Rútínan tekin við

Þá eru jólin búin og rútínan tekin við aftur.  Hlynur er byrjaður aftur í vinnunni og í skólanum og undirbýr sig nú fyrir lokapróf áður en að hann fer í praktík.  Hann var svo sérlega heppinn með praktíkstað, verður bara hér í göngufæri við heimilið okkar.  Skólinn hjá strákunum er líka byrjaður aftur eftir jólafríið en Hafsteinn hefur ekki enn farið í skólann vegna veikinda.  Emil er svo auðvitað enn að berjast við hlaupabóluna en hún er nú sem betur fer í rénum.

Það er margt spennandi framundan hjá okkur.  Við erum nú að skipuleggja ferðina okkar til London, Hlynur er að fara til Íslands í nokkra daga, það er verið að skipuleggja Bandaríkjaferð í vor og svo eru það afmælin sem eru framundan.  Bæði Emil og Jón Ingi eiga afmæli núna í janúar.  Þá erum við líka aðeins farin að ræða sumarið.  Hlynur verður í fullri vinnu á sjónstöðinni í sumar en við ætlum þó að reyna að taka okkur nokkurra daga frí saman og fara til Parísar og leyfa strákunum að upplifa Disney land.  Það verður bara gaman:)   Við eigum líka von á gestum í sumar.  Fullt af skipulagningu í kringum það og við hlökkum til að eyða sumrinu hér í Danmörku með vinum og fjölskyldu.  Gott væri samt að fá að vita það fljótlega hverær hver og einn ætlar sér að koma til að við getum skipulagt okkur aðeins meira og ekkert stangist á, við búum jú ekki í mjög stóru húsnæði:)

Í byrjun árs hef ég aðeins verið að taka sjálfan mig í naflaskoðun og íhuga fyrir hvað ég stend sem manneskja.  Það er skrýtið að koma inn í nýjan heim hér í Horsens þar sem engin þekkir mína fortíð og engin þekkir fyrir hvað ég hef staðið á Íslandinu.   Niðurstaða mín er sú að ég veit sjálf nákvæmlega fyrir hvað ég stend, ég þekki mín mörk og fer eftir þeim og hlusta á þau.    Og í svona þankagangi leitar hugurinn aðeins heim til Íslands, heim í öryggið þar sem ég veit að ég á stóran vinahóp, góða vinnu og góða fjölskyldu.  Fólkið mitt heima á Íslandi veit fyrir hvað ég stend og ég er afskaplega þakklát fyrir allt það góða fólk sem ég veit að bíður eftir okkur heima á Íslandi.  Þokkalega væminn pistill en það eru bara svo margir hlutir sem hafa fangað hugann í byrjun nýs árs.

Bið að heilsa heim

Kolbrún 


Bólu Hjálmar

Yngsti sonur hefur verið nefndur upp á nýtt og gengur nú undir nafninu Bólu-Hjálmar.  Bólurnar koma fram í tugatali, jafnvel hundraðatali.... við allavega getum ekki talið blómleg heitin hjá Hjálmari okkar.  Nú eru bólurnar sjálfsagt aðeins farnar að þorna upp, allavega klæjar litla Hjálmari alveg óstjórnlega á nóttunni og bröltir eftir því.  Hvíta kremið er samt hans helsti óvinur....

Það eru nokkrar nýjar myndir í albúmi

Bólu Hjálmar

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

mikið af bólum í andliti

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Out

Kolbrún 


Gleðilegt nýtt ár!!

Við fjölskyldan í Horsens óskum öllum sem við þekkjum gleðilegs nýs ár og þökkum fyrir gamla árið.  Árið sem kvaddi um miðnættið er sennilega það viðburðarríkasta í okkar lífi, ár mikilla breytinga.  Ég held að það verði varla toppað.  En við heilsum nú nýju ári með gleði og hlökkum til alls þess sem nýtt ár ber í skauti sér. 

Gamlárskvöldið okkar var þokkalega öðruvísi en við höfum átt að venjast.  Við höfum nær alltaf verið í fjölskylduveislu í Trönuhólunum hjá mömmu og pabba.  Þar hefur stórfjölskyldan eytt áramótunum saman og sprent flugelda í kapp við nágrannana.  Gamlárskvöldið okkar í gær var rólegt en ljúft.  Eftir matinn fórum við út með strákunum að sprengja en mikil eftirvænting var hjá þeim.  Við leyfðum Emil að fara út með stjörnuljós þrátt fyrir hlaupabóluna, það er ekki hægt að missa af þessu.  

:)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég skrapp svo með stóru strákana á brennuna hér í Mosanum.  Emil fór að sofa... í fyrsta sinn sem hann fær ekki að vaka í gengum áramót, en hann hafði bara ekki úthald í þetta vegna hita og vanlíðunar.  Brennan var flott og við hittum fullt af okkar fólki þar.... frekar fyndin uppákoma þegar við vorum að fara heim aftur.  Þá voru mættir slökkvibíll, sjúkrabíll og löggubílar.  Greinilegt að einhver hafi tilkynnt um stórbruna í mosanum...

Kvöldinu eyddum við svo fyrir framan tölvuna.. horft var á fréttaannálana og Áramótaskaup sjónvarpsins.  Okkur fannst skaupið bara alveg ágætt:)  

Auðvitað vöktum við til að fagna áramótunum hér í Danmörku en við biðum líka áramóta á Íslandi og töluðum lengi við fjölskyldur okkar um miðnætti.  Ohhhh hvað mig langaði að vera í Trönuhólunum í gærkvöldi þegar ég talaði við fólkið mitt:(

Ég setti inn nokkrar nýjar myndir í nýtt albúm, áramótamyndir

God nyt ar

Kolbrún 


Á gamlársdag

Nú er síðasta steik ársins komin inn í ofn.... sænski rétturinn með gratíneruðum kartöflum og eplasalati er á matseðli kvöldsins... namm:)

Við byrjuðum þennan síðasta dag ársins á því að heimsækja lægevakten hér í Horsens.  Emil er hundlasinn og var með svo mikinn hita í nótt að ég gat varla legið við hliðina á honum.  Í dag komu svo bólurnar ógurlegu... Emil er semsagt með fasta liði eins og venjulega, veikur um áramótin.  Þetta eru þriðju áramótin sem hann er veikur.  Það var bara í fyrra sem hann slapp, annars hefur hann heimsótt læknavaktina á Smáratorgi að morgni nýjársdags:(   En núna er hann semsagt komin með hlaupabólu blessaður kallinn minn og maður hreinlega sér nýjar bólur koma fram núna.

Fastir liðir eins og venjulega... við erum að horfa á þá þætti núna aftur... þvílíka snilldin... INDI MINN.....  Berta lánaði okkur þættina og horfðum við á fyrstu þrjá í gærkvöld.

En ég ætlaði nú bara aðeins að láta heyra í mér svona í árslok.... skrifa meira á morgun.

Njótið kvöldsins

Kolbrún 


Flugelda - veður

Það blæs heldur betur á Íslandi les maður á fréttasíðunum.... hér í Danmörku er aftur á móti þetta fína veður og stuttermabolaveður í dag. 

Við erum búin að kaupa flugeldana fyrir morgundaginn, keyptum stóran pakka fyrir sama verð og eina rakettu heima liggur við.  Það leiðinlega við flugeldakaupin hér í Danmörku að við erum bara að styrkja Bilka... en höfum alltaf styrkt björgunarsveitirnar heima á klakanum.

Viljið þið sjá hvernig viðrar hjá okkur á gamlárs... nanananabúbú

byvejr_dag1

 

 

 

 

 

 

 

 

Kolbrún out 


Við erum á leið til Afríku........ NOT

Þegar við fjölskyldan fluttum hingað til Danmerkur settum við okkur það markmið að fá sem mest út úr þessum árum.  Við ætluðum að ná að ferðast eins mikið og við gætum og skoða heiminn eins mikið og við getum.  Við höfum skoðað okkur þokkalega um hér á Jótlandinu og Þýskaland er orðið bara svona venjuleg dagsferð fyrir strákana.  Emil er reyndar með sérstakt dálæti á Þýskalandi og í hvert sinn sem við erum að velta fyrir okkur hvað við eigum að gera okkur til dundurs um helgar, stingur Emil upp á því að fara til Þýskalands.  Þá heimsóttum við Svíþjóð líka síðastliðið sumar, en vorum ekki mjög snortin:)

Við ætlum að byrja nýja árið með stæl.... stefnum á að skreppa fjölskyldan til London í helgarferð (kannski bara eina nótt).  Hvorki ég, né strákarnir hafa komið til London og því er þokkaleg tilhlökkun.  Við ákváðum að gefa strákunum þessa ferð í afmælisgjöf, en lággjaldaflugfélögin hér s.s Ryanair bíður upp á ferðir daglega til London frá Billund á 1 kr danskar. Við þurfum því bara að borga flugvallaskattana sem gera um 8000 ísl krónur fyrir okkur fjölskylduna fyrir báðar leiðir.  Emil hefur auðvitað fengið fregnir af því að hann sé að fara til London og að við förum í kringum afmælið hans Jóns Inga.  Hann tilkynnti hátíðlega í dag að þegar hann ætti afmæli vildi hann að við færum öll saman til Afríku... hvaðan hann fékk þessa hugmynd veit ég ekki, en mér finnst þetta soldið sætt:)

Við erum með eitt vandamál varðandi London.  Strákarnir vita alveg hvað þeim langar að skoða og hvaða búðir þeir vilja sjá.... en við höfum enga gistingu.  Hótelin í London vilja ekki meira en 4 saman í herbergi en við erum auðvitað fimm.  Er þetta vegna eldvarnarreglna einhverra.  

Er einhver sem veit um einhverja leið fyrir okkur í London?  Veit einhver um einhverja íbúð - eitthvað sem hægt væri að fá leigða eina helgi  (erum að spá í 18 til 20 jan).   Veit einhver um einhver gistiheimili eða eitthvað sem hægt er að fá ódýrt???  

Já, nú vantar okkur hjálp og ég treysti á bloggvini mína:)

london-bus-6

 

 

 

 

 

 

 

Með góðri kveðju til ykkar allra

Kolbrún 


Jólakveðjurnar

Jólakortin til okkar fjölskyldunnar eru enn að streyma í póstkassann.  Mest kom auðvitað fyrir jólin en nokkur síðbúin hafa verið í kassanum okkar í gær og í dag.  Jólakortin og lestur þeirra er alveg heilug stund á heimilinu hjá okkur og erum við mjög þakklát fyrir allar kveðjurnar sem við fengum í ár.  Við vitum hverjir muna eftir okkur og það er góð tilfinning þegar maður er langt frá allt og öllum.  Sérstaklega finnst mér gaman að fá persónuleg jólakort, og það sem hefur verið að færast í vöxt - jólabréf.  Við fengum allavega þrjú löng jólabréf um þessi jól og finnst mér það mjög skemmtileg bréf. Margir sem sendu okkur jólakort minntust á bloggið mitt og sögðu að hér kæmu þeir oft við... nú er ég að nálgast 100.000 gesti og því gefa svoa kveðjur mér innblástur til að halda áfram að halda úti bloggi.  

santa-reading

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég hef líka fengið góðar jólakveðjur hér á blogginu mínu og þakka ég fyrir þær.  Mér er það sérstaklega dýrmætt þegar aðstandendur barnanna minna í Hólabergi senda kveðjur, ég finn þá fyrir því að ég var að gera eitthvað rétt í vinnunni - vinnunni sem ég sakna mest í heimi.  Ég fékk líka góða jólakveðju frá SSR, mínum fyrri vinnustað.  Mér var sendur kaffipakki sem var sérmerktur SSR, mín hugmynd frá upphafi og fannst mér frábært að fá pakkann heim að dyrum og sjá að þetta varð að veruleika. Þið eruð  best hjá SSR InLove

Out

Kolbrún 


Síðustu dagar

Það hefur ekki verið nein lognmolla í kringum okkur síðustu tvo daga.  Á annan dag jóla skelltum við okkur á jólaball hjá Íslendingafélaginu.  Emil og Steini fóru með okkur hjónum og skemmtu báðir sér vel.  Dansað var í kringum jólatréð, boðið upp á glæsilegt kökuhlaðborð (allir komu með eitthvað með sér) og svo auðvitað kom jólasveinninn og gaf krökkunum nammipoka.  Hafsteinn hitti Emma vin sinn á jólaballinu og sáum við þá félaga ekki mikið... hafa greinilega haft nóg til að tala um.

Emil fékk mynd af sér með jólasveininum

 

 

 

 

 

 

 

 

Þegar við komum heim af jólaballinu fengum við góðan gest frá Íslandinu góða. Dofri kom hér við og gisti hjá okkur í nótt.  Kvöldinu var eytt við mat og drykk og kjaftað langt fram á nótt (hmmm nema ég sé svona mikið kvöldsvæf).  Frábært að fá Dofra í heimsókn og Emil hefur spurt um hann reglulega í dag, hvar hann sé og hvort hann komi aftur:)

Dofri með Emil.... Emil finnst Dofri alveg æðislegur, kallar hann Dorfa

 

 

 

 

 

 

 

 

Deginum í dag eyddum við öllum í Þýskalandi.  Við fórum í risa matvöruverslun sem heitir Citti Park og þvílíkt úrval af matvöru á einum stað hef ég aldrei á æfi minni sér.  Þetta var bara eins og að komast í paradís og ég á örugglega eftir að fara þangað aftur og gramsa aðeins meira... Hlynur keyrði svo okkur Emil og Steina í leikland í Flensburg á meðan hann fyllti bílinn á Grensunni.  Og þvílíkt sem hann Emil minn skemmti sér í leiklandinu... vill sko fara aftur á morgun.  Þannig að frábær dagur í dag í Þýskalandi:)

Tengdamamma mín á afmæli í dag, 27. desember.  Tengdamamma mín er alveg yndisleg kona og einn besti kokkur sem ég þekki.  Óska ég henni innilega til hamingju með daginn.  Við hefðum alveg viljað eyða kvöldinu í Mosfellsbænum með henni......

En það eru fullt af nýjum myndum í nýju albúmi

Njótið

Kolbrún 


Skild það vera hjólajól

Gleðilega hátíð kæru vinir...

Þá er aðfangadagurinn liðinn.  Aðfangadagur er held ég sá allra erfiðasti dagur ársins fyrir börnin mín, þvílíkar tilfinningar, spenna og eftirvænting.  Við tókum danska tímann á þetta og borðuðum kl 18:00.  Við höfðum íhugað að borða kl 19:00 til að fylgja samlöndum okkar en því miður sáum við að það yrði ekki auðvelt að fresta jólunum um þennan klukkutíma.   Íslenski lambahamborgarhryggurinn bragðaðist afar vel... miðsonur fór þó ekki saddur frá borði þar sem magaspennuverkur gerði vart við sig.   Já, það er erfitt að vera 10 ára.  Ég held að það sé óhætt að segja að allir hafi unað hag sínum vel í gærkvöldi og allir sáttir með sínar jólagjafir.  Við þökkum kærlega fyrir okkur. 

Bræður að bíða eftir jólunum

 

 

 

 

 

 

 

 

Átveislan byrjaði svo aftur í dag... enda höfðum við heila nótt til að safna kröftum til að halda áfram þar sem frá var horfið í gær.  Hangikjöt, kartöflur og uppstúf með laufabrauði, flatkökum og baunasalati og meira meðlæti var borðað hér í kvöld við mikinn fögnuð.  Miðsonur tók hressilega á því í matartímanum í kvöld, enda hangikjöt hans uppáhaldsmatur og spennumagaverkurinn farin veg veraldar.

Helga systir mín á afmæli í dag, jóladag.  Við fjölskyldan óskum henni innilega til hamingju með afmælið.... njótið kvöldins með fjölskyldunni... söknum ykkar fullt á þessum tíma og vildum að við værum í afmælismatnum hjá þér í kvöld:)

En á morgun fáum við gest frá Íslandi.   Hann Dofri ætlar að koma til okkar á morgun og gista allavega eina nótt.  Mikið hlökkum við til að fá hann í heimsókn til okkar, enda góður vinur okkar allra.  Nú svo er stefnt á jólaball hjá Íslendingafélaginu á morgun líka, þannig að okkur ætti ekki að leiðast.  

Njótið þess að vera saman um hátíðirnar

Kolbrún

 

Fleiri myndir í albúmi:) 


Gleðileg jól

Elsku fjölskylda og vinir,

Okkur langar að óska öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.  Þökkum fyrir allt liðið á liðnu ári, stuðning og aðstoð við flutning okkar hér til DK og allt annað.  Stuðningur til okkar er okkur ómetanlegur.  Nú eru að ganga í garð fyrstu jólin okkar án ættingja.  Það verður vafalaust skrýtið að vera bara ein á jólunum en engu að síður er mikil tilhlökkun í að prófa eitthvað nýtt.  Við erum auðvitað að upplifa jólin á allt annan hátt en við höfum gert áður.  

Í morgun komu jólasveinar í heimsókn til strákanna og færðu þeim jólapakka.  Mikið rosalega fannst Emil gaman að fá þá sveina í heimsókn.  Hafsteinn fattaði að þetta voru ekki ekta jólasveinar, þannig að ég bara sagði honum að pabbi hans væri líka jólasveinn í dag og væri að færa öðrum börnum pakka á aðfangadag í Horsens.  Já, maðurinn minn er jólasveinn í dag.

Hlynur Jólasveinn

 

 

 

 

 

 

 

 

Set líka inn mynd af Emil með þeim sveinum í morgun, fleiri myndir í albúmi og óska ykkur gleðilegra jóla.

Emil með sveinunum í morgun

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kolbrún 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Kolbrún bloggar

Höfundur

Kolbrún Jónsdóttir
Kolbrún Jónsdóttir

Smellið á myndina og þá fáið þið allar upplýsingar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 79
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband