Færsluflokkur: Dægurmál

Hvítu tjöldin í dalnum

Hér í Horsens var slegið upp útihátíð í dag og hvítu tjöldunum tjaldað í dalnum í tilefni af verslunarmannahelgi.  Var margt um manninn á þessari íslendingahátíð, farið með börnin í leiki og síðan á að djamma eitthvað fram á kvöld.  Við fjölskyldan fórum að sjálfsögðu á hátíðina í dag til að sýna okkur og sjá aðra.  Það er nú samt pínu erfitt að koma inn í svona sterkt samfélag eins og Islendingafélagið hér virðist vera.  Hér þekkja allir alla en við bara rétt könnumst við suma.  En við komumst nú sennilega ekki inn í þetta samfélag hér nema að taka þátt.

Hvítu tjöldin í dalnum í Horsens Strákarnir skemmtu sér mjög vel á hátíðinni í dag.  Þar hittu þeir félaga sína og tóku þátt í brennó, stórfiskaleik og fleiri rammíslenska leiki.  Emil var nú ekki mikið að taka þátt í leikjunum en hjólaði þeim mun meira á hjólinu sínu þar til hann var orðin svo uppgefinn að hann varð að stoppa reglulega "á rauðu ljósi" eins og hann orðaði það svo skemmtilega.

 

 

 

 

 

Í morgun skelltum við okkur fjölskyldan til Kolding en það er borg sem er hér í næsta nágrenni.  Við fórum þar og skoðuðum pöddusafn.  Auk þess sem hægt var að sjá fullt af allskonar pöddum á safninu var líka verið að sýna helling af mat sem var búin að fá að standa í kæli í mislangan tíma og rotnunin var svo sýnd í sjónvarpi dag frá degi.  Þvílíkur viðbjóður.... það var varla að maður hefði lyst á hádegismat eftir að hafa verið þarna.  JAKK

Bræðurnir saman á pöddusafninu

 

 

 

 

 

 

 

 

FULLT AF NÝJUM MYNDUM Í ALBÚMI.

 

 Bið fyrir kveðju heim til Íslands

Kolbrún og co 


Dagurinn sem hefur verið beðið eftir með óþreyju

3. ágúst.... ég veit ekki hversu oft ég hef heyrt þessa dagsetningu frá elsta syni mínum síðan ég kom til Danmerkur.  Ég held 3. ágúst sé sá dagur sem hann hefur hlakkað til, meira en til nokkurs annars dags í mjög langan tíma.  3. ágúst er nefnilega frumsýningardagur á kvikmyndinni Simpsons í Danmörku.

Plakatið sem Jón Ingi vildi taka mynd af Þeir sem þekkja til okkar fjölskyldunnar vita að elsti sonur minn í forfallinn Simpsons aðdáandi.  Hann á öll season sem hafa verið gefin út með Simpsons, hann á óteljandi leikföng, minjagripi, tímarit, jafnvel eldhúsrullur og kex að ógleymdri talandi Simpsons klukkunni.  Hann var því frekar spældur þegar hann komst að því að Simpsons myndin yrði frumsýnd í Danmörku heilli viku á eftir frumsýningu á Íslandi.  En Danir eru frekar aftarlega þegar kemur að sýningum á myndum í bíó.  Til að mynda er enn ekki farið að sýna SHREK3 hérna en ég gæti trúað að hún væri hætt í bíó á Íslandi.     

 

Við fjölskyldan fórum öll á Simpsons myndina í dag.  Við fórum á fyrstu sýningu dagsins, semsagt algera frumsýningu hér í Horsens.  Við vorum auðvitað eins og sannir Íslendingar búin að kaupa miða nokkrum klst fyrir sýningu, við ætluðum svo sannarlega ekki að missa af miða á myndina.... en enn kemur í ljós hvað við erum öðruvísi en Danir.  Það var svo langt frá því að vera uppselt á myndina hér og er hún þó bara sýnd í einu kvikmyndahúsi,,,, hmmm það er bara eitt kvikmyndahús í Horsens.  Á sama tíma fékk þessi sama mynd yfir 16.000 gesti á fyrstu helginni á Íslandi.  

En bíó í Danmörku.... soldið gamaldags.  Á Íslandi kom THX hljóðkerfið árið 1987.  Í Danmörku kom sama hljóðkerfi árið 2005.  Allavega hingað í Horsens.  Þegar þú kaupir miða í bíó hér eru enn númeruð sæti... það er enn verið að gefa fólki FILM GUIDE hér (samt ekki alveg eins og þetta sem við þekkjum heldur eru 4 myndir saman í einu film guide).  Það er enn tau tjald fyrir skjánum í bíó og þegar það var dregið frá klöppuðu allir í salnum..... Já, við Íslendingar erum heldur langt á undan Dönunum.  Þetta er svona stemmning eins og þegar ég var unglingur.   Það sem pirraði mig óendanlega í bíó voru auglýsingarnar.  Ástæðan var sú að það voru mjög mikið af börnum í bíó í dag og auglýsingarnar voru bjórauglýsingar, vínauglýsingar og svo var verið að sýna úr fremur ógeðfelldum myndum sem eru væntanlegar og alls ekki við hæfi barna.  Emil varð dauðhræddur þegar verið var að sýna þarna úr einni myndinni. 

Simpsons bræður

 

 

Hérna eru semsagt Simpsons bræður í bíóhúsinu í dag.

 

 

 

 

 

Annað sem mig langar að segja ykkur frá sem ég lenti í í dag.  Ég þurfti svo að komast í klippingu.  Þegar við vorum í bænum um hádegi í dag sá ég hárgreiðslustofu og skutlaði mér inn og fékk tíma hjá þeim klst seinna.  Ég var bara glöð með það.  En þegar ég settist svo í hárgreiðslustólinn fékk ég eiginlega áfall.  Strákurinn sem klippti mig var frá Brasilíu og talaði litla dönsku og litla ensku.  Hann byrjaði á því að rennbleyta hárið á mér og allt í einu fékk ég þurrt handklæðið beint framan í mig alveg að óvörum, hann ætlaði semsagt að þurrka bleytuna sem hafði komið með öllu þessu vatnsspreyi sem hann notaði.  Mér krossbrá.  Síðan byrjaði hann að greiða mér og greiða mér og greiða mér og greiða mér.  Ég held að hann hafi greitt hárið í eins margar útgáfur og hægt er.  Loksins byrjaði hann að klippa en ég hafði sagt honum hvað ég vildi.  Ég var eitthvað annarshugar þegar hann byrjaði að klippa, en þegar mér er litið á spegilinn er hann búin að klippa svo langt upp hjá eyrunum að ég fékk áfall.  Síðan hafði hann greitt hárið að aftan.  Kom með spegil og spurði mig hvort þetta væri ekki fínt.  Ég auðvitað sagði nei og endurtók að ég hafi ekki viljað láta taka svona mikið af hárinu og ég vildi samt láta taka af því að aftan.  Þá fór aumingjast hágreiðslumaðurinn alveg í panik og kallaði á samstarfsmann sinn og bað hann að hjálpa sér því hann var auðvitað búin að klúðra þessu.  Sem betur fer hafði ég húmor fyrir þessu og mátti stórpassa mig að fara ekki að skellihlæja þarna í stólnum.  Sérstaklega átti ég bágt með mig þegar annar viðskiptavinur fór að reyna að segja þeim hvernig klippingu ég hefði beðið um upphaflega.  Jafnvel þótt ég hafi sennilega aldrei verið jafn ílla klippt á ævinni þá get ég ekki annað en brosað að þessu í dag.  Ég þarf að spyrja Íslendingana hér hvert sé best að fara í klippingu næst.  En elsku hárgreiðslustrákanir mínir voru nú svo næs við mig að ég fékk þessa klippingu í boði hússins, því þeir vissu svo vel að þeir hafi klúðrað hlutunum.  Ekki bað ég um það, ég tók upp veskið og ætlaði að borga og koma mér svo þaðan út eins fljótt og ég gæti og aldrei að koma þarna aftur... en gratis var orðið sem ég fékk.  Ég sagði þvi bara tak skal du har.

barber

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Njótið helgarinnar og í guðs bænum keyrið varlega.

Kolbrún 


HUSK P SKIVEN

Reynslusaga dagsins tengist svokölluðum P skífum en P skífur eru í framrúðu á öllum bílum í Danmörku.  Í raun gerir P skífan þér kleift að leggja bílnum gjaldfrjálst á bílastæðum í Danmörku í 1-2 klst.  Það sem þú þarf að gera áður en þú yfirgefur bílinn á bílastæði er að stilla tímann sem þú reiknar með að koma til baka á p skífuna í bílnum. 

p skive Svona lítur P skífa út

 

 

 

 

Ég hef aldrei séð einn einasta stöðumælavörð hér í Horsens.  Mér fannst það bara þvílíkur lúxus að geta lagt bílnum hvar sem er án þess að þurfa að borga í stöðumæli.  Kannski hef ég verið aðeins of kærulaus, því þegar við fórum í matvörubúðina seinnipartinn í dag þá gleymdum við að stilla p skífuna í bílnum, Hlynur mundi eftir því þegar við vorum kominn inn í búðina en það var mér að kenna að hann fór ekki til baka til að stilla skífuna, ég sagði við hann að þess þyrfti örugglega ekki lengur því að klukkan væri orðin svo margt.  Og vegna þessa fengum við fyrstu lexíu í Danmörku.  Stöðumælavörður kom auðvitað og gaf okkur skemmtilega háa sekt fyrir það að hafa ekki stillt P skífuna, 510 danskar krónur takk fyrir.  Það er alveg öruggt mál að P skífan verður alltaf notuð í framtíðinni, svona mistök gerir maður bara einu sinni.

 

En nóg um það

Deginum í dag eyddum við fjölskyldan í Árósum.  Við höfum í nokkra daga ætlað að fara þangað í tívolí en það hefur dregist vegna veðurs.  Í dag var keyrt yfir í tívolíið en þetta tívolí er  miklu miklu flottara en tívolíð í Kaupmannahöfn (samt bara á 1/4 af prísnum hjá þeim).  Strákarnir skemmtu sér svo vel og tíminn leið svo hratt að við höfum ákveðið að fara aftur í næstu viku og klára að skoða allan garðinn, við náðum bara að fara yfir hluta af honum í dag.

IMG_0516

 

 

 

 

 

 

 

Fullt af nýjum myndum í albúmi

Biðjum að heilsa héðan

Kolbrún og co 


Sólin er komin til Danmerkur

Já loksins lét hún sjá sig almennilega sólin, hér í Danmörku.  Alveg frá því að við komum til Horsens höfum við ekki fengið heilan sólardag fyrr en í dag og mér skilst að framhaldið sé gott og veðurspáin sé frábær fyrir næstu daga.   Það var 22 stiga hiti hér í dag, alveg mátulega passlegt Smile

Emil í Pósturinn Páll hoppukastala Við fórum í hoppuland í dag með strákana.  Emil hafði sér hoppulandið í gær þegar við vorum á labbi og varð alveg veikur að komast.  Um er að ræða stóran garð með FULLT af hoppuköstulum.  Þegar Emil svo vaknaði í morgun kl 7  (NB, Þá er klukkan 5 um nótt heima) þá byrjaði hann á að tilkynna okkur það að nú væri nóttin loksins búin og nú væri hann að fara í hoppukastalana.  En stóra hjartað okkur varð nú aðeins minna þegar hann fór í suma hoppukastalana, hann varð hálfhræddur í þeim sumum en naut þess að vera í öðrum.  Flottastur fannst honum auðvitað Pósturinn Páll hoppukastalinn.

 

 

Aðeins um Danmörku:

Mér finnst það soldið merkilegt að þegar þú kaupir inneign á símann þinn hér í Danmörku í stórmarkaði, þá færðu ekkert skafkort eða neitt svoleiðis.  Inneigin prentast út með strimlinum og þú þarf að rífa hana af strimlinum til að hringja inneignina inn í símann.  Við fengum því frekar flókin strimil úr Bilka í gær þegar við bæði keyptum inneign á simann hans Hyns og keyptum líka gsm síma fyrir strákana.  En ábyrgðin og allt er bara á strimlinum.  Mér var sem betur fer bent á það að geyma strimlinn vel.  Já, við keyptum gsm síma fyrir strákana og þeir eru nú báðir komnir með danskt símanúmer.  Ég er eiginlega ekki róleg með þá úti öll kvöld og geta ekki náð í þá.  Þeir eru auðvitað mjög lukkulegir og finnst þeir voða stórir kallar að vera komnir með danskt símanúmer.  

Takk fyrir i kvöld

Kolbrún

 

ps... að venju eru fullt af nýjum myndum í nýju albúmi.  Spurning hvað ég held þetta lengi út að blogga svona stíft... er á meðan er.

 


Vorvindar glaðir

Í dag fórum við í nestisferð með strákana í Vindmyllu sem er í Vejle.  Það var svo sannarlega skrýtið að koma inn á svona vindmyllu og fengum við tækifæri til að fara alveg efst upp í mylluna.  Við vorum þarna um hádegisleytið í dag þannig að við tókum bara með okkur nesti og borðuðum hádegismat í myllunni.  Öðruvísi upplifun Smile

Vindmyllan í Vejle

 

Myndavélin var að sjálfsögðu með í för og setti ég inn nokkrar nýjar myndir í kvöld frá deginum í dag.

 

 

 

 

 

 

 

 

Lífið gengur sinn vanagang hjá okkur.  Ég held að við eigum bara eftir að aðlagast hér vel, strákarnir vilja ekki sjá það að fara heim í ágúst.... en það er víst ekki neitt annað í boði fyrir þá.  Við vorum að sörfa aðeins á netinu í gærkvöldi og tókum eftir því að Hlynur á ekki lengur lögheimili á Íslandi, heldur stendur bara Hlynur... Danmörku.  Frekar skrýtið að sjá það svona á prenti....

Ekki meira í kvöld frá mér

Kolbrún 


Það er allt að smella hjá okkur

Heil og sæl,

Já það virðist allt vera að smella saman hjá okkur í dag.  Við fengum hringingu í dag frá leigumiðluninni og við erum búin að fá leigendur að húsinu okkar á Íslandi... frábærar fréttir fyrir okkur.  Það verður gengið frá þessu öllu á morgun Whistling

Í dag fengum við líka loksins íslenska smartsímann okkar tengdan.  Við erum því komin með heimasíma, einskonar internetsíma.  Hann virkar þannig að við hringum frítt heim til Íslands í öll heimasímanúmer og allir sem hringja í okkur frá Íslandi hringja á sama verði og þeir væru að hringja innanlands.  Ekki slæmt það.  Ef þið viljið heyra í okkur þá er nýja símanúmerið okkar 4960125

Það þarf ekki að velja neit á undan enda er fólk bara að hringja í íslenskt númer.  Passa bara samt upp á tímamismuninn, við erum tveimur tímum á undan Íslandi hér.  

 

Í dag fórum við að kíkja á leikskólann sem Emil fer vonandi í.  Flestir íslensku krakkanna fara í þennan leikskóla sem er í götu fyrir ofan Mosann.  Leikskólinn var lokaður í dag, trúlega sumarlokun í gangi en það breytir því ekki að Emil var afskaplega spenntur yfir þessum nýja leikskóla.  

Emil fyrir framan leikskólann 

 

 

 

 

 

 

 

Ég setti inn fullt af nýjum myndum í efsta albúmið.  

Ætla að setja punktinn hér í kvöld, við erum að fara að horfa á Jurasic Park

Kolbrún 


Ólíkir menningarheimar

Hér í Baunalandinu kynnumst við einhverju nýju á hverjum degi.  Dagurinn í dag byrjaði ekki mjög gæfulega hjá húsmóðurinni.  Ákveðið var að skella sér í sund í morgunsárið en Horsens á ágæta sundlaug hér í næsta nágrenni við okkur.  Ég fór auðvitað í kvennaklefan og allir strákarnir svo saman í karlaklefann... þeir höfðu því hvorn annan til að finna út úr hlutunum en ég var bara alein.  Ég fékk einhverskonar armband við inngangin þegar ég hafði borgað fyrir okkur inn í sundið, átti þetta armband að virka á skápana í búningsklefunum... ég lenti í mestu vandræðum með þetta armband og eftir að hafa fengið ráðleggingar um það hvernig ég ætti að læsa skápnum hjá bæði túrista og Dana, þá gafst ég upp og skildi skápinn minn eftir opin...  svo fór ég í sturtu, ekki tók betra við þar, ég leitaði og leitaði að því hvernig ætti að skrúfa frá vatninu í sturtunni en fann hvergi neina krana.  Það var ekki fyrr en einhver kona sýndi mér takka inn í sturtuklefanum að ég komst í sturtuna... spurning um að vera ósjálfbjarga í útlöndum.  En við skemmtum okkur nú samt mjög vel í sundi og meira að segja ég fór í stóru rennibrautina þar Smile

Þegar við vorum búin í sundi skelltum við okkur á markaðinn hér í Horsens.... einskonar kolaport sem er haldið utandyra, fullt af básum og svo fullt af tívolítækjum.  Mér finnst nú aldrei leiðinlegt að gramsa í svona dóti en þar sem markaðurinn var haldin á svæði hestamanna hér í Horsens var drullan og ógeðið þvílíkt að eftir smá stund var ég og allir aðrir í fjölskyldunni orðin eitt drullusvað.  Við stoppuðum því ekki lengi á markaðnum í dag.

Icecream

 

Annað nýtt sem gerðist hjá okkur í dag er að Ísbíllinn kom í Mosann.  Mér skilst að hann komi á hverjum sunnudegi rétt fyrir kvöldmat.  Ísbíllinn er hluti að menningu Dana og reyndar flestra norðurlandabúa.  Það fer ekki fram hjá neinum þegar ísbíllinn kemur i hverfið, hann er með þvílíkar bjöllur til að minna á sig.  Strákarnir voru þvílíkt spenntir yfir því að fá ísbílinn í hverfið okkar, við eigum örugglega einhverntímann eftir að hlaupa út þegar hann lætur sjá sig hjá okkur.

 

 

 

 

 

 

Ein hugleiðing að lokum.... ég gæti verið í fullri vinnu hér við að lesa auglýsingablöðin sem hrynja ofan í póstkassan hjá okkur.  Ég losaði póstkassann í morgun og gæti giskað á að i honum hafi verið 30 - 40 auglýsingablöð frá búðunum hér í grenndinni.  Það eru meira að segja þykk auglýsingablöð frá landamærabúðunum í Þýskalandi.  Þvílíkt magn af ruslpósti.  Mér finnst ruslpósturinn svo sem ekkert mjög leiðinlegur og er búin að flétta þessum blöðum að miklum eldmóð í dag.  Sérstaklega fannst mér gaman að fá HM bæklinginn.   

Over and out

Kolbrún 


Madsby legeparken

Frábær dagur að baki hjá okkur.  Við keyrðum til borgar sem heitir Fredericia en sú borg er rétt við litla beltið.  Akstur þangað tekur aðeins rúman hálftíma.  Þar er stór garður fyrir börn á vegum borgarinnar sem heitir Madsby legeparken,  þar sem fólk kemur með nesti með sér og þarf ekki að borga neitt fyrir að vera í garðinum.  Þvílíkt hvað strákarnir skemmtu sér vel í dag, meira að segja Jón Ingi sagði að þetta hafi verið einn að skemmtilegri dögum sem hann hefur átt í Danmörku.  Við eigum pottþétt eftir að fara þangað aftur með strákana, Emil fannst hrikalega skemmtilegt í bílunum og lestinni en stóru strákarnir skemmtu sér konunglega í þrautabraut Tarsans.  Ég setti inn fullt af myndum í albúm sem heitir Madsby legeparken.

Fór svo beint í bílana

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég verð að segja ykkur frá einu.... allir strákarnir mínir virðast enn vera soldið á kúk og piss aldrinum ennþá.  Emil til að mynda er alveg ferlegur á klósettunum hér í Danmörku, hann hefur aldrei þurft eins oft að kúka eins og þessa daga sem við höfum verið hér.  Ástæðan er sú að honum finnst svo gaman að sturta.. það eru nefnilega hægt að sturta niður á tvenna vegu, hálft sturt fyrir piss og heilt sturt fyrir kúk... og auðvitað vill hann fá að sturta heilu sturti.... ég veit, ég veit... of nákvæmar lýsingar en samt svo krúttlegt.    Hvað stóru strákana mína varðar þá finnst þeim hrikalega fyndið að prumpa... á mörgum götum hér koma skilti þar sem sést hvað þú keyrir hratt og á þeims stendur á dönsku FART... sem þýðir auðvitað hraði en þeir kalla það að prumpa að farta.... þannig að þeir hlæja alltaf jafnmikið þegar við keyrum framhjá svona skiltum.   Eins gott að þeir lesi ekki bloggið, þeir yrðu sjálfsagt ekki ánægðir með mömmu sína núna, en þetta er bara samt svo sætt líka:)

Biðjum að heilsa heim

Kolbrún og co 

 


Óþjónustulundaðir Danir

Um daginn var ég stödd í bakaríi hér í Horsens.  Ég ætlaði að kaupa kókoskúlu fyrir Emil og eins og ég hef reynt frá því ég kom hingað, þá reyndi ég að gera mig skiljanlega á dönsku.  Ég las hvað stóð á miðanum hjá kókoskúlunum TRUFFLE og bað um það.  Þegar ég fæ pokann með kókoskúlunum frá afgreiðslukonunni sé ég strax að hún hefur ekki látið mig fá það sem ég bað um eða allavega taldi mig hafa beðið um.  Í pokanum voru jú einhverjar kúlur með súkkulaði utan um.  Ég segi við hana að ég hafi ætlað að fá TRUFFLE og hún segir að þetta séu TRUFFLE.  Ég gat ekki gefist upp þar sem Emil veit sko alveg nákvæmlega hvernig kókoskúlur líta út og hefði ekki sætt sig við neitt annað en það.  Ég fer því að borðinu og bendi á kókoskúlurnar sem ég vildi fá og spurði hvort ég mætti skipta yfir í þessar kúlur.  Svipurinn á afgreiðslukonunni var óborgarlegur, hún var orðin svo pirruð á mér, setti upp þvílíkan pirringssvip, tók pokann og henti honum á næsta borð.  Lét mig svo með þjósti hafa nýjar TRUFFLE.  Ekki laust við að ég hafi fengið smá móral yfir því að vera með svona vesen þar sem ég virkilega gerði afgreiðslukonunni grammt í geði.  

Mér hefur reyndar ekki almennt fundist Danir mjög þjónustulundaðir, þú þarft að bíða endalaust eftir þjónustu hér en við Íslendingar kunnum ekki að þurfa að bíða eftir öllum hlutum.  Ég er nú frekar óþolinmóð þannig að ég þarf þokkalega að fiska mig og velja mér það viðhorf að bíða bara róleg í röðinni, það kemur að mérSmile

 Við fjölskyldan höfum átt mjög rólegan dag í dag, tókum þvottadag á þetta.  Það er þvottahús hér rétt hjá og það er mjög skemmtileg upplifun að fara í þvottahúsið.  Ég hef aldrei áður farið á almennings þvottahús fyrr en hér og þetta er bara heimur útaf fyrir sig.  Í fyrra skiptið sem ég fór var þar eldri maður sem var allan tímann sem tók mig að þvo (2 1/2 klst), hann var ekkert að þvo heldur bara sat og fylgdist með, drakk bjór og reykti.  Í dag var þarna ung kona í svipað langan tíma með lítin son sinn með sér og hann lá á gólfinu allan tímann með einn bíl og lék sér....

Ég frétti það í dag að stórfjölskyldan er farin að bíða eftir bloggi dagsins á hverjum degi og nýjum myndum.  Ég tók nú ekki margar myndir í dag en setti nokkrar í albúmið.   

Emil í hjólatúr

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Takk í dag

Kolbrún 


Orð dagsins

Heil og sæl

Fullt af fréttum frá okkur í dag.  Við fórum til hans Bjarne í morgun en hann er umsjónarmaður yfir húsunum hér í Mosanum í Horsens.  Við fengum þær góðu fréttir að við erum búin að fá hús til leigu fyrir okkur frá 1. október.  Við munum búa í Ranunkelvej 28.  

Mynd af raðhúsalengjunni sem við munum flytja íVið erum mjög hamingjusöm með þetta, gott að þurfa ekki að vera húsnæðislaus og þurfa að búa hjá öðrum.

Mosinn í Horsens er stundum kallaður litla Reykjavík.  Það eru svo rosalega margir Íslendingar sem búa þar.  Mosinn er bara með raðhúsum sem eru öll eins og í Mosanum eru bara þrjár götur.  Mosinn er í úthverfi og er því öruggt hverfi þar sem allir þekkja alla.  Tildæmis er engin verslun í sjálfum Mosanum:)  En hér heyrist íslenskan mjög mikið, bæði í Mosanum og í verslunum í bænum.  Ég tildæmis næstum labbaði á Hálfdán (veggfóður og djúpa laugin) um daginn, ég vissi að ég kannaðist við kauða.  Hann er víst nýfluttur hingað út líka.

 

Hér er mynd af húsinu okkar í Ranunkelvej

 

 

Við fórum í morgun líka til Vejle en það er næsta bær við Horsens.  Í Vejle er Sjónstöðin en þar mun Hlynur vonandi fá vinnu fljótlega.  Við fórum á Sjónstöðina til að skoða hana en flestir starfsmenn þar eru í sumarfríi þannig að Hlynur fékk ekki að tala við neinn nema ritara þar.

Þetta er sjónstöðin í Vejle

 

 

Sjónstöðin í Vejle

 

 

 

 

 

 

Eftir hádegi í dag fórum við svo á Himmelbjerget en það risastóra fjall er í um 20 mín fjarlægð frá Horsens.  Það tók okkur alveg heilar 5 mínútur að ganga upp á toppinn en að mér skilst er fjallið um 147 metrar að hæð.  Upp á topp er svo stór turn sem við fórum upp í og útsýnið úr turninum var alveg hreint frábært.  Emil litla fannst eins og hann væri kominn í kastala og var heldur betur sæll með ferðina í dag, ekki spillti fyrir að hann fann leikvöll á fjallinu og fékk þar góða útrás fyrir alla orkuna sína.

Það eru komnar fullt af myndum í nýtt albúm sem heitir himmelbjerget.

 

Aðeins meira af dönum:

Mér finnst mjög merkilegt að fara í matvörubúðirnar hérna í Danmörku.  Það kostar 10 kr danskar að fá kerru en maður fær krónurnar sínar endurgreiddar þegar maður skilar kerrunni.  Þetta er mjög sniðugt fyrirkomulag því að fyrir vikið þá eru engar kerrur um öll bílastæði og þvi engin hætta á því að kerrur sem skildar eru eftir í reiðuleysi eyðileggji bíla.  Þetta mætti svo sannarlega taka upp í meira mæli á Íslandi.  

Svo eru það tilboðin... þau eru alger frumskógur fyrir mér.  Maður þarf að vera mjög vel vakandi fyrir þessum tilboðum en það eru tilboð á hverjum degi á mjög mörgum vörum.  Oftast eru tilboðin þannig að þú færð einn pakka á einhverjar x krónur en ef þú tekur tvo pakka af sömu vöru borgar þú minna fyrir pakka númer tvö.  Dæmi:  í Bilka er hægt að kaupa stóra pizzu (örugglega 18 tommur) á 65 kr danskar, en ef þú kaupir tvær pizzur borgar þú 80 kr.  Þú færð semsagt seinni pizzuna á 15 kr.  Svona eru mjög mörg tilboð hér í búðunum og á mjög mörgum hlutum.  Meira að segja kjötið er selt á svona tilboðum.  Í dag sá ég tildæmis Gordon Bleu í 800 gr pokum og kostaði pokinn af þessu rúmar 30 kr danskar, en tilboðið var 4 pakkar á 90 kr.  Þannig að ef maður tekur mikið magn er maður oft að fá mikinn afslátt... ekki það að ég vilji borða Gordon Bleu í allar máltíðir hehe.. en ég er að reyna að koma þessu frá mér á mannamáli.

Ein mynd af okkur fjölskyldunni í turninum á Himmelbjerget, endilega kíkið á allar hinar myndinar.

Fjölskyldumynd upp í turninum á Himmelbjerget

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nótt Nótt

Kolbrún og co 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Kolbrún bloggar

Höfundur

Kolbrún Jónsdóttir
Kolbrún Jónsdóttir

Smellið á myndina og þá fáið þið allar upplýsingar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.8.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 313102

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband