Helgin í Horsens

Sunnudagskvöld.... þreytt sunnudagskvöld.  Þvílíkt at sem hefur verið þessa helgi:)  En samt rosa skemmtileg helgi.

Félagar á göngutötunni í Flensburg Við byrjuðum helgina á því að fara með Gumma til Þýskalands.  Það var bara skemmtilegt að eyða þessum degi með Gumma... hellingur verslað í Þýskalandi og við fórum sátt aftur yfir til Danmerkur.  

Þegar við komum aftur yfir, þá fórum við beint í matarboð til Bertu og Ragga og eftir matinn var slegið upp heljarins partý sem stóð fram á nótt.  Gummi auðvitað reytti af sér brandarana, spilaði út Tópas og Ópal skotum og ég hreinlega fékk verki í magann eftir sumar hlátursrokurnar.  Gummi reyndar vildi kannski ekki láta staðar numið í skemmtanaiðnaðinum um leið og við gamla fólkið, þannig að hann endaði kvöldið á skemmtistað í Horsens, ekki lítið úthald þar á bæ:)  

Gærdagurinn var tekin snemma, þrátt fyrir lítinn svefn um nóttina... enda tilefnið að undirbúa næsta djammkvöld... nefnilega Mosaþorrablótið sem var heima hjá okkur í gærkvöldi.  Raggi hafði smíðað þorratrog, alveg eins og tengdaforeldrar mínir eiga.  Þau eignuðust þorratrog þegar þau voru ung og hafa notað það hvern einasta þorra síðan.  Í lok máltíðar eru svo allir sem borðuðu upp úr troginu beðnir um að skrifa nafnið sitt undir trogið og því hafa skapast margar góðar minningar á þeirra þorratrog.  Okkar trog var afmeyjað í gærkvöldi og búið að skrifa þá fyrstu undir trogið sem nutu matar úr því.  Maturinn í gærkvöldi var góður... við vorum ekki neitt að eltast við súrmat en vorum með þeim mun meira af hangikjöti og flatkökum, rúgbrauði, sviðum og slátri...og mjög margt fleira, enda bakkinn fullur af mat:)  

Svona leit svo þorrabakkinn okkar út Eftir matinn var svo gítarinn dreginn upp og var spilað og sungin gömul og góð útilegulög.... farið í singstar og haft gaman.  Þegar líða tók á kvöldið fengu sumir ball fiðringinn og því var ákveðið að skreppa á ball sem var hér í nágrenninu á vegum Íslendingafélagsins hér í Horsens... við náðum síðasta hálftímanum en það var bara skemmtilegur hálftími.  Hljómsveitin Bermuda var að spila fyrir dansi og þótt mér hafi bara fundist hún svona lala, þá skilst mér að hún hafi verið með mikið fjör í gærkvöldi.  Það var svo auðvitað endað í eldhúspartý eftir ballið og farið að sofa kl hálf fimm.....uss

Það var því þreyttur sunnudagur í dag því að Emil minn vaknar bara á sínum tíma, alveg sama þótt foreldrar hans séu þreyttari en aðra daga.  Ég tók vaktina í morgun og sem betur fer var Emil hreinlega eins og hugur minn til kl 11, en þá var pabbinn á heimilinu vakinn.  

 

 

Nú er Gummi að fara aftur heim til Íslands í fyrramálið.... það hefur verið gaman að njóta félagsskapar hans í þessa daga.  Best að setja sig í gírinn að hversdagsleikinn tekur alltaf við aftur.  Ég ætla að skreppa aðeins og kveðja Gummann...

Fullt af myndum í nýju albúmi frá helginni í Horsens

Kolbrún out 


Gummi kominn til Horsens

Gummi er kominn til Horsens, skilaði sér hér rétt fyrir ellefu í fyrrakvöld eftir miklar hrakfarir.  En hann komst á leiðarenda, það er fyrir öllu:)

Síkið í Árósum Í gærfórum við með Gumma til Árósa, en fyrir þá sem ekki vita það eru Árósar stærsta borgin á Jótlandi og önnur stærsta borgin í Danmörku á eftir Kaupmannahöfn.  Kidda slóst í lið með okkur og lékum við túrista í Árósum í allan gærdag.  Við fórum á Pizza Hut í hádeginu til að fá smá orku fyrir daginn og svo bara lets go.  Nokkrar búðir voru skoðaðar og náði Gummi, já og við hinar líka heh, að gera fullt af góðum kaupum í Árósum.  Síðan var Dómkirkjan í Árósum skoðuð en það er alveg ofsalega falleg kirkja.  Kirkjan er líka svo sérstök vegna þess hve margir hvíla í kirkjunni og eru grafir út um allt inn í sjálfri kirkjunni.  Það sem snerti mig mest voru samt kertin sem loguðu um alla kirkjuna, en fólk getur komið inn og kveikt á kerti fyrir sína nánustu.  Ofboðslega fallegt.  Þegar við vorum búnin að afgreiða miðbæinn í Árósum var ferðinni svo haldið í Bilka þar í bæ og svei mér þá, það var líka hægt að versla þar...heh  

Í dag er ætlunin að skreppa með Gumma í heimsókn til Þýskalands og svo er fyrirhugað partý fyrir hann hér í Mosanum....

ég og Gummi saman á Pizza Hut í Árósum

 

 

 

 

 

 

 

 

Nokkrar nýjar myndir í albúmi

Kolla 


Gesturinn lætur bíða eftir sér

jebb... eigum von á Gumma í dag í heimsókn...

Það geta fleiri misst af flugi en okkar fjölskylda.

Hann er nú samt væntanlegur seint í kvöld

SSR partý

 

 

 

 

 

 

 

 

Skál!!!

Kolla 


Brettastrákurinn Jón Ingi

Það fer ekki fram hjá okkur á heimilinu aðaláhugamál elstasonar.  Ég held reyndar að það fari ekki fram hjá neinum sem býr í hverfinu okkar.  Hjólabretti - Hjólabretti - Hjólabretti.  Það er þokkalegur hávaði sem fylgir þessari "íþrótt" og elsti sonur er gersamlega óþreytandi að æfa stökkin og ollin og hvað þetta heitir allt.  Á kvöldin horfir hann svo á vídeóklippur með hjolabrettastrákum. 

tímastillti myndavélina Í gær fór Jón Ingi með pabba sínum í hjólabrettabúð.  Hjólabrettið hans "gamla" (sem er samt ekki gamalt sko) var orðið ónýtt og ætlaði hann að fjárfesta sér í nýju bretti.  Pabbinn var sko fengin með til halds og trausts en það er skemmst frá því að segja að pabbinn gat ekki veitt neinar ráðleggingar, enda segist hann ekki hafa neitt vit á hjólabrettaíþróttinni.  Það sem aftur á móti vakti athygli pabbans á meðan hann var í búðinni var að búðin var full af litlum Jónum... það er full af strákum á aldur við Jón Inga sem allir voru með bretti og með buxurnar á hælunum.  Það að vera með buxurnar á hælunum er eitt af því sem ég skil ekki við þetta allt saman. Finnst strákunum virkilega flott að láta sjást í nærbuxurnar?  Finnst stelpunum þetta kannski flott?  Það er ekki að marka svona mömmur fæ ég að heyra þegar ég bið frumburðinn um að hysja upp um sig buxurnar, þær skilja ekki svona.  Ég svaraði honum eitt sinn að ég hafi nú líka einu sinni verið unglingur og ekki stóð á svari frá honum... já, en þú hefur aldrei verið strákur.

Þar hafið þið það....  

Setti nokkrar myndir í nýtt albúm

Kolbrún 


Sunnudagshugvekjan

Veðrið....ég veit ekki hvort þið viljið að ég segi ykkur frá veðrinu í Danmörku.... en ég ætla samt að gera það.  Hér hefur verið algert sumarveður, sólin skín og það hefur hitnað mikið.  Flugurnar eru meira að segja farnar að láta sjá sig og kóngulónum hefur fjölgað aftur (þær semsagt fóru aldrei alveg).  Strákarnir hafa verið úti á stuttermabol í dag... er hægt að biðja um betra?   Ég myndi allavega ekki vilja skipta um veður við Ísland... þótt hjartað sé á Íslandi oftast nær. 

Ísland já... ég hintaði að því að við ætluðum að koma heim til Íslands um páskana.... við eigum flug heim þann 16. mars.  Hlynur og stóru strákarnir fara aftur til Danmerkur á annan í páskum.  Ég og Emil eigum flug aftur til Danmerkur 9. apríl.... jebb þið lásuð rétt... ég verð reyndar ekki á klakanum allan tímann þar sem ég ætla að skreppa til New York með góðu fólki í byrjun apríl og eyða þar 6 dögum.  Emilinn minn ætlar að fá að njóta þess að vera hjá ömmu og afa á meðan.  Öllum í fjölskyldunni hlakkar mikið til að koma til Íslands og hlökkum við til að eiga nokkra daga þar með fjölskyldu og vinum og ekki má gleyma að strákunum hlakkar til að fá íslensku páskaeggin sín:)

Annars er mjög lítið að frétta af okkur þessa dagana.  Dagarnir líða áfram. Dagarnir frá því að við komum heim frá London hafa verið afskaplega notalegir.  Emil er orðin hress af gubbupestinni og hefur tekið gleði sína á ný.  Stóru strákarnir eru komnir í vetrarfrí í skólanum og verða það alla næstu viku.  Við ætlum ekki að gera neitt sérstakt í fríinu, bara chilla og svo eigum við von á Gumma í heimsókn á miðvikudaginn og hlökkum mikið til þess.  Það er þokkalega flott plan í gangi fyrir þá daga sem hann ætlar að verja með okkur.

En svona er Horsens í dag

sólarkveðjur

2bigstockphoto_Happy_Sun_103457

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kolbrún 


Ísland - góða Ísland

island

 

 

 

 

 

 

 

 

Langar einhverjum að bjóða okkur í mat um páskana?  Múhahahah

Kolbrún og fjölskylda 


Túristi í London

Þótt ég hafi ferðast víða, þá hef ég aldrei komið til London fyrr en við fjölskyldan eyddum þar tveim dögum í vikunni.  Til að lýsa London í einu orði vel ég orðið CROWDED.  Ég hreinlega vissi ekki að það væri svona mikið til af fólki heh, það var fólk allsstaðar og var alveg sama á hvaða tíma sólarhringsins það var.  En þrátt fyrir mikið af fólki, þá var ferðin í allastaði frábær og nutum við þess í botn að vera í London. 

Við flugum með lággjaldaflugfélaginu Ryanair... ég var nú pínu stressuð fyrir því, þar sem mér líður ekki allt of vel í flugi almennt... en það voru óþarfar áhyggjur, Ryanair er alveg ágætt félag sem hefur fengið mitt traust núna.  Mér fannst það samt mjög skrýtið að fara í flug þar sem var frjálst sætaval, hef ekki upplifað það áður.  Með fimm manna fjölskyldu þurftum við því að hlaupa soldið hratt til að ná örugglega sætum saman, en það hafðist:)  

London tók á móti okkur með fínu veðri.  Við köstuðum af okkur farangrinum og fórum beint út að borða á Planet Hollywood, en það var einn af draumum strákanna minna.  Við áttum pantað borð þar og rétt náðum því.  Kvöldið var alveg fullkomið og strákarnir mínir alveg í skýjunum.  Við fórum því mjög sátt upp á hótelið um kvöldið.... eða vorum sátt þar til við fórum að skoða hótelherbergið okkar.  Við pöntuðum okkur ekki hefðbundið hótelherbergi vegna þess að Brétarnir vilja ekki að það séu 5 saman í herbergi vegna eldvarna.  Við pöntuðum okkur því einkaherbergi með sérklósetti á svokölluðu Hosteli.  Og það munum við aldrei gera aftur.  Þetta herbergi sem við fengum var vægast sagt ógeðslegt.... það hefur ekki verið ryksugað síðan á síðustu öld, vodkatappar, kampavínstappar, eldspítur og fleira sem ég nenni ekki að telja upp var um allt herbergið... og þetta sérklósett var þannig að við höfðum ekki lyst á því að nota sturtuna þar.... jakk... næst þegar við förum í ferðalag saman fjölskyldan munum við frekar leigja tvö hótelherbergi en að þurfa að búa við svona viðbjóð.

Við tókum svo daginn snemma og náðum að skoða Kings Cross (Harry Potter brautarpallinn sem var líka á óskalista strákanna), London Eye, Big Ben, Oxford Street, Abbey Road og Buckingham Palace.  Enduðum svo á því að sýna strákunum vaxmyndasafnið, en það var mikil upplifun fyrir þá.  Jóni Inga fannst hann þokkalega komast í feitt þegar hann sá Britney Spears á súlunni og heimtaði mynd af sér með henni heh.  

Heimferðardagurinn var erfiður.  Emil litli byrjaði að æla á hótelinu rétt áður en við lögðum í hann.  Hann náði svo að æla í leigubílnum, lestinni, flugstöðinni, flugvélinni og í bílnum á leiðinni heim... og hélt svo sínu striki fram eftir kvöldi.  Í gær hélt hann áfram að æla fram yfir hádegið en þá loksins linnti þessum spýjum.  Hann hefur verið alveg svakalega slappur, enda engin næring í litla kroppnum.  Hann er þó aðeins hressari í dag en í gær, jafnvel þótt hann sé ennþá slappur og orkulaus.... þurrt brauð og vatn er eitthvað að gera fyrir hann, annars liggur hann bara fyrir og horfir á uppáhaldið sitt, Latabæ.

Það eru mjög margar myndir í albúmi frá ferðinni okkar til London

Kolbrún out 


London London

Við fjölskyldan erum komin heim frá London.  Ég er búin að setja inn myndir í nýtt albúm en ferðasagan bíður kvöldsins.... er heima að sinna Emil sem er með þvílíka magapest....

Við fjölskyldan hjá konungshöllunni

 

 

 

 

 

 

 

 

Kolla 


Gleði helgarinnar

Er fólk farið að bíða eftir færslu???  Ég er búin að vera svo upptekin um helgina að ég hef hreinlega ekki haft tíma til að setjast niður og skrifa hér inn... en helgin hjá okkur er búin að vera alveg ljómandi. 

Rakel bauð okkur í kvöldmat í sumarbústað á Vestur Jótlandi í gær í tilefni af 35 ára afmæli sínu.  Við fórum af stað eftir hádegið og komum passlega í bollukaffi.... Þau voru saman í bústað um helgina, Rakel og Svavar og Berta og Raggi og synirnir og nutum við þess í gær að eyða deginum með þeim.  Bústaðurinn var sá allra flottasti sem ég hef séð... engu til sparað.  Ljósunum var stýrt með fjarstýringu, Bang og Olfusen græjur og stórt nuddbaðkar... þarf ég að segja meira?  Deginum var eytt við spilamennsku... mest var spilað af Idiot og Kleppara með olsenolsen í bland.  Kvöldmaturinn var alveg frábær... naut og fylltar svínalundir með bökuðum kartöflum og tilheyrandi og æðislegri marengsköku á eftir.... skolað niður með fullt af rauðvíni og rósavíni.   Við þökkum kærlega fyrir okkur Rakel og Svavar:)

og það var fjör

 

 

 

 

 

 

 

 

Það var svo gaman í gær að við lögðum ekki aftur af stað til Horsens fyrr en það var komið myrkur... og snjókoma.... uss.... en við komumst nú heil til Horsens um ellefuleytið í gærkvöldi.

Í dag var okkur svo boðið í annað afmæli, en Emmi vinur hans Hafsteins er 11 ára:)  Þau búa í Hedensted og áttum við skemmtilegan dag í dag með þeim og vinum þeirra.  Og kökurnar... ekki neinu til sparað þar.....  Emil var alveg hreint í essinu sínu í dag... og ætlaði helst ekki að vilja fara heim aftur án þess að taka Silju Dögg sem er systir Emma með sér... hann vill bara eiga hana.

Emil með Silju Dögg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

En helgin að verða búin.... en ekki taka leiðinlegri dagar við hjá okkur fjölskyldunni.  Emil ætlar að skreppa í leikskólann í fyrramálið og taka þátt í festelavn hátíð (eins og öskudagur hjá okkur) og svo er það bara að bruna til Billund og taka flugið til London.

Heyrumst í vikunni þegar ég er búin að taka London í nefið

Fullt af nýjum myndum í albúmi

Kolbrún 

 


Gullkorn frá yngsta syni

Við Emil fórum í morgun og keyrðum Hlyn í vinnuna sína i Vejle... Emil var með munnræpu alla leiðina að vanda, veit ekki hvaðan hann hefur þetta drengurinn.   Svo segir hann við mig á leiðinni til baka:  "mamma ég var soldið hræddur þegar ég var í maganum á þér, þegar þið voruð að fara að kaupa mig"  Frekar krúttlegur:)

 

Annars er bara allt í þessu fína hér hjá okkur... heilmikið skemmtilegt að gerast um helgina:)  

Svo má ég ekki gleyma því að segja ykkur frá því að Jón Ingi var í dönsku prófi í gær og fékk einkunnina 13 (sem er hæsta einkunn hér í DK).  Þið kannski eruð búin að lesa um það á bloggsíðu Hlyns en þá bara minni ég ykkur á það enn og aftur hvað ég á dugleg börn.

Kolbrún out 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Kolbrún bloggar

Höfundur

Kolbrún Jónsdóttir
Kolbrún Jónsdóttir

Smellið á myndina og þá fáið þið allar upplýsingar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 79
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband