Færsluflokkur: Dægurmál

Stóri bróðir

Ég hef "lítillega" minnst á það að hér sé oft kjúklingur á borðum.  Í fyrradag var ég að elda kjúkling sem aldrei fyrr og Hlynur var að tala við pabba sinn í símann.  Ég heyrði hann segja pabba sínum að við værum með kjúkling í matinn í kvöld... en á morgun er stóri bróðir hans .....

Berta, Raggi, Hlynur, Svavar og Rakel

 

 

 

 

 

 

 

Við vorum 12 sem borðuðum saman kalkún í gærkvöldi.  Mér finnst að jólin megi koma þegar búið er að borða kalkúninn, enda hefur það verið hefð hjá okkur til margra ára að borða kalkúninn fyrir jól.  Kalkúnn er svona stemmningsmatur og ekkert gaman að borða hann nema margir saman í hóp.  Við fengum þýskan kalkún í ár og ég get ekki sagt að ég hafi fundið mikinn mun á honum og okkar íslenska.  Hann bragðaðist mjög vel, maukeldaður.... og held ég að engin hafi farið svangur heim í gær.  Emil var reyndar lystarlaus og hefur verið það líka í dag... hann er eitthvað með í maganum blessaður.  Spurning hvort það stafi af pensilíninu hans eða hvort hann sé með einhverja magakveisu.  Hann er samt allur að braggast og borðaði ágætlega í kvöld.

Þrír dagar til jóla og hér er kominn spenningur í ungana.  Við ætlum að eyða kvöldinu í að pakka inn pökkum og ég held svei mér þá að ég hafi verið spurð þrisvar á meðan ég skrifa þessar línur.. "hvenær byrjum við? "  

Setti inn myndir í nýtt albúm

Out

KOlbrún 


10 ára igen?

Í morgun kl hálf tíu leið mér eins og þegar ég var barn... nánar tiltekið barn að passa börn á Drangsnesi... ég var í vist á Drangsnesi eitt sumar og er mér sérstaklega minnisstætt þegar Lára frænka mín sendi mér pakka.  Ég man ekki nákvæmlega hvað var í pakkanum, en ég man þó að hún sendi mér kínaskó.  Spáið í hvað ég er minnug eftir meira en 25 ár.... Lára mín ef þú lest þetta, þá man ég að þessi sending iljaði mikið:)  

Ég fékk sendan pakka í dag... kom með póstinum skiluru.  Pakka frá Helgu systur.  Hrikalega var gaman að fá svona pakka, jafnvel þótt ég vissi hvert innihaldið væri.  Ég væri alveg til að fá svona pakka oftar.

En Helga sendi okkur fjölskyldunni dvd diska með hinni gífurlega vinsælu þáttum um Næturvaktina... fyrstu 12 þættirnir og verður byrjað að horfa í kvöld þar sem frá var horfið.  Í pakkanum var líka að finna 100 íslensk jólalög á cd sem hefur verið spilað hér í dag... og ekki má gleyma cooking sprayinu sem ég lét Helgu snúast fyrir mig í Bónus eftir... takk Helga... ómetanlegt að fá svona sendingu:)

Stutt færsla í kvöld.... Emil er ennþá lasinn og ég er að fara að horfa á næturvaktina...

Nokkrir hafa spurt mig um heimilisfang okkar hér í Danmörku og læt ég það fylgja með hér..

Kolbrún Jónsdóttir

Ranunkelvej 28

8700 Horsens

Danmark

 

Við erum líka komin með nýtt gsm númer.... ég get sent það í email ef einhver vill.

 

Annars kveð ég ykkur í kvöld og heilsa starfsmönnum á plani

Kolbrún 

 


Apótek arasýki...

Yngsti sonur er veikur.  Hann er búinn að vera kvefaður í nokkra daga en snöggversnaði í gær.  Þar sem hann er með latt ónæmiskerfi fórum við með hann til heimilislæknisins í dag.  Hann var hlustaður og heyrði læknirinn strax að hann væri með bronkítis og gaf honum sýklalyf.  Eins gott fyrir okkur að bregðast strax við svona ljótu kvefi, annars hefur reynslan kennt okkur að hann fái lungnabólgu... enda sagði læknirinn í dag að ef þetta yrði ekki meðhöndlað strax, myndi þetta enda í lungnabólgu.  En allavega... ég fór í apótekið til að leysa út lyfin hans Emils í dag.  Þjónustan hér í apótekum er skammarlega léleg.... það eru alltaf 15-20 manns á undan þér í röðinni og þú ferð ekkert inn í apótek hér nema að bíða í hálftíma eða meira.  Það eru náttúrulega alltof fá apótek hér, bara tvö sem við vitum um, þannig að það er kannski ekki skrýtið að þessi apótek geti þjónustað betur. 

Á Íslandi fannst mér nú ekki mikið mál að þurfa að bíða í apótekinu eftir lyfjunum... stundum fannst mér afgreiðslan þar bara of snögg.  Ég var ekki búin að ná að skoða allt sem var í boði í apótekinu heima, enda eru þau apótek alveg á heimsklassa.  Það væri ekki viturlegt að sleppa mér lausri með vísakort í apóteki á Íslandi... mér finnst svooooo gaman að skoða og gramsa í þeim.  Vona að ég sé ekki ein um að finnast gaman í apóteki heehe.  

Mér finnst aftur á móti ekki gaman að fara í apótekið hér í Horsens.  Það er ekkert að skoða þar og ekkert hægt að versla þar nema lyfin sín og nokkrar kremdollur.  Það er ekki einu sinni til gloss þar... ussss.    Engar snyrtivörur, engin leikföng, engin ilmvötn, engar neysluvörur, engir sokkar og bara ekkert af því sem mér finnst svo skemmtilegt við apótekaraferðir á Íslandi.  

Apótekin á Íslandi rokka

Kolbrún 


Kuldaboli í Horsens

Nú er hann kaldur.  Alveg hrikalega kaldur.  Mælirinn sýnir bara tæp 2 stig í frosti en upplifun mín er sú að það gæti verið 20 stiga frost.  En mikið rosalega eru trén hér samt fallegt þegar þau eru frosin.  Og kóngulóarvefirnir með frostið utan á sér... þetta hefur maður aldrei séð áður.  Ég reyndi að taka mynd af gróðrinum hér til að reyna að koma því á mynd... stækkið myndina til að sjá hana betur..  Samfara þessu mikla frosti hefur þykk þoka legið yfir öllu.  Ég hef ekki upplifað það áður að sjá ekki á milli húsa..en þannig hefur þetta verið hér síðan í gær en nú er loks aðeins að létta til.

IMG_2307

 

 

 

 

 

 

 

 

Við fjölskyldan höfum tekið þennan þriðja sunnudag í aðventu með trompi.  Við vöknuðum snemma og vorum lögð á stað upp í sveit.. kannski ekki alveg sveit, en það er lítill bær í klukkustundarfjarlægð frá okkur sem heitir Haurum.  Þar býr bekkjarsystir Hlyns með manni sínum og börnum og áttum við heimboð hjá þeim í dag.  Listilega vel tekið á móti okkur og við jafnvel leyst út með gjöfum... fullt af konfekti sem bíður jólanna:)  En það er skrýtið að heimsækja svona týpiskt danskt heimili.  Ég fann fyrir pínu vanmætti þarna í dag vegna lélegrar dönskukunnáttu en húsbóndinn á heimilinu talaði enga ensku.  Ég reyndi eins og ég gat að tala við þau á minni lélegu dönsku en mestan hluta tímans var ég bara hlustandi.  Þið sem mig þekkið vitið að ég á erfitt með að vera bara hlustandi, ég hef svo mikið að segja:)

Þegar við komum aftur í Horsens var ferðinni heitið í jólamessu hjá Íslendingafélaginu.  Messan átti að fara fram í kirkju hér í nágrenninu og var það sjálfur Þórir Jökull sem átti að predika.  Heiðursgestur á jólamessunni átti svo að vera Svavar Gestsson sjálfur, en hann er eins og flestir vita sendiherran í Danmörku.  Við vorum mætt tímanlega í messuna með köku með okkur, þar sem það átti að vera kökuhlaðborð að messu lokinni.  Þegar við komum í kirkjuna var okkur tjáð að það yrði um hálftíma seinkun þar sem presturinn hafi farið útaf, en búið væri að græja nýjan bíl og hann væri á leiðinni.  Hálftíminn leið og ekki bólaði á presti og sendimanni hans.  Næstu fréttir sem við fengum voru svo þær að það hafi orðið alvarlegt slys á motorvejen, 30 bíla árekstur og að presturinn og sendimaður hans væru fastir í umferðarteppu... væru væntanlegir eftir einn og hálfan tíma.  Það var því ekkert annað að gera en a ðbyrja á kökuhlaðborðinu.  Við stoppuðum í tvær klukkustundir í kirkjunni og þá var presturinn ekki enn mættur þannig að við ákváðum bara að fara heim, enda ekki mikil þolinmæði eftir hjá yngsta syni - og ekki bætti sykurinn í kökunum úr skák.

  IMG_2306 

IMG_2310

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þegar við komum aftur heim úr "messunni" fór ég með Emil á jóla MOSA hátíð.  En það var sameiginleg hátíð í hverfinu okkar.  Búið var að setja upp stórt tjald hér í mosanum og börnum boðið upp á föndur, eplaskífur og glögg.  Við stoppuðum stutt á þessari hátíð.  Emil horfði á Hermann fara heim af hátíðinni og vildi bara fara með honum og fann upp á því að það væri svo vond lykt inn í tjaldinu að hann þyrfti að fara bara heim til Hermanns og leika.  Það var og.. og léku þeir vinirnir sér saman fram að kvöldmat. 

IMG_2312

 

 

 

 

 

 

 

 

 Bið að heilsa heim á klakann

Kolbrún 


Vísa Dankort

Mig langar að rifja upp fyrir ykkur fyrsta daginn okkar hér í Horsens.  Við löbbuðum upp í hverfisverslunina Aldi og vorum að versla matvöru í ísskápinn.  Þegar við svo ætluðum að borga með íslenska vísakortinu okkar, kom það í ljós að nær engar búðir hér taka okkar kort, bara Dankort.  Við fengum hjálp frá góðum Íslendingi sem var á eftir okkur í röðinni og borgaði fyrir okkur vörurnar... þá vorum við að hitta þennan mann í fyrsta sinn....nú höfum við hitt hann margoft og hann er sannarlega gull af manni.

En þegar við fluttum þurftum við að sjálfsögðu að stofna reikning í dönskum banka.  Við gerðum eins og svo margir að fara bara í danske bank og stofna allt þar.  Nokkrum dögum seinna fengum við debetkort í pósti og bara nokkuð glöð með þjónustuna... þar til við ætluðum að nota kortið.  Þá kom í ljós að þetta var bara hraðbankakort - sem sagt ekki Dankort.  Við ekki alveg ánægð með það og fórum aftur niður í danske bank og báðum um að fá Dankort.  Okkur var tjáð að þetta kort sem við værum með væri bara fullgott kort.  Við enn ekki ánægð.  Við reyndar skildum ekki afhverju danske bank gat ekki látið okkur fá alvöru kort... við vissum að þeir Íslendingar sem komu hingað og fengu aðstoð hjá Sigrúnu Þormar fengu strax venjulegt Dankort í danske bank.  Við sáum sjálf um okkur þegar við fluttum inn í landið og spöruðum okkur tugi þúsunda á því.. en við fengum ekki dankort, sennilega hefur Sigrún Þormar einhver sambönd í bankanum varðandi þau.

En anyhow fyrir ykkur sem enn eruð að lesa... Við ákváðum að hætta viðskiptum við danske bank og stofnuðum til viðskipta við Spar Nord (sem er líkur Sparisjóðunum heima).   Þar fengum við strax vilyrði fyrir Dankorti en það kom einmitt í pósti heim til okkar í vikunni.  Við sögðum starfsmanni Spar Nord frá hrakförum okkar í danske bank og þá sagði hann okkur að það væri afar erfitt fyrir útlendinga hér að fá dankort.  En þar sem þeir hjá Spar Nord þekktu Íslendinga ekki af neinu nema góðu fengum við kortin.  Við höfum eftir þetta líka frétt af fólki sem hefur búið í Danmörku í nokkur ár og aldrei fengið þetta blessaða Dankort.  

Ég má telja mig heppna að hafa fengið mitt kort:)  Ég verð að eiga kort sem ég get notað í Bilka og öðrum búðum sem ég nota hér reglulega.... er ekki að nenna þessu hraðbankakerfi eingöngu.

visadankort

 

 

 

 

 

 

 

Við hugsum heim til Íslands í kvöld.  Fjölskyldan mín hittist í kvöld og borðar saman Kalkún.  Árleg hefð sem við Hlynur höfum haft í nokkur ár.  Systir mín tók við hefðinni þessi jólin en vonandi tökum við upp hefðina þegar við flytjum aftur heim til Íslands.  Mikið myndi ég vilja vera hjá þér í kvöld Helga:)  Næsti fimmtudagur er aftur á móti okkar Kalkúnadagur.  Við ætlum að borða saman Kalkún þrjár fjölskyldur.... viðhalda kalkúnahefðinni.   Reyndar liggja Danir í því varðandi Kalkúninn í ár.  Kalkúnn er ófáanlegur í Danmörku núna fyrir þessi jól og flykkist fólk til Þýskalands til að verða sér úti um þennan gæðamat.  Mikið hlakkar mig til á fimmtudaginn:)

En kveð í kvöld

Kolbrún 


Jólaskraut á útsölu

Þegar maður flytur á milli landa þarf maður þokkalega að kynnast nýjum menningarheimi eins og ég hef svo oft komið inn á hér á blogginu.  Jólaskreytingar í  Danmörku eru í raun efni í einn pistil.  Hér er afskaplega lítið skreytt miðað við á Íslandi.  Búðirnar skreyta jú hjá sér og miðbærinn er skreyttur.  Aftur á móti er mjög lítið um jólaskreytingar í heimahúsum.  Við til að mynda keyrðum framhjá stórri blokk hér í Horsens um daginn og ég taldi nákvæmlega eitt aðventuljós í allri blokkinni (ætli það hafi verið íbúð Íslendinga???)   

myBui10

 Það sem mér finnst mjög merkilegt hér í Damörku er að annan dag jóla er allt skraut tekið niður, jólaþorpið í miðbænum fer niður - jólin búin.  Þá finnst mér sem Íslendingi að jólin séu rétt að byrja.  Á Íslandi er hægt að gera góð kaup í jólaskrauti í búðum á milli hátíðanna.  Hér í Damörku eru búðir búnar að setja allt jólaskraut á útsölu og eru að bjóða skrautið með allt að 70 prósent afslætti.  Í mínu dagatali eru enn 10 dagar til jóla....

Það er margt skrýtið í kýrhausnum

 

Góða helgi

Kolbrún 


Lúsíuhátíð

Í dag er svokölluð Lúsíuhátíð.  Stóru strákarnir héldu sína Lúsíuhátíð í skólanum en foreldrum var boðið á hátíð í leikskólanum í tilefni dagsins. 

Lúsíuhátíð er haldin þann 13. desember og er ein elsta hátíðarhefð Skandinavíu.  Með henni hefst jólahátíðin.  Lúsíusögnin kemur frá Sikiley á Ítalíu, þar sem hin upphaflega Lúsía, sem var kristin stúlka, var hálshöggvin þann 13. desember árið 304 í ofsóknum sem kristið fólk sætti í Rómverska keisaradæminu.  Lúsíuhátíðin barst til Skandinavíu frá Þýskalandi á sextándu öld og í Skandinavíu varð Lúsía tákn ljóssins og Lúsíuhátíðin var hátíð ljóssins.

og svo kom Lúsíuskrúðgangan annan hring

Á leikskólahátíðinni í dag var boðið upp á söng frá elstu börnum leikskólans, en þau gengu í skrúðgöngu um leikskólasvæðið og sungu lagið santa lúsía.  Femst var stúlka sem var með fjögur kerti á höfðinu en þeir krakkar sem á eftir fylgdu voru öll með eitt kerti í hendinni.  Mjög sérstakur siður finnst mér, en afskaplega fallegur.  Leikskólinn bauð svo upp á eplaskífur og jólaglögg.  Mér finnst eplaskífur nú ekki sérlega spennandi matur, en mikið svakalega eru danir hrifnir af þessum skífum sínum.  Eplaskífurnar eru bornar fram með mikilli sultu og annaðhvort strásykri/flórsykri.  

Jólaglöggið virðist líka vera siður sem Danir halda í.  Það sem mér fannst mjög merkilegt í dag er að boðið var upp á áfengt jólaglögg á leikskólahátíð.  Yrði þetta einhvern tímann gert á Íslandi?  SÆLL....

Þannig að það má í raun segja að Emil hafi tekið fyrsta sopann í dag þar sem hann bragðaði á jólaglögginu við mjög litla hrifningu... þvílíkar grettur í barninu.  En það var bara ekkert annað í boði að drekka á hátíðinni en jólaglögg og ég hreinlega vissi ekki að þetta væri áfengt fyrr en Emil hafði tekið sopann...

Eftir Lúsíuhátíðina í dag fór Emil svo í fimleika, en hann elskar að fá að fara þangað... hann hefur beðið í allan dag eftir fimleikunum... bað meira að segja um að sleppa Lúsíuhátíðinni til að hann geti farið beint í fimleika... lifið er bara stundum ekki svona einfalt.  Í dag var síðasti fimleikatíminn fyrir jól og öll börnin fengu jólapakka frá þjálfurunum (sem innihélt nammi)... kex og gos í flösku.  Mínum manni fannst sko ekki leiðinlegt að enda tímann á því að fá Sprite með röri.

Setti inn nokkrar myndir í nýtt albúm frá því í dag

Kolbrún 

 

 


Jólagjafir

Strákarnir mínir eru alveg hreint að fara á límingum yfir jólapakkaspenningi.  Þeir vita að næstum allir pakkarnir til þeirra eru komnir í hús og hafa sín á milli spáð og spekúlerað í því hvað sé innanfyrir pappírinn, eheh.  Börn verða svo krúttleg á þessum árstíma. 

Sjálf hef ég ekki óskað mér neins sérstaks í jólagjöf síðan ég bara man ekki hvenær.  Í fyrsta skipti í langan tíma langar mig í bók í jólagjöf.  Mig langar mikið að lesa bókina postulín eftir hana Freyju og Ölmu.  Kaupi mér hana sjálf þegar ég kem næst til Íslandsins.... kannski að maður sé að ganga í barndóm aftur þegar maður er komin með svona óskalista eheh 

christmas_gift

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skrifa sjálfsagt meira í kvöld þar sem mig langar að segja ykkur frá því er að gerast í dag hjá yngsta syni.    Forvitin?  Verðið að lifa með því!!!

Kolbrún out 


Eigum við að ræða það eitthvað eða?

Undanfarin kvöld höfum við hjónin verið að horfa á þættina Næturvaktin.  Við vorum svo sem aðeins búin að heyra nokkra frasa áður en við byrjuðum sjálf að horfa á þættina.... bara svona aðeins til að vera með. 

Við erum búin að horfa núna á fjóra fyrstu þættina og þvílíka snilldin, SÆLL.  Allir leikarnir fara á algerum kostum að mínu áliti og ég meira að segja stend sjálfa mig að því að hlæja upphátt, ég hlæ næstum aldrei upphátt af sjónvarpinu.  Eigum við að ræða það eitthvað eða?  Maður er greinilega ekki alveg inn ef maður hefur ekki séð þessa þætti.  Óskar vinur okkar kommentaði hjá Hlyni um daginn og var að benda honum á sjálfbært samfélag í Svíþjóð.... ég náði ekki þessu kommenti fyrr en í gærkvöldi þegar ég hélt áfram með þættina.. múhahahahah

0060-0511-1012-2453

En að öðru... Stekkjastaur kom fyrstur og hann kemur einmitt í nótt.  Við höfum verið að lesa fyrir yngsta son um jólasveinana en hann man ekki eftir því að hafa nokkurntímann fengið í skóinn... hann man ekki einu sinni eftir að hafa fengið jólagjafir held ég, því hann ætlar að fá alla hluti í afmælisgjöf.  Hann verður því vonandi glaður þegar hann vaknar í fyrramálið.  Hafsteinn hlakkar mikið til jólanna og síðustu daga hef ég haft alveg sérlega góðan aðstoðarmann á heimilinu sem er að reyna að sanna sig fyrir jólasveinunum.  Í gærkvöldi skúraði hann fyrir mig stofuna ÓUMBEÐIN, skúraði niður tröppurnar, þurrkaði eftir uppvaskið, fór út með ruslið og .  Sama sagan endurtók sig í kvöld, hann er búin að vera mest duglegur í heimilisverkunum.   Og ekki nóg með það, hann er búin að hátta sig og bjóða góða nótt.  Ohh hvað ég vildi að það væru jól alla daga.    Sá elsti tjáir sig ekki mikið um jólasveininn en segir okkur foreldrum sínum þó að við verðum að vita að hann sé í sérstaklega góðri samningsstöðu heheh.

Læt þetta duga í kvöld

Kolbrún


Nú er aftur tómlegt í kofanum

Já, Gunna fór aftur til Íslands í morgun.  Við erum búnar að ná að gera alveg ótrúlega marga hluti á alltof fáum dögum.  Það var auðvitað verslað... við fórum í Bilka, Kwikly og Fötex.... keyrðum alveg sjálfar til Árósa og tókum göngugötuna þar í nefið og svo var líka verlsað í miðbænum í Horsens.  Við fórum og heimsóttum Óðinsvé um helgina en þar var jólaland í anda H.C Andersens.  Ferðin byrjaði ekki vel.  Við Emil fórum með Ragga og Bertu og Hermanni þar sem okkar Fólksvagen er ekki nógu stór fyrir sex.  Við vorum ekki komin langt þegar það sprakk á bílnum á hraðbrautinni.  Emil varð hræddur og hefur rætt mikið um dekk og fara varlega alla helgina.  Við fórum líka um helgina og skoðuðum Coca Cola lestina sem var í Horsens og svo skelltum við Emil okkur í piparkökuskreytingar á sunnudagsmorgunin með Íslendingafélaginu. 

Jólasveinnin var með jólalestinni

Skemmtileg helgi... Emil hefði svo sem alveg mátt vera aðeins stilltari, hehe... en það eru fullt af nýjum myndum í nýju albúmi.

Kolbrún out


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Kolbrún bloggar

Höfundur

Kolbrún Jónsdóttir
Kolbrún Jónsdóttir

Smellið á myndina og þá fáið þið allar upplýsingar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband