Nú er aftur tómlegt í kofanum

Já, Gunna fór aftur til Íslands í morgun.  Við erum búnar að ná að gera alveg ótrúlega marga hluti á alltof fáum dögum.  Það var auðvitað verslað... við fórum í Bilka, Kwikly og Fötex.... keyrðum alveg sjálfar til Árósa og tókum göngugötuna þar í nefið og svo var líka verlsað í miðbænum í Horsens.  Við fórum og heimsóttum Óðinsvé um helgina en þar var jólaland í anda H.C Andersens.  Ferðin byrjaði ekki vel.  Við Emil fórum með Ragga og Bertu og Hermanni þar sem okkar Fólksvagen er ekki nógu stór fyrir sex.  Við vorum ekki komin langt þegar það sprakk á bílnum á hraðbrautinni.  Emil varð hræddur og hefur rætt mikið um dekk og fara varlega alla helgina.  Við fórum líka um helgina og skoðuðum Coca Cola lestina sem var í Horsens og svo skelltum við Emil okkur í piparkökuskreytingar á sunnudagsmorgunin með Íslendingafélaginu. 

Jólasveinnin var með jólalestinni

Skemmtileg helgi... Emil hefði svo sem alveg mátt vera aðeins stilltari, hehe... en það eru fullt af nýjum myndum í nýju albúmi.

Kolbrún out


Hátíð í bæ

Það er hátíð á heimilinu okkar í dag.  Við fengum svo frábært símtal frá Guðrúnu vinkonu minni í dag... hún er að koma til okkar í heimsókn Á MORGUN.  OMG hvað mig hlakkar til að eyða helginni með henni.  Ég reikna með því að það verði hressilega tekið á því í búðunum, ætli ég bjóðist ekki bara til að vera bruðardýr, hahaha.  Þannig að laufabrauði er borgið á þetta heimili fyrir jólin. 

Um daginn fékk ég umslag frá kommúninni hér í Horsens um að ég ætti að mæta með strákana til tannlæknis á ákveðnum tíma og alla í einu, í eftirlit.  Ég reyndar þurfti að breyta þeim tíma því við vorum á íslandi þegar upphaflegi tíminn var... en við fórum semsagt í dag til tannsa.  Þeir settust í stólinn hver á fætur öðrum, voru allir burstaðir og flúoraðir og skoðaðir í bak og fyrir með tilheyrandi myndatökum.  Niðurstaðan var sú að EMil og Jón Ingi eru án tannskemmda... Emil fékk meira að segja excellent niðurstöðu úr skoðuninni.  Hafsteinn er með eina skemmd sem verður viðgerð í næstu viku... það eru held ég fjögur ár síðan hann fór til tannlæknis síðast, þannig að ég ætla ekkert að gráta það þótt það hafi leynst ein skemmd í stráknum.  Hér í Danmörku er tannlæknaþjónusta frí fyrir öll börn upp að 18 ára aldri.  Mér fannst mjög skrýtið að ganga bara út í dag án þess að borga, maður á þessu bara ekki að venjast. 

Að lokum...

Ingi Geir stórmágur minn á afmæli í dag og sendi ég honum mínar bestu afmælisóskir í gegnum veraldarvefinn.  Hefðum sko alveg verið til í að vera með þér í kvöld Ingi Geir minn:)

Out

Kolbrún


Aðventan er alveg minn tími

Aðventan er held ég minn uppáhaldstími á árinu.  Mér finnst allt skemmtilegt í tengslum við þennan árstíma.  Mér finnst alveg sérlega gaman að baka jólasmákökurnar og er búin að baka margar sortir sem renna ljúft niður í strákana mína alla.  Sérlega mikil ánægja með mömmukökurnar og sörurnar sem ég bakaði í dag:) 

Við höfum í gegnum árin komið okkur upp okkar eigin jólahefðum.  Það hafa til dæmis ekki verið jól nema að fá fjölskylduna í kalkún.  Það verður ekki í ár og veit ég að einhverjir munu sakna þess.  Við munum engu að síður búa okkar kalkún, því það eru engin jól án kalkúns.  Við ætlum þess í stað að njóta kalkúnsins með Bertu, Ragga og Hermanni á Nýjárskvöld:)   Við erum nánast búin að skrifa jólakortin en það er ákaflega hátíðleg stund hjá okkur fjölskyldunni.  Það er hvert kort valið og skrifuð persónuleg kveðja til hvers og eins.  Rétt eins og mér finnst gaman að skrifa jólakortin, þá finnst mér alveg æðislegt að fá jólakort.  Ég opna engin jólakort fyrr en seint á aðfangadagskvöld og best er að fá sér konfekt og smá grand dreytil með opnuninni.  Í mörg ár höfum við eytt þorláksmessukvöldi á heimili foreldra minna en þar hefur stórfjölskyldan safnast saman og borðað skötu... ég á eftir að sakna þess í ár.  Við fáum aftur á móti okkar skötu á hátíð Íslendingafélagsins í hádeginu á þorláksmessu.  Hangikjötið er partur af jólunum... læri skal það vera.  Ég lenti í því eitt árið að kaupa frampart og það var ekkert hangikjöt það árið, kartöflur og grænar baunir með FITU.  Oj bara barasta....  Laufabrauðið er ómissandi með hangikjötinu en því miður á ég ekkert laufabrauð núna.  Er hægt að láta senda sér laufabrauð til Danmerkur?  Ætli það verði bara laufabrauðsmylsna þegar það kæmi til mín? 

Jólapökkun er líka mitt áhugamál.  Ég eyði oft alltof miklum tíma í að velja skraut á hvern pakka fyrir sig og hef mikið gaman af.  Ég get alveg eytt hálftíma í að pakka inn einni jólagjöf og reiknið þið svo hvað það tekur mig langan tíma að pakka öllu inn, haahaha

Annars erum við alveg tilbúin að taka á móti jólunum.  Þetta verða allt öðruvísi jól en við höfum upplifað áður þar sem við verðum án fjölskyldu og vina.  En við bara hlökkum til, við höfum hvert annað og það er nóg fyrir okkur.

Farin að sofa til að safna kröfum í nýjan bökunardag... segi svona

Kolbrún


Gestirnir okkar farnir aftur heim til Íslands

Það er tómlegt í kofanum okkar í dag.  Tengdaforeldrar mínir eru búnir að vera hérna hjá okkur í nokkra góða daga en þau flugu aftur heim til Íslands í dag.  Við erum búin að bralla heilmikið saman á þessum dögum.  Við fórum tildæmis upp á Himmelbjerget, við fórum í den gamle by í Árósum, fórum til Vejle og á jólamarkað.  Svo var miðbærinn í Horsens skoðaður og auðvitað aðeins skroppið í Bilka.  Tímanum hérna heima eyddum við svo í að baka kleinur og soðbrauð og brune kager, og borðuðum góðan mat:)  Kærar þakkir fyrir okkur Elsku Hreinn og Veiga.

Tengdaforeldrar mínir pössuðu svo strákana mína um helgina á meðan við hjónin skruppum til Kaupmannahafnar á jólahlaðborð með vinnufélögum Hlyns á sjónstöðinni.  Það var alveg frábær ferð.  Við vorum á lúxus hóteli við Radhuspladsen.... ég hef allavega aldrei verið á svona flottu hóteli.  Við fórum á strikið og löbbuðum Nýhöfn, stoppuðum á kaffihúsum og höfðum það þvílíkt notalegt.  Um kvöldið fórum við svo á jólahlaðborðið danska.  Það er mjög ólíkt hinum hefðbundnu íslensku jólahlaðborðum.  Danska jólahlaðborðið er þannig að það koma bakkar inn á borðin og deila 4-5 hverjum bakka.  Fyrst kom forréttarbakkinn og á honum var þrennskonar síld, grafinn lax og reyktur lax, reyktur áll og steikt rauðspretta og auðvitað fullt af brauði.  Í aðalrétt var boðið upp á purusteik, önd, lifrarkæfu, steikt beikon og medisterpylsu.... með aðalréttinum var svo boðið upp á rauðkál og rauðbeður og epla/lauk eitthvað.....   Eftirréttarbakkinn innihélt svo risgrautinn, þrennskonar osta, vínber, mandarínur og hnetur.    Mjög spes.   Það sem kom skemmtilega á óvart á jólahlaðborðinu var rísgrauturinn, hann var algert æði með kirsuberjasultunni... namm.   Það sem mér fannst aftur mjög skrýtið var að borða kalda purusteik og fá hvorki kartöflur né sósu.  En það var sannarlega gaman að fá að prófa að fara á ekta danskt jólahlaðborð.

við hjónin á leiðinni á jólahlaðborð í Kaupmannahöfn

Strákarnir mínir eru búnir að bíða eftir því að fá að skreyta húsið okkar með jóladótinu og loksins var komið að því í dag.  Þvílíkur spenningur þegar jólakassarnir voru teknir fram.  Þvílík vonbrigði þegar þeir voru opnaðir.  Eitthvað hefur jóladótið okkar skolast til í flutningnum og við erum bara með smá hluta af jóladótinu okkar hér í Horsens, hitt hlýtur að vera í geymslunni í Jöklaselinu.  Það vantar allt það sem ég hef notað ár eftir ár en ég fékk að njóta kassana með dóti sem ég hef ekki sett upp í mörg ár.  Allt Georg jensen dótið mitt er ekki með... allir íslensku jólasveinarnir eru ekki með....jólaskrautið sem íbúi á Skálatúni bjó til og ég held mikið upp á... ekki með.... og ég gæti talið endalaust.   En við gerum bara gott úr þessu og notum það sem við höfum.  Það er allavega komið ljós í stofuna hjá okkur og dótið af jólatrénu er sem betur fer með í för.

Kvöldinu höfum við svo eytt í það að skrifa jólakort og borða nóa konfekt... þvílíkt dekur.  Við fáum svo annað dekurkvöld á morgun því við náðum bara að skrifa um helminginn af kortunum í kvöld.

Ég er ekkert að grínast með það, að það erum um 70 nýar myndir í nýju albúmi.  Njótið vel:)

Kolbrún


Gullkorn dagsins

Smá gullkorn frá sonum mínum

 

Hafsteinn minn fór á lestarstöðina í gær og lét taka af sér passamyndir til að geta fengið strætókort í skólanum.  Hann var mjög ánægður með kortið sitt og las það spjaldanna á milli þegar hann kom heim með það.  Inn í kortinu er skrifað það verð sem kortið kostaði skólann, en það voru rúmlega 800 kr danskar.  Hann rak augun í þetta og sagði "mamma, buskortið kostaði 835 kr og engin EYRU"   (stóð kroner 835, öre 0)

Í morgun fór svo yngsti sonur á klósettið á meðan ég var að brjóta saman þvott.  Eitthvað fannst mér hann lengi á klósettinu og fór að tékka á honum.  Og hvað haldið þið að hann hafi verið að gera!!!  Hann var búin að taka rakspírann hans pabba síns, hella honum í vaskinn og fylla svo rakspíraglasið aftur með vatni... og sagði svo við mig þvílíkt montinn að hann sé búin að búa til nýjan rakspíra.  Og rökstuddi meira að segja málið með því að fræða mig um það að pabbi sinn hefði sagt sér að allt sem flyti væri búið til úr vatni.  

 

Annars er bara fínt að frétta.  Emil er nú byrjaður á leikskólanum á fullu og skildi ég hann eftir þar í næstum fjóra klst í dag.  Hann er soldið súr að fara á morgnana en alsæll þegar ég sæki hann og jafnvel ekki tilbúin til að fara heim strax.  Á morgun fáum við svo tengdaforeldra mína í heimsókn til okkar en þau ætla að stoppa hér fram á mánudag:)  

Kveð í kvöld

Kolbrún 


og meiri gleði helgarinnar

Það er búið að vera þokkalegt aksjon hjá okkur fjölskyldunni um helgina.  Súpukvöld og piparkökubakstur..... og deginum í dag eyddum við á fjölskylduskemmtun fyrir Íslendinga sem eru búsettir í Horsens og nágrenni.  Gríðarlega mikill fjöldi af Íslendingum kom á fjölskylduhátíðina í dag.... eitthvað yfir 200 manns.  Á hátíðinni fengu litlu krílin dagskrá í anda Latabæjar á meðan stóru krakkarnir fengu að spreyta sig í Boot camp.   Allir fengu svo vöfflur með rjóma og íslenskri rabbabarasultu....  Strákarnir mínir skemmtu sér stórvel í dag og fengu þokkalega útrás fyrir alla orkuna... enda sofnaði Emil fljótt í kvöld.  Jón Ingi reyndar nennti ekki með okkur og kaus frekar að vera heima og chilla... hans missir:)

Emil ánægður með sína tösku

Á morgun byrjar svo ný vika - ný leikskólavika.  Mikið vona ég að hlutirnir eigi eftir að ganga vel í leikskólanum hjá Emil í næstu viku.  Hann hefur svo mikla þörf fyrir að vera með öðrum börnum, hreyfa sig og fá útrás fyrir orkuna sína.

Kveð í kvöld   -    slatti af nýjum myndum í nýju albúmi frá því í dag

Kolbrún


...... kökugerðarmaður tekur

Það var piparkökubakstur í Horsens í dag og dagurinn tekinn snemma.  Við hittumst þrjár mömmur með ungana okkar í morgun, skárum út, bökuðum og skreyttum fullt af piparkökum.  Litlu ungunum fannst piparkökubaksturinn frekar mikið skemmtilegur og skreytingarvinnan ekki síðri, örugglega upprennandi bakarameistarar. 

afrakstur dagsins

Setti inn fullt af myndum í annað nýtt albúm frá því í dag.   Læt þetta duga í bili, þarf að sinna öllum ungunum sem eru hér í kvöld, mínum og svo nokkrum svona aukaungum sem ýmist ætla að gista eða ekki gista hér í nótt.......

Out

Kolbrún


Súpukvöld í Horsens

Við erum þrjár hér í nágrenninum sem allar unnum hjá SSR þar til í sumar eða haust.  Við höfum ákveðið að halda góðu sambandi á meðan við búum hér í Danmörku (og vonandi auðvitað lengur).  Í gærkvöldi hittumst við á okkar fyrsta súpukvöldi heima hjá okkur.  Boðið var upp á mexikanska kjúklingasúpu og heimabakað brauð, en súpan er í miklu uppáhaldi hjá okkur hjónum. 

og hér erum við loksins öll komin við borðið

Ég skelli inn uppskrift hér af súpunni góðu fyrir þær stöllur Bertu og Kiddu:)  Ef fleiri vilja prófa þá get ég lofað að þið verðið ekki fyrir vonbrigðum.

2 laukar

4 hvítlauksrif

2 msk olía

2 dósir niðursoðnir tómatar ´

1 lítri tómatdjús

1 teningur kjúklingakraftur og 1/2 lítri vatn

1 tengingu nautakraftur og 1/2 lítri vatn

1 msk kóriander

1 til 1 1/2 tsk chilipipar

1 til 1/2 tsk cayennepipar

1 kjúklingur, steikur og tekin af beinum

 

Laukurinn er hitaður í olíunni og svo öllu hinu blandað við nema að kjúklingurinn fer ofan í súpupottinn hálftíma áður en súpan er borin fram.  Með súpunni er svo sýrður rjómi, rifinn ostur og doritos flögur sem hver og einn setur ofan í súpuna sjálfur.

 

Annars er eitt enn sem mig langar að segja ykkur frá.  Ég fór með Emil í leikskólann í gær og þá var ein stelpa á deildinni hjá Emil sem átti afmæli.  Hún bauð öllum krökkunum á deildinni heim til sín í afmæilispartý.  Öll deildin fór labbandi heim til afmælisbarnsins kl 9:30.  Þegar 20 manna strollan kom í afmælið fóru börnin að leika sér.  Og þau léku sér og þau léku sér og ekkert annað gerðist.  Það var ekki fyrr en 11:30 sem allt í einu var komið með stórt teppi og sett á stofugólfið.  Síðan settust öll börnin hring á teppið og var boðið upp á pasta og kjötsósu.  Síðan var afmælissöngurinn sungin í MÖRGUM erindum og afmælisbarnið fékk gjöf frá leikskólanum.  Öllum börnunum var svo gefin slikpoki í nesti sem innihélt sleikjó, blöðrur og hlaup.  Við komum aftur í leikskólann eftir þessa löngu afmælisveislu rétt um eittleytið. 

Allir fengu pasta og kjötsósu

Þegar við komum aftur á leikskólann kvaddi ég Emil og var hann aleinn í leikskólanum í meira en klukkutíma.  Gekk alveg glimrandi vel og var hann mjög sáttur þegar við sóttum hann.  Hann virðist vera að komast yfir hræðsluna við nýja leikskólann, því hann spurði mig í morgun hvort ég yrði leið ef hann yrði aftur aleinn í leikskólanum á mánudaginn...

En ég ætla að fara inn í nýjan dag

Fullt af nýjum myndum í nýju albúmi

Kolbrún


cirkus nissesjov

Aldeilis frábær dagur í dag í leikskólanum hjá Emil.  Við fórum í sirkus... svona jólasveinasirkus.  Allir krakkarnir þurftu að labba í sirkusinn og tók hvor leið um 40 mín fyrir litla fætur.  En sýningin sló svo í gegn og skemmti Emil sér konunglega í dag.  Hann meira að segja prufaði að vera aleinn á leikskólanum en ég skrapp út í um korter og gekk það mjög vel:)

Setti inn nokkrar myndir frá því í sirkus í dag

Emil og Hermann á leið í sirkus

 

Seinnipartinn í dag fórum við Emil svo í aðra ferð.  Emil var skráður í fimleika í dag og verður á fimleikaæfingum alla fimmtudaga í vetur (hmmmm ef hann kann að haga sér þar).  Hann byrjar formlega næsta fimmtudag.  Emil er mjög spenntur að byrja í fimleikunum og er meira að segja búin að velja sér fimleikafötin (McQueen skal það vera).  Í fimleikunum eru fullt af íslenskum börnum og við krossum bara puttana að það eigi eftir að ganga vel.   Þannig að það er bara allt að gerast.

Er rokin út á stjórnarfund

KOlbrún


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Kolbrún bloggar

Höfundur

Kolbrún Jónsdóttir
Kolbrún Jónsdóttir

Smellið á myndina og þá fáið þið allar upplýsingar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 52
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband