fá að smakka alvöru pylsu. 

Rétt fyrir átta í kvöld var svo kveikt upp í brennu hér í Mosanum.  Á brennunni var búið að koma fyrir NORN en nornin var svo brennd á báli.  Ekki þekki ég söguna á bak við þessa hefð en vissulega sérstakt að fá tækifæri til að upplifa svona hefðir.  

Strákarnir skemmtu sér vel í kvöld, sérstaklega var Emil minn hrifinn af brennunni og vildi ekki fara heim.  Ég hafði sagt honum að hann fengi að vaka lengi í kvöld og vera úti í kvöldinu eins og stóru strákarnir gera stundum.  Hann var því ekki að kaupa það að  þurfa að fara heim fyrir myrkur.  En hann var nú samt fljótur að sofna litla sílið, glaður með skemmtilegan dag.

Ef ykkur langar að fræðast meira um hefðirnar tengdar þessum degi í Danmörku, þá rakst ég á ágæta útskýringu á Wikipedia:

Denmark

Danish bonfire with the traditional burning of a witch
Danish bonfire with the traditional burning of a witch

In Denmark, the solstitial celebration is called Sankt Hans aften ("St. John's Eve"). It was an official holiday until 1770, and in accordance with the Danish tradition of celebrating a holiday on the evening before the actual day, it takes place on the evening of 23 June. It is the day where the medieval wise men and women (the doctors of that time) would gather special herbs that they needed for the rest of the year to cure people.

It has been celebrated since the times of the Vikings, by visiting healing water wells and making a large bonfire to ward away evil spirits. Today the water well tradition is gone. Bonfires on the beach, speeches, picnics and songs are traditional, although bonfires are built in many other places where beaches may not be close by (i.e. on the shores of lakes and other waterways, parks, etc.). In the 1920s a tradition of putting a witch made of straw and cloth (probably made by the elder women of the family) on the bonfire emerged as a remembrance of the church's witch burnings from 1540 to 1693. (Unofficially a witch was lynched as late as 1897.) This burning sends the "witch" away from us, to Bloksbjerg, the mountain 'Brocken' in the Harz region of Germany where the great witch gathering was thought to be held on this day.

Holger Drachmann and P.E. Lange-Müller wrote a midsommervise (Midsummer hymn) in 1885 called "Vi elsker vort land..." ("We Love Our Country") that is sung at every bonfire on this evening.

 

 

Ég setti inn nokkrar nýjar myndir í nýtt albúm frá alvöru Jónsmessuhátíð í Danmörku

Kv

Kolla 


Óvissuferð með Kiddu

Við þrjár á Jensens í gærGóðan daginn góðir hálsar,

Þá er þessi helgi búin, helgin sem ég var búin að kvíða fyrir vegna lesturs húsbóndans.  En ég hafði sko engu að kvíða því að helgin varð bara skemmtileg og fljót að líða.  Kidda kom til Horsens frá Árósum og eyddi allri helginni með okkur Bertu og strákunum og var bara gaman hjá okkur.  Við fórum á Jensen og fengum okkur að borða í hádeginu í gær.

Síðan var haldið í óvissuferð og keyrt bara út í bláinn.  Fyrsti viðkomustaður var Ejer Bavnehoj.  Ejer Bavnehoj er hæsti punktur í Danmörku ( um 190 m á hæð) en er samt ekki fjall í þeirri merkingu.  Ejer Bavnehoj er hæsti punktur hér sem er byggð á.  Kidda hafði aldrei komið á Ejer Bavnehoj og við Berta höfðum bara farið einu sinni, báðar með tengdaforeldrum okkar og báðar fengið þá brjálað veður.  Veðrið í gær var bara gott til útiveru og nutum við þess að eyða löngum tíma þarna.  Við tókum svo með okkur fullt af blómum heim, sem strákarnir höfðu dundað sér við að týna fyrir okkur.  Ég skal játa að við Kidda höfðum pínu áhyggjur af Bertu... hún hafði gefið það út að hún væri til í allt um helgina nema fjallgöngu og við fórum með hana á hæsta punktinn í DK.  Og það var ekki séns að stoppa óléttu konuna sem á að eiga barn eftir 10 daga í því að ganga alla leið upp í útsýnisturninn og við erum ekkert að tala um neitt örfáar tröppur. 

Á heimleiðinni nutum við landslagsins hér, skoðuðum akrana en þeir eru sérstaklega fallegir á þessum árstíma.  

Rennur af stað ungi riddarinn Kvöldinu eyddum við svo heima hjá Bertu í Toblerone ís og Pina Colada.  

Ekki slæmur endir á góðri helgi.

Kærar þakkir fyrir samveruna um helgina Berta og Kidda Heart

 

 

 

 

Í dag er 23. júní.  Afmælisdagur afa míns heitins.  Fyrir nákvæmlega ári síðan fögnuðum við með honum 80 ára afmælisdeginum í grillveislu utandyra sem var sérstaklega vel heppnuð.  Sú samvera er með þeim síðustu sem ég á með afa mínum og er ég afar þakklát fyrir þennan dag með honum en hann veiktist stuttu síðar.  Hann kvaddi svo í nóvember.  Blessuð sé minning hans.

Það eru fullt af nýjum myndum í nýju albúmi

Kolbrún 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Kolbrún bloggar

Höfundur

Kolbrún Jónsdóttir
Kolbrún Jónsdóttir

Smellið á myndina og þá fáið þið allar upplýsingar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 54
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 50
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband