Færsluflokkur: Dægurmál

Afmælisdagur Emils

Þá er fyrsti afmælisdagur Emils í Danmörku að kvöldi kominn og litli afmælisdrengurinn sofnaður.  Hann hefur átt alveg hreint frábæran dag.  Hann byrjaði á því að fara á leikskólann sinn með kökur og sleikjó.  Þar fékk hann að vera kóngur í dag, sat í kóngastól með kerti og íslenska fánann.  Já, leikskólinn á nefnilega íslenskan fána sem var gjöf til leikskólans frá íslensku barni sem er hætt á leikskólanum og í dag er fáninn tekin fram á afmælisdögum íslensku barnanna.  Emil fékk líka pakka frá leikskólanum og kort og er það eitthvað sem við á Íslandi þekkjum ekki heldur.....

komin í kóngastólinn

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Við fjölskyldan fórum svo á McDonalds í kvöld að beiðni afmælisbarnsins.... en McDonalds er sá veitingarstaður sem hann elskar út af lífinu.... Emil 4ja ára er semsagt mjög ánægður með daginn sinn og verður nú að fara að venja sig við að sína fjóra putta, þegar hann er spurður um aldurinn:)

Glaður strákur:)

 

 

 

 

 

 

 

 

Við þökkum fyrir allar kveðjurnar sem við höfum fengið í dag, allar gjafirnar sem Emil hefur fengið í afmælisgjöf og ekki síst símtölin í dag:)  Það er yndislegt að eiga góða að.

Ég setti inn fullt af myndum frá því í dag... maður klikkar ekki á smáatriðum.

Over and out

Kolbrún 


Hann á afmæli í dag!!!

IMAG0048

 

 

 

 

 

     mjög ánægður með hann
 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það hefur eitthvað teygst á honum Emil mínum, sem fagnar 4ja ára afmælinu sínu í dag:)


Kolbrún 


Afmæli í útlöndum

Jæja, þá er fyrsta afmælisveislan búin, fyrsta afmælisveislan þar sem við höfum ekki fjölskyldu og vini með okkur til að samgleðjast með okkur.  Emil er 4ja ára á þriðjudaginn næsta og hélt upp á daginn í dag með Hermanni vini sínum sem verður 3ja ára sama dag.   Það er skrýtið að halda upp á daginn með öðru fólki en við höfum alltaf gert... samt er yndislegt fólk sem samgladdist með okkur í dag til að það verði nú ekki misskilið en við söknuðum fjölskyldunnar okkar, allar ömmurnar og afarnir, frænkurnar og frændurnir... Emil saknaði sérstaklega Magnúsar frænda síns... við söknuðum Gunnu, Óskars og Erlu Bjargar, Særúnar, Bjössa, Aniku og Antons, Ellu, Óskars og stelpnanna þeirra og allra sem okkur þykir svo óendanlega vænt um á Íslandinu.  Á sama tíma erum við líka mjög þakklát fyrir allt það fólk sem við höfum kynnst hér í Danmörku og var með okkur í dag.

Afmæliskakan McQueen

 

 

 

 

 

 

 

 

Þema afmælissins hjá Emil og Hermanni var McQueen... enda báðir miklir áhugamenn um þá bíla.  Við Berta gerðum afmæliskökuna sjálfar og erum rosa stoltar af henni:)  Emil fékk margar góðar gjafir í dag.... það sem stendur upp úr hjá honum er Spiderman búningurinn sem Viðar gaf honum og McQueen tölvuspilið sem Hermann gaf honum.  En hann fékk líka legókubba, playmódót, spiderman dótahirslu og spiderman sundpoka, Turtles kall og Fólksvagen bíl...við þökkum kærlega fyrir okkur kæru vinir:)  Emil er alveg í skýjunum yfir deginum - enda var hann mjög góður (bæði sko dagurinn og Emil sjálfur hehe).

Félagarnir

 

 

 

Hermann og Emil hjá afmæliskökunni sinni

 

 

 

 

 

Ég setti FULLT af nýjum myndum inn í nýtt albúm....

Kolbrún 


10. janúar

10. janúar er fjölskyldudagur í minni fjölskyldu.  Amma mín Lára á afmæli í dag.  Þegar hún var fertug giftu mamma og pabbi sig á þessum degi líka... pabbi var svo ungur að hann þurfti að fá leyfi yfirvalda til að giftast unnustu sinni.  Við Hlynur gáfum þeim afrit af leyfisbréfinu þegar þau áttu 25 ára brúðkaupsafmæli og síðan eru liðin mörg ár.  Mamma, Pabbi og Amma Lára eru öll núna stödd á Kanaríeyjum að spóka sig í sólinni þannig að það verður ekki splæst í símtal í dag... en ég veit að þau lesa bloggið mitt þannig að ég sendi góðar kveðjur til Spánar:)

birthday-cake

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Annars er tíðindalítið úr Danaveldi , allt gengur sinn vanagang bara.  Emil gengur vel í leikskólanum og í morgun þegar búið var að keyra ungana á leikskólann fórum við Berta saman til Hedensted í kaffi til Þórunnar og Steinars... bara gaman.  Við erum byrjaðar að undirbúa aðeins afmælisveislu fyrir Emil og Hermann en þeir vinirnir eiga sama afmælisdag 15, janúar.  Finnst ykkur við vinkonurnar í Horsens ekki samstíga.... þurfum að gera allt eins.

Har det bra

Kolbrún 


Búin að fá vinnu!!!

Haldið þið að frúin sé ekki bara búin að fá vinnu.  Ég sendi fyrir forvitnissakir fyrirspurn á dreyfingarfyrirtæki hér í Horsens, fyrirtæki sem sér um dreyfingu á ruslpósti tvisvar í viku.  Það var hringt í mig í dag og ég ætla að taka þennan ruslpóstaútburð tvisvar í viku... prófa það.  Það er nú samt ansi mikill munur á því að koma úr starfi forstöðumanns og fara í það að bera út blöð en common, ég kom hingað til að prófa nýja hluti.  Ég get ekki bara verið heima alla daga, ég verð að gera eitthvað.  Þannig að ég reikna með að byrja á föstudag og strákarnir ætla að vera með mér í þessu:) 

Prófverkefni Hlyns er tvíþætt.  Fyrri helmingnum lauk í dag loksins eftir mikla vinnutörn.  Við ákváðum að gera okkur glaðan dag fjölskyldan og brunuðum til Árósa til að fara á Pizza Hut.  Það eru nokkrir pizzustaðir hér í Horsens, en okkur finnst þeir mjög óspennandi og höfum því ekki fengið okkur svona veitingarhúsapizzu síðan við fluttum hingað.  Pizza Hut í Árósum er svo sannarlega þess virði að keyra eftir.  Emil minn var svo krúttlegur á leiðinni til Árósa.  Hann tengir Árósar við Kiddu og talaði mikið um hana á leiðinni.... Kidda SÆTA mín sagði hann og ekki laust við að hann færi aðeins hjá sér.  

Pizza Hut í Árósum

 

 

 

 

 

 

 

 

Við skemmtum okkur mjög vel í Árósum í dag, frábær matur sem við fengum og allir glaðir.  Gleðin var meira að segja of mikil - það var hreinlega hlegið í bílnum alla leiðina til Horsens aftur.  Veit ekki hvort að það var eitthvað í matnum eða hvort við foreldrarnir séum bara svona óendanlega skemmtilegir... eins og einhver þurfi að efast um það.

og hann hló og hann hló

 

 

 Emil skellihlæjandi

 

 

 

 

 

 

 

 

Það er alveg nauðsynlegt að gera eitthvað svona saman fjölskyldan.... ég held að við séum öll endurnærð... allavega líkamlega múhaha

Kveð í kvöld - fullt af nýjum myndum í albúmi

KOlbrún 


Nýtt barn á heimilið

Nei, ég er ekki ólétt....... það stendur ekki til.  Ég á þrjú heilbrigð börn og er óendanlega þakklát fyrir það. 

En yngsti sonur er komin með viðhengi sem hann vill að við komum fram við eins og barn.  Það er sjálfur íþróttaálfurinn, stór íþróttaálfadúkka sem við keyptum í Kmart í fyrra og gáfum honum í jólagjöf.  Þessi dúkka fær að fylgja honum allt og þá meina ég allt sem hann fer.  Hann á sæti við matarborðið og fær að sjálfsögðu disk og glas, hann fer með í allar bílferðir og fær að sjálfsögðu öryggisbelti, hann fer alltaf með á leikskólann, hann fékk að fara með að skjóta upp flugeldum í kvöld og var sorg yfir því að við ættum ekki öryggisgleraugu fyrir hann, hann situr í sófanum og horfir á Emil spila tölvuleiki og hann sefur alltaf með Emil í rúminu á kvöldin.  Ef Emil vaknar á nóttunni man hann líka alltaf eftir því að færa íþróttaálfinn yfir í okkar rúm með sér.  Emil kallar íþróttaálfinn STÚF og talar við hann eins og hann sé barnið hans.  Það verður alltaf að kyssa íþróttaálfinn góða nótt, fyrst pabbi og svo Emil.  Um daginn gleymdi Emil íþróttaálfinum heima hjá Hermanni og kallaði á hann hér um allt hús áður en hann fór að sofa.....held nú samt að hann hafi ekki vonast eftir svari... en allavega var íþróttaálfurinn sóttur til Hermanns.

Ástfóstur Emils á íþróttaálfinum jókst til mikilla muna þegar við fluttum til Danmerkur.  Það er eins og íþróttaálfurinn sé öryggisventillinn hans í daglegu lífi.  Ef maður sér Emil er næsta víst að íþróttaálfurinn er ekki langt undan.

Það má því segja að við séum komin með nýtt barn á heimilið sem þarf að hugsa um allan daginn, gefa að borða, bursta tennurnar í og svæfa.  Þetta er bara sætt.

íþróttaálfurinn sá um að geyma stjörnuljósapakkann

 

 

 

Hér er íþróttaálfurinn á gamlárskvöld að geyma stjörnuljósin fyrir Emil.  Fór að sjálfsögðu með út að sprengja þá líka.

 

 

 

 

 

 

 

Er annars í litlu bloggstuði í kvöld... það er svo mikið að gera á msn.

En allt gekk vel í dag með Emil á leikskólanum, hann fór sáttur inn á leikskólann með Hermanni vini sínum, kvaddi með kossi og var í leikskólanum í næstum fjórar klst.   Gæti ekki verið betra.

Kolbrún out 


Loksins!!

Loksins er hlaupabólan búin að syngja sitt síðasta á þessu heimili.  Það er komið hreystur yfir allar bólurnar og er því drengurinn tilbúinn til að byrja í leikskólanum aftur í fyrramálið.  Þvílíkur munur sem það verður fyrir hann og mig að komast þangað aftur.  Hann var veikur vikuna fyrir jólafríið, það var lokaður leikskólinn á milli hátíðanna og nú er hann búin að vera með bóluskrattann í 9 daga og þetta er bara orðið fínt.

Hlynur er að leggja lokahönd á undirbúning fyrir prófið sitt þessa dagana og er í skólanum langt fram eftir degi.  Það hafa því verið frekar langir dagar hér á Ranunkelvej.  Ég tók niður jólaskrautið í dag, það var svo sem ekki mikil vinna þar sem mest allt skrautið okkar varð eftir á Íslandi.  Ég var varla búin að setja kassann inn í geymslu þegar pósturinn kom og með honum 2 síðbúin jólakort.  Annað frá gamalli vinkonu og hitt frá Hólabergi.  Ég sem var svo sár og svekkt yfir því að hafa ekki einu sinni fengið jólakort frá vinnunni minni.  Ég sá það á umslaginu að það var póstlagt þann 21. des, heimilisfangið alveg rétt skrifað... sem sagt allt eins og það átti að vera.  En ég fékk samt ekki kortið fyrr en í dag og var afskaplega hamingjusöm með þessa góðu kveðju frá mínum fyrri samstarfsfélögum.  

Og hvað á maður svo að gera þegar maður er bundin heima dag eftir dag yfir veiku barni.  Ég fór að sortera sokkapör ... eitthvað sem ég nenni aldrei.  Vandamálið "hvar er hinn sokkurinn" fylgir okkur til Danmerkur.   Það hlýtur að vera draugur í þvottahúsinu hér eins og á Íslandi.

Annars liggur bara ljómandi vel á frúnni í dag... og mikið hlakkar mig til á morgun að geta farið með Emil á leikskólann og farið svo og verslað í Bilka.  Ég hef ekki verslað hér inn síðan fyrir áramót þannig að það er orðið þokkalegt bergmál í ísskápnum.

Lifið heil

Kolbrún 


Sjónvarpið í Danmörku

Þegar við borgum leiguna okkar hér í Mosanum, þá borgum við í leiðinni fyrir aðgang að kapalsjónvarpi.  Í þessu kapalsjónvarpi eru einhverjar ríflega 30 sjónvarpsstöðvar.  Við höfum nú alls ekki horft mikið á sjónvarp hérna í Danmörku, eiginlega bara alveg hrikalega lítið en strákarnir okkar hafa horft þó nokkuð mikið á Cartoon Network.  Á þeirri sjónvarpsstöð hafa verið þeirra uppáhalds teiknimyndaþættir, þættirnir um Mr. Bean og svo um Skjaldbökurnar. 

Um hver áramót er haldin kostning í Danmörku um það hvaða sjónvarpsstöðvar verði í kapalkerfinu á næsta ári.  Ég veit ekki nákvæmlega hvernig þessi kosning fer fram og hverjir fá að kjósa en við allavega létum sjónvarpið okkar leita upp á nýtt af stöðvum nú um áramót, spennt að sjá hvað væri nýtt og hvað myndi detta út um þessi áramót.  Við sáum fljótlega að við fengum inn tvær nýjar stöðvar, það er Mtv og Animal Planet og bara sátt með það.  En við tókum líka eftir því að Cartoon Network var dottið út og verður ekki á kapalkerfinu árið 2008.  Þvílík vonbrigði, aldrei hefði manni dottið í hug að svoleiðis sjónvarpsstöð myndi verða kosin út.  Mestu vonbrigðin fyrir okkur er að þetta er næstum eina sjónvarpsstöðin sem hefur verið notuð á heimilinu. 

Ætli við fjölskyldan þurfum kannski bara að fara að tala saman?

cartoon

 

 

 

 

 

 

 

Out

Kolbrún 


Fyrsti snjórinn

Fyrsti snjórinn lét sjá sig í Horsens í dag.  Reyndar er það ekki snjór eins og við sem erum sannir Íslendingar þekkjum, heldur bara svona föl heldur:)   Það stoppaði þó ekki Hafstein í því að drýfa sig út með hálsbólguna sína til að búa til snjókall.  Snjórinn er það sem hann saknar mest frá Íslandi og hefur hann margoft talað um að hann langi að skreppa til Íslands, bara til að búa til eins og einn snjókall. 

hér er afraksturinn

 

 

 

 

 

 

 

 

Þrátt fyrir smá ofankomu í dag, þá brugðum við Berta undir okkur betri fætinum í morgun og skruppum bara tvær saman til Árósa.  Við kíktum í búðir í Árósum, eyddum samt ekki neitt voða miklu sko.... og fórum svo í hádegismat til Kiddu.  Hún bauð okkur upp á "Vetrarsúpu", alveg svakalega góð kjúklingasúpa með grænmeti og kartöflum og karrýkeim.   Í eftirmat fengum við okkur svo svissneskt súkkulaði fondú með fullt af ávöxtum, slurp..... og ekki má gleyma nóa konfektinu.  Það er alveg sérstaklega gaman að fara í svona heimsóknir barnlaus:)   og geta alveg gleymt stað og stund og naut ég þess í dag.  Ég meira að segja naut svo líðandi stundar að ég gleymdi tímanum og kom heim klukkutíma of seint til að hleypa Hlyni í lærdóminn fyrir prófið hans.  En eins og Hlyni mínum er von og vísa, þá sagði hann ekki eitt aukatekið orð yfir því, bara brosti:)  Kærar þakkir fyrir mig Kidda

Súkkulaði Fondú hjá Kiddu

Frábær dagur í dag

 

Fleiri myndir í albúmi

 

Kolbrún out 


Rútínan tekin við

Þá eru jólin búin og rútínan tekin við aftur.  Hlynur er byrjaður aftur í vinnunni og í skólanum og undirbýr sig nú fyrir lokapróf áður en að hann fer í praktík.  Hann var svo sérlega heppinn með praktíkstað, verður bara hér í göngufæri við heimilið okkar.  Skólinn hjá strákunum er líka byrjaður aftur eftir jólafríið en Hafsteinn hefur ekki enn farið í skólann vegna veikinda.  Emil er svo auðvitað enn að berjast við hlaupabóluna en hún er nú sem betur fer í rénum.

Það er margt spennandi framundan hjá okkur.  Við erum nú að skipuleggja ferðina okkar til London, Hlynur er að fara til Íslands í nokkra daga, það er verið að skipuleggja Bandaríkjaferð í vor og svo eru það afmælin sem eru framundan.  Bæði Emil og Jón Ingi eiga afmæli núna í janúar.  Þá erum við líka aðeins farin að ræða sumarið.  Hlynur verður í fullri vinnu á sjónstöðinni í sumar en við ætlum þó að reyna að taka okkur nokkurra daga frí saman og fara til Parísar og leyfa strákunum að upplifa Disney land.  Það verður bara gaman:)   Við eigum líka von á gestum í sumar.  Fullt af skipulagningu í kringum það og við hlökkum til að eyða sumrinu hér í Danmörku með vinum og fjölskyldu.  Gott væri samt að fá að vita það fljótlega hverær hver og einn ætlar sér að koma til að við getum skipulagt okkur aðeins meira og ekkert stangist á, við búum jú ekki í mjög stóru húsnæði:)

Í byrjun árs hef ég aðeins verið að taka sjálfan mig í naflaskoðun og íhuga fyrir hvað ég stend sem manneskja.  Það er skrýtið að koma inn í nýjan heim hér í Horsens þar sem engin þekkir mína fortíð og engin þekkir fyrir hvað ég hef staðið á Íslandinu.   Niðurstaða mín er sú að ég veit sjálf nákvæmlega fyrir hvað ég stend, ég þekki mín mörk og fer eftir þeim og hlusta á þau.    Og í svona þankagangi leitar hugurinn aðeins heim til Íslands, heim í öryggið þar sem ég veit að ég á stóran vinahóp, góða vinnu og góða fjölskyldu.  Fólkið mitt heima á Íslandi veit fyrir hvað ég stend og ég er afskaplega þakklát fyrir allt það góða fólk sem ég veit að bíður eftir okkur heima á Íslandi.  Þokkalega væminn pistill en það eru bara svo margir hlutir sem hafa fangað hugann í byrjun nýs árs.

Bið að heilsa heim

Kolbrún 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Kolbrún bloggar

Höfundur

Kolbrún Jónsdóttir
Kolbrún Jónsdóttir

Smellið á myndina og þá fáið þið allar upplýsingar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.7.): 9
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 313060

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband