Kvennafrídagurinn

Í dag var kvennafrídagurinn hér í Horsens.  Kvennafrídagurinn felur það  í sér að Hlynur og Raggi eru í Horsens með börnin og við Berta förum með lestinni til Árósa í kvennaferð. 

Hlynur keyrði okkur Bertu upp á lestarstöð í hádeginu í dag.  Við komum á lestarstöðina í Árósum um eitt leytið og hittum þar Kiddu.  Við fórum svo þrjár saman og stormuðum niður strikið í Árósum til að hitta Gunnhildi og vinkonu hennar.  Ég kynntist Gunnhildi árið 1990 þegar við unnum saman á sambýli fyrir einhverfa á Sæbraut.  Við fórum svo líka að hluta til samferða í gegnum námið í þroskaþjálfaskólanum.  Við vorum óaðskiljanlegar um tíma og ég get ekki einu sinni reynt að nefna tölu um þau skipti sem við höfum málað bæinn rauðann saman á djamminu:)  Við höfum ekki verið í miklu sambandi síðustu ár og því var það kærkomið tækifæri að fá að hitta hana í dag og eyða deginum með henni (og auðvitað líka hinum stelpunum). 

ég og Gunnhildur

Við skoðuðum aðeins miðbæ Árósa í dag en mestum tíma eyddum við á kaffihúsi með góðan öl í hendi.  Frábær dagur... gaman gaman:)

Það var tvennt soldið fyndið sem kom upp á í dag á kvennafrídeginum...

Í fyrsta lagi fékk ég áfall þegar ég hljóp á klósett á lestarstöðinni í Árósum.  Ég var að þvo mér um hendurnar og er litið í spegilinn og það sem blasti við var ófögur sjón... það var jú ég sjálf en ég var græn... mér krossbrá og tók svo eftir því að hendurnar á mér voru líka grænar.  Ég fór að segja stelpunum frá þessu þegar ég kom fram... Berta hafði líka notað klósettið og tók ekki eftir neinu skrýtnu... en Kidda vissi sko alveg hvað klukkan sló... það eru sérstök ljós á klósettunum á lestarstöðinni sem gegna því hlutverki að sprautufíklar sjá ekki æðarnar í sér... þessvegna var ég græn.....  svona get ég nú verið saklaus:)

Hitt atvikið sem kom upp á í dag var þegar við Berta vorum á heimleið til Horsens.  Við stormum auðvitað í billetsalg á lestarstöðinni og ég ætla að taka númer til að kaupa lestarmiðann.  Berta ætlar að stoppa mig af , sagði að við værum ekki á réttum stað því við værum ekki að fara til Indlands..... ég hélt að ég myndi ærast úr hlátri.... Indland - Udland stóð á miðavélinni... innanlands eða erlendis semsagt.... en Berta var svo fljót á sér að hún ætlaði í einhverja aðra billetsalg, til Indlands færi hún ekki með mér.... Hún veit að ég set þetta gullkorn á netið og því er no hard feelings hér á bæ

Ég setti nokkrar nýjar myndir inn frá kvennafrídeginum

Kolbrún out


Leikskóladagur

Í dag hringdi ég í leikskólann sem Emil er að byrja á, til að staðfesta plássið.  Ég náði að staðfesta það á minni dönsku ensku og spurði svo hvenær ég ætti að koma með hann á fimmtudaginn, sem er jú 1. nóv.  Leikskólastjórinn sagði mér að ég ætti að koma á fund í dag... og vildi helst að við kæmum bara núna strax.... ég með rúgbrauð í ofninum og átti því ekki heimangengt.... samdi um að við kæmum um hádegið..  Fékk Bertu mína til að koma með mér, ég var svo hrædd um að skila ekki alveg dönskuna hjá leikskólakennaranum, hehe.

En allavega... mér líst ágætlega á leikskólann.  Emil verður á deild með Hermanni og öðrum íslenskum strák sem býr hérna beint á móti okkur í mosanum.  Ég er mjög ánægð með það.  Emil fékk að leika úti á meðan við töluðum saman.  Tvisvar kom hann grátandi inn til mín, Emil sem grætur aldrei.  Í fyrra skiptið hafði hann meitt sig á hjólinu og í seinna skiptið hafði hann ætlað að koma inn til mín og farið inn um vitlausar dyr og haldið að ég væri farin.... en ég skal alveg játa að ég fékk þokkalegan hjartslátt að heyra barnið mitt gráta á sínum fyrsta leikskóladegi.... en við skulum sjá til:)

Annars er það í fréttum helst að við erum að fá gesti frá Íslandi um næstu helgi.  Okkar fyrstu gestir til Danmerkur og gestirnir ætla að stoppa hjá okkur í heila viku og VÁ HVAÐ MIG HLAKKAR HRIKALEGA MIKIÐ TIL.

Out

Kolbrún


Klukkan breyttist í nótt

Já, um miðnættið í gær/nótt breyttist klukkan hér í Danmörku og varð aftur 23:00..... frekar skrýtið að upplifa þetta.  Í morgun var svo gengið á allar klukkur heimilisins og þeim breytt um klukkustund.  Þannig að í dag, munar einum klukkutíma á okkur hér og fólkinu okkar heima á Íslandi:)  Auðvitað vaknaði yngsti sonur á sama tíma og venjulega, hans líkamsklukka var ekki alveg að fatta að klukkan væri í raun bara 6 í morgun því venjulega vaknar hann kl 7 á morgnana og hann svaf ekkert minna í nótt en aðrar nætur. 

Við höfum átt sérlega rólegan dag í dag.  Húsið var þrifið hátt og lágt, skipt á rúmfötum hjá mannskapnum, húsbóndinn kíkti í skólabækurnar og Emilinn fékk að baka kornflexkökur til að hafa með kaffinu í dag.  Þvílíkt sem honum fannst það gaman.  Ég tók nokkrar myndir af honum í dag við bakstursstörfin og setti í nýtt albúm.

Emil glaður með sunnudagskaffið

Á morgun hefst ný vinnuvika.... hjá flestum allavega....NEMA MÉR.  Mikið svakalega finnst mér skrýtið að vera ekki að vinna á daginn.  Mikið svakalega finnst mér skrýtið að vakna á morgnana og sinna húsmóðursstarfinu í stað þess að græja mig í vinnuna.  Og vitið þið hvað... ég er ekki alveg að fíla það að vera svona mikið heima.  Auðvitað er ég ánægð með að heimilið mitt er hreint og engin þvottur safnast í þvottakörfuna... en breytingin er mikil fyrir mig.  Kannski sakna ég bara vinnunnar minnar í Hólabergi.  Ég held að Hólaberg sé besti vinnustaður sem ég hef unnið hjá og ég kvaddi hann með miklum söknuði.  Ég er enn aðeins með hugann við vinnuna mína í Hólabergi.  Tildæmis þegar ég vaknaði á föstudaginn þá var það fyrsta sem ég hugsaði, hmm föstudagur, þá þarf að fara í bónus fyrir Hólaberg og versla fyrir vikuna..   frekar sjúkt...  Það sem gerði vinnuna mína í Hólabergi svona skemmtilega voru auðvitað fyrst og fremst krakkarnir sem voru þar, og starfsfólkið er alveg í algerum sérflokki.  Ég innilega vona að ég fari aftur að vinna í Hólabergi þegar ég er búin að fá útlandareynsluna mína í sarpinn....  og ég veit að sumir af mínum fyrrum vinnufélögum fylgjast með mér í Horsens og ég segi bara  við þá.... I miss you guys:)

Nóg í kvöld

Kolbrún


Halloween misskilningur

Í Danmörku er haldið upp á hrekkjavöku, þó skrýtið sé.  Ég held að Danir séu ekki þekktir fyrir að taka upp siði frá Bandaríkjamönnum.  Auðvitað er hrekkjarvakan hér í mun vægara formi en hún er haldin í Bandaríkjunum en samt sem áður er haldið upp á hana hér.  Okkur var sagt í síðustu viku að passa okkur á því að eiga nammi um helgina, því að haldið yrði upp á hrekkjarvökuna í Mosanum nú í dag.  Einnig hafa skapast umræður á vef íslendingafélagsins um að hrekkjarvakan hafi átt að vera í dag í Mosanum, jafnvel þótt að í raun sé hrekkjavakann á næsta miðvikudag samkvæmt dagatalinu.

Við settumst því niður fjölskyldan í morgun og útbjuggum nammipoka til að gefa þeim börnum sem myndu banka hér upp á - ekki viljum við fá hrekkinn takk:)  Strákarnir höfðu virkilega gaman af því að setja nammið í poka og skreyta pokana.  Það varð reyndar soldil rýrnun á namminu vegna þess að Emil hélt að hann þyrfti að prufukeyra alla molana áður en þeir rötuðu í pokana.  Það skal tekið fram að engir molar eru þó prufukeyrðir sem eru í pokunum, tihi

Allt Halloween nammið frá okkur

En til að gera langa sögu stutta, þá var engin hrekkjarvaka í mosanum í dag.  Soldil vonbrigði, sérstaklega hjá miðsyni.... en hrekkjarvakan verður trúlegast bara á miðvikudaginn eins og samkvæmt dagatalinu.   Þeir hafa þá eitthvað til að hlakka til og nammipokarnir skemmast ekki inn í búri:)

halloween ljósið okkar sem er fyrir utan húsið okkar

Við fjölskyldan fórum í dag til Árósa í heimsókn til Kiddu.  Hún bauð okkur í snilldar kjúklinga fajitas og áttum við mjög skemmtilegan dag með henni í dag.. kærar þakkir fyrir okkur elsku Kidda.  Hlakka til að hitta þig næst í leynivinaleiknum okkar, hehe 

alle sammen í matarboði hjá Kiddu í Árósum

Annars fátt markvert héðan frá okkur meira... en ég setti inn fullt af nýjum myndum í nýtt albúm.

Njótið og góða helgi

Kolbrún out


Í leikskóla er gaman... þar leika allir saman

Jæja, nú höfum við góðar fréttir.  Við fórum í dag og heimsóttum leikskólann sem við sóttum um fyrir Emil á.  Gerðum ekkert boð á undan okkur, prófuðum bara að fara þangað.  Við fengum mjög góðar móttökur á leikskólanum og núna í dag fann ég strax fyrir öryggi þegar ég skoðaði leikskólann og sérlega gott viðmót starfsmanna.  Ég spurði hvernær Emil myndi fá að byrja á leikskólanum en leikskólastjórinn kannaðist ekki við að hann væri kominn inn í kerfið hjá þeim.  Ég auðvitað panikaði og hélt að kommúnan hefði eitthvað klúðrað umsókninni hans... en leikskólastjórinn bað okkur aðeins um að bíða á meðan hún myndi hringja í kommúnuna og kom svo með góðar fréttir handa okkur.  Emil má byrja á leikskólanum í næstu viku... 1. nóvember, sem er bara frábært.  Verst er að Hermann vinurinn byrjar ekki fyrr en 1. des en Emil verður bara að læra að lifa með því.  Hann getur þá kennt Hermanni á leikskólann vonandi þegar hann byrjar:)

Emil og Hermann fyrir utan leikskólan

Við fáum að vita meira á morgun á hvaða deild Emil verður á leikskólanum, en trúlega verður hann á svokallaðri radísudeild með Hermanni og við vitum af einum íslenskum strák þar í viðbót.  Ef ekki, þá eru íslenskir strákar á öðrum deildum líka.... nú svo væntanlega lærir litla barnið mitt dönskuna fljótt og þá getur hann nú vonandi farið að leika sér með dönsku strákunum (eða stelpunum hehe).

Annars er allt fínt að frétta hjá okkur hér í Horsens.  Dagarnir fljúgja áfram, alltaf nóg að gera.  Ætli ég komi mér allsstaðar í þá aðstöðu að hafa mikið að gera?  Er þetta eitthvað sem ég hreinlega nærist á?  Maður spyr sig.

Við Berta fórum í gær í bíltúr til Skanderborgar sem er í um 20 km fjarlægð frá Horsens og NB ég keyrði og er þetta sú lengsta bílferð sem ég hef keyrt á erlendri grund... þurfti reyndar ekki að fara hraðbrautina en mér gekk bara ágætlega að keyra.   Á morgun er svo fyrirhugað að fara til Árósa en hún Kidda er búin að bjóða í mat...

Læt heyra í mér ....  kannski annaðkvöld

Kolbrún out

PS.... nokkrar nýjar myndir í nyju albúmi frá því síðustu daga


Gaggalagú Gaggalagú

Chicken_-_Cartoon_2  Sjáið hvað hann er hræddur?  Ekki nema von, því að kjúklingar eru í útrýmingarhættu hér í Danmörku eftir að við fjölskyldan fluttumst hingað.  Kjúklingur er með því ódýrasta í búðunum hér.  2 kíló af kjúklingabringum á 80 kr danskar er það besta sem ég hef fundið....en auk þess er hægt að kaupa hér 5 heila stóra kjúklinga (yfir 2 kg stykkið) á 100 kr danskar....vona samt að við fjölskyldan verðum ekki farin að gagga þegar yfir líkur. 

Við höfum því haft kjúkling að meðaltali annanhvern dag hér á heimilinu og hef ég reynt að sinna húsmóðursskylu minni eins vel og ég get og matreitt kjúklinginn á mismunandi vegu.  En það eru takmörk fyrir hugmyndaflugi mínu í matargerð á kjúkling... ég leyfi mér að lýsa eftir hugmyndum frá ykkur kæru bloggvinir að góðum og einföldum uppskriftum af kjúkling.  Læt það samt fylgja með að úrvalið hér í dönsku búðunum af sósum og svoleiðis til að nota í uppskriftirnar eru að mun skornari skammti hér en heima á Fróni.

Annars er allt fínt að frétta af okkur hér í Danmark.  Við erum nú orðin lögleg í landinu og öll komin með nýjar kennitölur.  Hér fá allir skírteini með kennitölunni sinni og eru þessi skírteini notuð í allar læknaheimsóknir, í apótekum og fleira.  Samt pínu skrýtið að flétta sjálfri sér upp í þjóðskrá á Íslandi og kemur bara nafnið mitt og heimilisfangið er Danmörku.  Ég held að ég sé ekki ennþá alveg búin að fatta þessa breytingu....

Það er kalt í Danmörku núna..... svo kalt að ég er farin að nota úlpuna mína, þið vitið þessa gulu, hehe.  Hlyni finnst reyndar gott að ég noti gulu úlpuna mína þegar við förum í búðina saman, það er ekki hægt að týna mér í búðinni þegar ég er í úlpunni góðu.  Held reyndar að hann sé guðslifandi fegin að ég skildi gulu skóna eftir heima á Íslandi.

En þar hafið þið fréttir dagsins

Muna eftir kjúklingnum:)

Out

Kolbrún


70.000 fléttingar

Ég hreinlega nenni ekki að blogga í kvöld.... en ég tók eftir því að ég er að skríða í 70.000 fléttingar á blogginu mínu.... hver verður númer 70.000? 

Kolbrún out


Fríið búið:(

Jæja, þá er komið að síðasta kvöldi í vetrarfríinu hjá strákunum mínum.  Þeir byrja allir aftur í skólanum í fyrramálið eftir 10 daga frí.  Það verða viðbrigði fyrir mig að verða allt í einu alein á daginn með Emilinn minn.... en það verður að venjast eins og annað.  Við höfum átt frábært frí saman og búin að gera heilmikið saman á þessum dögum.  Þannig að ég fer endurnærð inn í rútínuna aftur og vonandi strákarnir mínir líka.  Heimanámið unnið og nestisboxin komin full inn í ísskáp.. heimilislegt?

Ég get svo sem ekki sagt að við höfum verið einmanna hérna í Horsens.  Hér hringir síminn og dyrabjallan alla daga, ekki ólíkt því sem var í Jöklaselinu.  Ég kallaði Jöklaselið stundum umferðarmiðstöðina og mér sýnist stefna í það sama hér á Ranunkelvej.  Ég er bara glöð með það, enda myndi maður sjálfsagt kvarta ef engin kæmi í heimsókn.  Við erum búin að kynnast tveimur yndislegum hjónum sem búa hér í Horsens og auk þeirra eru Raggi og Berta í næstum því næsta húsi sem er bara best í heimi.  Auðvitað er dyrabjallan næstum alltaf til strákanna en það er bara frábært.

Eitt sem hefur setið ærlega í mér síðan í gær.  Hún Þórunn sem við heimsóttum í gær fór að segja okkur frá einhverri skógarlús.  Skógarlúsin getur fest sig við mann, hún er svo sterk að ekki er hægt að drepa hana með því að kremja hana.  Ef maður lætur ekki taka lúsina af sér ef hún hefur grafið sig fasta í húðina innan 24 klst, þá getur það haft vondar afleiðingar.  Til að mynda fékk einn fréttamaður hér í dk þessa lús og gerði ekkert í því fyrr en of seint og hann lamaðist.... grínlaust, þá hefur mér klæjað í allan dag... en kláði eru eina einkennið ef maður fær þessa skógarlús....  ég er hreinlega með þetta fast í hausnum á mér, veit samt að ég er ekki með neina skógarlús þótt mig klæji, vegna þess að mig klæjar allsstaðar muhahaha

En ég ætla að fara að sofa í hausinn á mér

Kolbrún out


Sveitasæla

Skemmtilegir dagar að baki.  Við eyddum gærdeginum í Þýskalandinu og gærkvöldinu í heimabakaðri pizzu með Bertu og Ragga.... skolað niður með einni rauðvín. 

Í dag fórum við svo í sveitina í heimsókn til Emma og fjölskyldu hans.  Þau eiga heima í Hedensted sem er á milli Horsens og Vejle.  Við fengum frábærar móttökur í sveitinni, nýbakaðar kökur og kruðerí og flottan félagsskap.  Þórunn og Steinar búa eiginlega á sveitabæ í Hedensted.  Þau eru með hund sem heitir Max og hann er Labrador hundur... vá hvað ég var hrædd við hann, en kemur ekki á óvart svosem.  Í þetta eina skipti sem hann kom nálægt mér tók ég fyrir andlitið og öskraði... gestgjafarnir sáu til þess að MAX kæmi ekki nálægt mér aftur í dag.  Á bænum búa líka tvær kanínur og tveir íslenskir hundar.   Og ekki má svo gleyma eplatrénu sem þau eru með í garðinum, en við fengum einmitt nýbakaða eplaköku í dag með eplum beint af trénu.  Ég hef aldrei séð eplatré áður, greinilega ekki veraldarvön... en hjónin sem búa við hliðina á Þórunni og Steinari gáfu okkur fullan poka af eplum beint af trénu áður en við fórum aftur heim.    Mjög skemmtilegur dagur hjá okkur semsagt í dag.  Við tókum svo Emma með okkur heim til Horsens og ætlar hann að gista hjá Hafsteini í nótt.   Endalausir næturgestir hér, því í gærkvöldi fékk Sólon vinur hans Jóns Inga að gista.....

Leyfði honum að sleikja sig og skellihló

Ég setti inn fullt af nýjum myndum í nýtt albúm

Kolbrún out


Kónguló, kónguló, vísaðu mér á berjamó

Ég hef nú reyndar ekki séð nein berjalyng hér í Danmörkunni, en nóg er af kóngulónum hér.  Ég vissi bara hreinlega ekki að það væru til svona margar kóngulær.  Þær eru hreinlega allsstaðar og spinna vefi sína á meðan ég sný mér við.  Við viljum ekki fá þessar kóngulær inn til okkar og því er tuskan á lofti hér allan daginn... ryksuga, skúra og þrífa.... samt koma þær inn.  Hlynur drap eina risastóra í gær með skónum sínum, og ég er ekki að grínast það spýttist gulur vökvi og mikið af honum út úr henni.. ojjjjj.

við heimilisstörfin

Það er engin sem kemst hjá því að vinna heimilisverkin hér....meira að segja byrjað að þjálfa yngsta son upp í því.  Finnst ykkur hann ekki taka sig vel út með ryksuguna?

En svona án gríns... ég vildi að ég gæti tekið mynd af kóngulóarvefnum hér í limgerðinu.... þegar það hefur komið smá dögg, þá sér maður vefina svo vel... þeir eru í öllum limgerðum og í öllu limgerðinu... krípí....  kóngulóarvefirnir eru meira að segja inn í bílnum hjá okkur, á milli garðstólanna okkar, allsstaðar.  Hlynur er alltaf að lenda í því að þurrka kóngulóarvef framan úr andlitinu á sér, hann virðist greinilega sérfræðingur í því að labba á vefina....

Þýðir þetta að það verður harður vetur í Danmörku?  

Kolbrún out

ps... var aðeins að leika mér með myndavélina í dag og setti inn nokkrar grallaramyndir af sonunum.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Kolbrún bloggar

Höfundur

Kolbrún Jónsdóttir
Kolbrún Jónsdóttir

Smellið á myndina og þá fáið þið allar upplýsingar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 52
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband